Ótrúleg tölfræði Nepo, 35 umferðir samfleytt á toppnum!

Ian Nepomniachtchi virðist vera sérfræðingur í áskorendamótum en hann er nú efstur að loknum 7 umferðum af 14 á Áskorendamótinu sem fram fer í Toronto í Kanada. Tölfræði Nepo á síðustu þremur slíkum mótum er í raun galin. Hann hefur aldrei EKKI verið í efsta sæti í 35 umferðir samfleytt!

Förum yfir stöðu mála og hvernig mótið hefur verið hjá keppendum til þessa. Skak.is mun fylgjast betur með seinni hluta mótsins með fréttum eftir hverja umferð!

  1. Ian Nepomniachtichi 4,5 vinningar af 7
Nepi að tafli (Mynd: FIDE)

Jafntefli í fyrstu umferð gegn Abasov var svosem alltaf líklegt. Fyrsta áskorendamót Azerans og hann ólíklegur að rugga bátnum með hvítu. Einhverjir héldu að Abasov yrði mögulega boxpúði á mótinu og jafnvel jafntefli með svörtu gætu reynst dýrkeypt í toppbaráttunni. Líklegast er það þó ekki raunin.

Nepo komst á skrið í 2. umferð þegar hann vann með hvítu gegn Firouzja. Skemmtileg og dýnamísk skák. Firouzja lagði allt undir en aðgerðir hans reyndust vafasamar.

29…Dg6?? gefur biskupinn á e7 30.Dxe7 en það kemur á daginn að hvítur stendur sókn svarts af sér. Kóngur hvíts komst undan á flótta og Nepo búinn að leggja grunn að góðu móti á meðan þetta tap virtist leggjast illa í Frakkann sem lagði allt undir til að komast á mótið og hafði væntanlega miklar væntingar.

Í þriðju umferð slapp Nepo örlítið með skrekkinn gegn indverska ungstirninu Dommaraju Gukesh. Jafntefli varð niðurstaðan en Gukesh fékk mjög gott tækifæri á að búa til mjög erfið vandamál fyrir Rússann. Indverjinn var með betri stöðu, biskupaparið og vonir um einhverja pressu, það skilaði sér ekki en hefði getað það í þessari stöðu:

30.a4! hefði verið erfiður þar sem eftir 30…bxa4 31.Bc4 er leppunin ansi erfið fyrir svartan.

Nepo komst í fín mál og +2 í fjórðu umferðinni þegar hann lagði Vidit að velli. Vidit hafði byrjað vonum framar en Nepo náði honum niður á jörðina þegar hann grandaði Berlínarmúr Indverjans.

Vidit átti enn einhverjar vonir um að verjast eftir 37…Rxe7 38.Bxe7 Hxb2 þar sem mislitir biskupar eru á borðinu og svartur eygir góðar vonir um að berjast fyrir jafnteflinu. 37…Be8?? var hinsvegar ekki málið og Nepo svaraði með 38.Hxd5! framhaldið varð 38…Bxh5 39.Bc1! Bg6+ 40.Ke5 b4 en þá sýndi Nepo klærnar aftur

41.Kf6! og á daginn kemur að hvítur getur gefið hrókinn á d5 þar sem hrókur svarts er gjörsamlega úr leik á b3.

Í fimmtu umferð mætti Nepo enn einum Indverjanum, nú Praggnanandhaa. Indverjinn sýndi framúrskarandi byrjanaundirbúning eins og hann hefur gert nánast allt mótið og setti Nepo í mikil vandræði. Hættuleg nýjung og mannsfórn á f7 reitnum settu Rússann undir pressu á borðinu og á klukkunni. Einn af kostum Nepo virðist að vera háll sem áll og á hann það til að sleppa ansi vel með skrekkinn á köflum!

