Stofnað hefur verið nýtt íslenskt skákfélag undir hinu virðulega heiti 64 Mislyndir Biskupar.

Í nafni félagsins felst að félagsmenn eru keppnisfólk af öllum kynjum sem hleypur kapp í kinn í baráttunni á reitunum 64. Á móti kemur að tilgangur félagsins er að vera gleðigjafi sem örvar félagsmenn til jákvæðni og heilbrigðra lífsnautna á borð við glettni og gamansemi, neyslu góðs matar, líkamsrækt og rækt hugans við skákboðið. Þannig næst gott jafnvægi milli keppnishörku og mennsku, mislyndis og samlyndis.

Nafn félagsins felur jafnframt í sér það meginviðmið að þegar félagsmenn eru orðnir 64 talsins er hámarki náð og lokað fyrir frekari skráningu. Þannig verður alltaf lögð meiri áhersla á gæði og skemmtigildi starfsins en fjölda iðkenda.

Félagið óskar eftir inngöngu í Skáksamband Íslands og stefnir að þátttöku í Íslandsmóti skákfélaga í haust. Skemmtikvöld félagsins hefjast í sumar.

Þeir skákunnendur sem óska að gerast félagar í 64 mislyndum biskupum eru vinsamlega beðnir að senda umsókn þar um til Sigurðar Daða Sigfússonar (Siggidadi@icloud.com) eða Jóns Þorvaldssonar (jon@eflir.is).

- Auglýsing -