Páll og Lenka að tafli á sama móti 2023! Mynd: Daði Ómarsson.

Segja má að gangur mála á Öðlingamótinu í ár hafi verið nokkuð óvæntur! Snemma fór Kristján Örn Elíasson eins og stormsveipur í gegnum fyrstu umferðirnar og fékk meðal annars 2,5 vinning úr 3 skákum gegn öllum stigahæstu keppendum mótsins. Síðustu tvær umferðir hefur Kristján hinsvegar þurft að lúta í dúk og er hann nú úr leik í baráttunni um titilinn.

Í þremur efstu sætum sitja Páll G. Jónsson, Lenka Ptacnikova og Haraldur Baldursson með 4,5 vinning að loknum 6 umferðum. Páll og Lenka gerðu innbyrðis jafntefli í umferðinni en Haraldur lagði Kristján að velli.

Skák Haraldar og Kristjáns var sviptingasöm. Pirc vörnin kom engum á óvart frá Kristjáni og vafalítið hafa þeir teflt innbyrðis svipaðar skákir áður. Yfirhöndin sveiflaðist aðeins í byrjun en Haraldur virtist ná yfirhöndinni og Kristján fórnaði skiptamun. Haraldur fórnaði honum til baka, líklega of snemma, og missti aðeins tökin á stöðunni.

Kristján stóð allt í einu vel og fékk kjörið tækifæri hér…

Hér hefði 34…Hb8 gefið svörtum glimrandi stöðu. …Hxb2 er næsti leikur svarts og vinningsmöguleikar mjög góðir. Þess í stað lék Kristján 34…d4? og Haraldur var brögðóttur og lék 35.Rh5!

Kristján gat enn bjargað sér með 35…Rg4+! 36.hxg4 He2+ og virkni svarts ætti að bjarga taflinu. Þess í stað kom 35…Rf5?? 36.Hxf5! og svartur getur nánast gefið!

Lenka fékk í raun dauðafæri að koma sér ein í efsta sætið þegar hún fékk mjög vænlegt miðtafl gegn Páli, peði yfir og með fulla stjórn að því er virtist. Páll náði með gríðarlegri seiglu að halda sér inni í skákinn og ná svo peðinu til baka. Lenka reyndi allt hvað hún gat í endataflinu en það var of auðvelt að halda fyrir hvítt.

Ekki liggur fyrir pörun í lokaumferð en ljóst er þó að Lenka fær hvítt á Harald Baldursson. Erfiðara er að sjá hvern Páll G. Jónsson fær.  Skák Lenku og Haraldar gæti ráðiist úrslitum en ef Páll vinnur sína skák er hann lágmark í skiptu efsta sæti.

Úrslit 6. umferðar:

Staðan á toppnum æsispennandi.

Lokaumferðin fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld í Faxafeninu!

- Auglýsing -