Hér átti Pragga nokkuð einfalda leið. 26.De5! sem hótar Hxh6+ svartur á enga góða leið til að valda h6 og eftir 26…Kg8 27.Hg6 Hf7 28.Hxg7+ Hxg7 29.Dd5+ á hvítur kolunnið tafl. Peði yfir með betri kóng og menn og ætti að eiga sigurinn vísan. Þess í stað virðist Pragga hafa verið sleginn skákblindu og lék 26.Bf5? og allt í einu eftir 26…Rb7 sem Indverjinn hlýtur að hafa misst af þá nær Nepo að skipta upp á liði og halda velli þó hann sé enn með ögn verri stöðu.

Í sjöttu og sjöundu umferð mætti Nepo Bandaríkjamönnunum tveimur sem flestir töldu líklegasta fyrir mótið. Með hvítt gegn Caruana í 6. umferð fékk Nepo ekki neitt og Caruana aldrei í vandræðum. Fín úrslit fyrir Caruana með svörtu sem eltir Nepo eins og skugginn. Í sjöundu umferð sýndi Nepo enn einu sinni góð varnartilþrif. Nakamura, líkt og Pragga, bjó til mikil vandræði fyrir Nepo með nýjung gegn Petroffs vörninni. Nepo lét hinsvegar ekki slá sig útaf laginu og hélt nægjanlegri pressu skiptamun undir og leyfði Naka ekki að koma mönnunum út, skemmtileg og spennandi skák!

Nær Nepo að halda dampi í seinni hlutanum?

2-4. Dommaraju Gukesh 4 vinningar af 7

Gukesh verið flottur, gæti hann orðið yngsti heimsmeistari sögunnar? (Mynd: FIDE)

Indverjinn ungi gæti komist í sögubækurnar ef hann vinnur Kandídatamótið. Þá er hann kominn í dauðafæri á að verða yngsti heimsmeistari sögunnar! Gukesh er búinn að vera í og við toppinn allt mótið og er nú hálfum vinningi á eftir Nepo.

Gukesh komst á bragðið með sigri á landa sínum Praggnanandhaa í skemmtilegri baráttuskák. Pragga hafði yfirhöndina með hvítu og fórnaði peði en Gukesh varðist vel á öftustu reitarröðum og bjó yfir sterkum peðamassa. Pragga fórnaði á peðin en missti af góðu framhaldi.

Eitthvað virðist skálínan a1-h8 ætla að verða Pragga dýrkeypt (sjá skákina gegn Nepo að ofan) og hér hefði hún tryggt honum allavega jafnt tafl eftir 25.Rh6+! gxh6 26.Dg4+ Bg5 27.Dd4 og hrókurinn á a7 fellur. Þess í stað kom 25.Dg4? og eftir 25…Rd8! var svartur kominn með yfirhöndina í þó flókinni skák.

Gukesh missti af mjög vænlegri leið gegn Nepo eins og farið var yfir hér að ofan í umfjöllun um mótið hjá Nepo. Gukesh hélt svo mikilvægu jafntefli nokkuð auðveldlega með svörtu gegn Caruana. Í kjölfarið kom mikilvæg skák gegn „boxpúðanum“ Abasov með hvítu. Nokkuð ljóst var fyrir mót að menn yrðu að nýta hvítu mennina gegn Abasov ef menn ætluðu sér eitthvað! Það hafðist í 87 leikjum í skrautlegri skák þar sem Abasov varðist vel en tapaði svo jafnteflislegu drottningarendatafli þar sem Gukesh hafði einfaldlega meira baráttuþrek.

Gukesh þarna kominn með +2 eins og Nepo og gerði jafntefli í næstu umferð við Nakamura, ásættanleg úrslit.

Í sjöundu umferðinni tapaði Gukesh hinsvegar sinni fyrstu skák. Tefldi enn og aftur vel og virtist gera nánast allt rétt en lét Firouzja plata sig í tímahraki. Einhver grunur læðist að ritstjórn að Firouzja eigi eftir að verða einhverskonar jóker í að ráða úrslitum á þessu móti!

Gukesh má vel við una eftir fyrri hlutann, +1 og í góðu færi og það sem er mikilvægast, hann virðist vera að tefla vel!

