
Skólaskákmót Breiðagerðisskóla fór fram föstudaginn 5. apríl síðastliðinn.
Mótið hefur verið árlegur viðburður undafarin ár og alltaf verið vel sótt. Í ár var þó slegið þátttökumet en rúmlega 100 nemendur skólans skráðu sig til leiks og komu þeir úr 3.-7. bekk.
Tefldar voru fimm umferðir og lauk mótinu þannig að þrír keppendur, Pétur Leó Guðjónsson 6. bekk, Ólafur Benediktsson 5. bekk og Hjalti Hreinn Arngrímsson 6. bekk, urðu efstir og jafnir með fullt hús vinninga og komust áfram í aukakeppni. Þar reyndist Pétur Leó happadrjúgastur, vann báðar sínar skákir, og er því Skólaskákmeistari Breiðagerðisskóla 2024. Ólafur varð annar og Hjalti Hreinn þriðji.

Aukaverðlaun fyrir bestan árangur í hverjum árgangi hlutu Tristan Þór 3. bekk, Friðrik Yngvi 4. bekk og Styrmir 7. bekk.

Björn Ívar Karlsson, skákkennari skólans, var mótsstjóri og skákdómari en naut góðrar aðstoðar Þorkels skólastjóra og annarra röggsamra starfsmanna skólans, sem komu að uppsetningu og dómgæslu. Stórt skákmót eins og þetta setur mikinn svip á skólabraginn, kveikir áhuga og á stóran þátt í skapa þá skákmenningu sem hefur myndast innan Breiðagerðisskóla.