2-4. Fabiano Caruana 4 vinningar af 7

Fabi virðist ætla að nota reynsluna, vera traustur og bíða átekta (Mynd: FIDE)

Flestir veðjuðu á Caruana fyrir þetta mót. Hann hefur verið í góðu formi undanfarið og eini skákmaðurinn í heiminum yfir 2800 elóstigum ásamt Magnus Carlsen. Oft hefur það verið þannig að ef menn veðja of mikið á einn mann á þessum mótum hefur hann oftar en ekki valdið vonbrigðum. Margir muna eftir Aronian sem flaug með himinskautum með 2830 elóstig þegar hann endaði í næstsíðasta sæti á Áskorendamótinu árið 2014. Caruana stefnir engan veginn í lélegt mót er þvert á móti „mjög solid“. Kannski var planið hjá Caruana að vera traustur og bíða átekta og sækja síðar á mótinu ef vera þyrfti.

+1 er niðurstaðan í hálfleik hjá Caruana, hann hefur unnið eina skák en kannski vantað að taka aðeins meiri áhættur…en kannski var það meðvitað.

Caruana hóf leik á því að fá smá pressu gegn Nakamura en líklegast aldrei nóg til að vinna. Hann kýldi í boxpúðann í annarri umferð og vann með hvítu gegn Abasov.

Næstu skákir voru traust en óspennandi jafntefli en í 5. umferð kom tvísýn skák gegn Vidit! Indverjinn tefldi af fítonskrafti og stóð til vinnings.

Caruana hélt í veika von með mótspili á a-línunni. Sú veika von fékk uppreist æru eftir 26.De5?? Da4! og allt í einu verður hvítur að þráskáka þar sem hvíti kóngurinn hefur ekki tíma til að hlaupa. Hefði hvítur hafið hlaupið með 26.Kc2! hefði hann staðið til vinnings.

Í kjölfarið komu tvö jafntefli þar sem Caruana var aldrei í miklum vandræðum en var þó með aðeins verra tafl gegn Pragga sem tefldi óvænt franska vörn gegn Caruana!

Stórskemmtilegt byrjanaval hjá Pragga á mótinu til þessa (Mynd: FIDE)

2-4. Rameshbabu Praggnanandhaa 4 vinningar af 7

Mót Pragga hefur verið nokkuð svipað og hjá Gukesh. Ein tapskák og tvær vinningsskákir. Pragga hefur eiginlega verið að tefla skemmtilegast á mótinu það sem af er og byrjanaval hans hefur verið mjög athyglisvert og fjölbreytt!

Hann hóf leik með svörtu í 1. umferð gegn Alireza og tefldi opna afbrigðið í Spánverjanum. Byrjun sem var í uppáhaldi hjá Korchnoi (gott ef ekki fram að einvíginu við Jóhann!) sem og hjá Mamedyarov, Sokolov og fleiri. Pragga fékk fín færi en mótspil Alireza virtist ætla að landa honum sigri en þá fann Pragga magnaða vörn.

32…Re5!! línurof þar sem 33.Hxe5 gefur svörtu kost á 33…Hxh2+! með þráskák!

Tapið gegn Gukesh kom í kjölfarið í 2. umferð en Pragga kom strax til baka í 3. umferð gegn Vidit. 4…f5?! hin svokallaða Schliemann vörn sést sjaldan á stórmeistara-leveli og hvað þá á kandídatamóti! Pragga greinilega tilbúinn að taka smá áhættur og það skilaði sér í góðum sigri í þessari skák!

Auðvelt jafntefli með svörtu kom í 4. umferð gegn Nakamura og svo missti Pragga af dauðafæri gegn Nepo í 5. umferð eins og fram hefur komið. Mikilvægur sigur kom með hvítu í 6. umferð þar sem Abasov laut í dúk.

41.Ha5! þvingaði hrókakaup og svartreitabiskup svarts reyndist algjörlega lamaður í baráttu við a-peð hvíts!

Í sjöundu umferð kom enn ein vendingin í byrjanavali Pragga. Hann valdi franska vörn gegn Caruana og lenti ekki í neinum vandræðum og fékk í raun aðeins betri færi í miðtaflinu en náði ekki að nýta sér þau. Frakkinn á alltaf sýna stuðningsmenn *hóst* og því gaman að sjá flottar Frakka-skákir á þessum vettvangi!

Pragga er líkt og félagar hans í 2-4. sæti í fínum málum og í toppbaráttu fyrir seinni hlutann.

5-6. Hikaru Nakamura 3,5 vinningur af 7

Nakamura verður að gera betur í seinni hlutanum! (Mynd: FIDE)

Hikaru Nakamura var líkt og Caruana talinn sigurstranglegur á þessu móti. Bandaríski „streamerinn“ hefur hinsvegar valdið nokkrum vonbrigðum og er aðeins með 50% nú í hálfleik. Betur má ef duga skal en Nakamura getur huggað sig við að nóg er eftir og hann getur ennþá valdið usla ef hann heldur rétt á spöðunum.

Naka byrjaði á jafntefli með svörtu gegn Caruana þar sem hann kom honum vel á óvart í byrjuninni. Í kjölfarið kom hinsvegar skelfileg skák þar sem honum var gjörsamlega pakkað saman af Vidit.

11…Bxh3!! var magnaður leikur. Aðalhugmyndin hjá Vidit er að 12.gxh3 er svarað með 12…Db8! Engu að síður á hvíta staðan að vera í lagi en Nakamura brást skelfilega við og var kominn í kaðlana skömmu síðar og staða hans varð fljótlega alelda.

Í senn ein af skákum mótsins en jafnframt með óvæntari úrslitum mótsins sem settu Nakamura strax í slæm mál þar sem hann hafði tapað með hvítu mönnunum svo snemma móts. Í kjölfarið komu í raun leiðinlegar skákir þar sem ekkert gerðist með svörtu gegn Abasov og hvítu gegn Praggnanandhaa.

Í fimmtu umferð hljóp svo sannarlega á snærið hjá Nakamura þegar jóker mótsins, Alireza Firouzja, gjörsamlega sprengdi sig og lék af sér skákinni í jafnteflisstöðu. Hafa ber þó í huga að staðan var auðteflanlegri hjá Nakamura og auðvelt að benda á tölvumatið frá hliðarlínunni.

Engu að síður þá á 62.Kxd3?? ekki að sjást á þessu leveli þó í tímahraki sé. 62…g3 og hvítur gaf þar sem peðið kemst óverjandi á g2 útaf riddaragaflinum á f4.

Rólegt jafntefli kom í 6. umferð gegn Gukesh en Naka virtist loksins ætla að sýna vígtennurnar í sjöundu umferðinni gegn Nepo í skemmtilegri skák. Góður byrjanaundirbúningur kom Nepo í vandræði en Rússinn náði enn eina ferðina að verjast eins og við sáum hér ofar í fréttinni og hægt er að sjá í samantekt Naka

Heilt yfir of rólegur fyrri hluti hjá Nakamura og hann þarf svo sannarlega að spýta í lófana í seinni hlutanum. Heppnissigurinn gegn Firouzja gæti þó orðið mikilvægur þegar uppi er staðið ef það gerist!

5-6. Vidit Santosh Gujrathi 3,5 vinningur af 7

Flottir sprettir hjá Vidit sem má vel við una (Mynd: FIDE)

Vidit má að mörgu leiti vel við una. Mótið hefur verið sannkallaður rússíbani upp og niður hjá honum. Hann hóf mótið með látum. Jafntefli með svörtu gegn Gukesh og einn af leikjum mótsins.

17…Bg4!! var ótrúlegur leikur! Aðalhugmyndin er að rýma e4 reitinn í mörgum varíöntum og eins tengja hrókana. Gukesh varð að þvinga strax jafntefli með 18.Bc3 en 18.fxg4 Hfc8 leiðir til mikilla leiðinda fyrir hvítt.

Í annarri umferð kom sigurinn á Nakamura og aftur þrumuleikur með svarta hvítreitabiskupnum.  Pragga náði honum niður á jörðina í þriðju umferðinni og Nepo sendi hann svo í dimman dal með því að mölbrjóta Berlínarmúrinn hans í fjórðu umferð. Svefnlausu næturnar héldu vafalítið áfram eftir að Vidit missti af vinningi gegn Caruana í fimmtu umferðinni.

Sjötta umferðin færði Vidit svo aftur í 50% þegar hann lagði Firouzja að velli sem virtist sáttur með að kveikja einhverskonar bál á borðinu en hann brann svo á því sjálfur. Frakkinn lék drottningu sinni fram og til baka sex sinnum í fyrstu sextán leikjunum bara til að enda aftur á byrjunarreitnum!

Vidit hefði í raun getað komið sér í frábæra stöðu með sigri á Abasov með svörtu í sjöundu umferð en missti af vænlegum færum. Vidit má engu að síður vel við una en ritstjórn telur þó ólíklegt að hann ógni efstu mönnum í seinni hlutanum.

7. Alireza Firouzja 2,5 vinningur af 7

Vonbrigði mótsins, Alireza Firouzja (Mynd: FIDE)

Alireza er klárlega vonbrigði mótsins. Margir töldu hann eiga möguleika á sigri ef hann væri rétt gíraður. Þrjár tapskákir í fyrstu sex skákunum sína að svo er ekki. Firouzja klóraði í bakkann með því að plata Gukesh í tímahraki í sjöundu umferðinni. Frakkinn virðist hafa meiri áhuga á í hvernig flíkum hann mætir til leiks í heldur en skákunum og eyðir tíma í hraðskákeinvígi á netinu rétt fyrir umferðir.

Möguleikar hans á sigri virðst algjörlega útilokaðir og nú er spurning hvort hann verði áhrifavaldur líkt og Ivanchuk í frægu Áskorendamóti árið 2013. Einhver grunur læðist að ritstjórn að svo megi vera!

8. Nijat Abasov 2 vinningar af 7

Það vill enginn vera boxpúðinn en það þarf einhver að taka það að sér! (Mynd: FIDE)

Fyrirfram var nokkuð ljóst að Abasov myndi eiga erfitt uppdráttar enda langstigalægstur keppenda. Azerinn vann sér þátttökurétt með frábærum árangri á Heimsbikarmótinu á heimavelli í Baku. Árangur í raun svo óvæntur að heyrst hafa hvísl í hornum um hvort allt hafi verið með feldu þar!

Árangur Abasov á Áskorendamótinu er kannski nokkurn veginn eins og við var að búast, menn ráðast á hann með hvítu en Abasov hefur náð að halda velli þegar hann hefur sjálfur haft hvítt. Það virðist liggja fyrir að það gæti orðið dýrkeypt í toppbaráttunni að ná ekki sigri með hvítu gegn Abasov sem er eins og við var að búast og verður boxpúðinn á þessu móti.

Staðan:

Goryachkina eða Tan Zhongyi eru líklegar í kvennaflokki (Mynd: FIDE)

Áskorendamót kvenna virðist ætla að verða barátta milli rússnesku keppendanna og þeirra kínversku

Að mati ristjórnar eru það mistök að hafa þetta mót á sama tíma og sjálft Áskorendamótið enda fellur það einfaldlega í skuggann á aðalmótinu. Þetta er svolítið eins og að hafa úrslit í þrístökki á Ólympíuleikum á sama tíma og úrslit í 100 metra hlaupi. Áskorendamót kvenna á skilið að fá sína eigin athygli og bestu skýrendur með fókus á sjálft mótið. Flestir sem ristjórn hefur innt álits á þessu eru sammála.

Ýmsar leiðir eru til að fylgjast með:

Ýmsar rásir bjóða upp á samantekt (recaps) og annað efni.

 

- Auglýsing -