Saga níundu umferðar var klárlega sigur Vidit á Hikaru Nakamura. Indverjinn gæti verið að eyðileggja mótið algjörlega fyrir Bandaríkjamanninum en hann hefur nú unnið báðar skákir þeirra á þessu Áskorendamóti.

Öðrum skákum lauk með skiptum hlut þannig að litlar sveiflur urðu á toppnum.

Nepo hafði svart gegn Firouzja og enn eina ferðina slapp hann með skrekkinn. Firouzja fékk mjög vænlegt miðtafl þar sem hann hafði kóngssókn sem kemur oft upp í kóngsindverskri vörn nema að þessu sinni með skiptum litum. Firouzja hafði mikið rými til árásar en Nepo náði að loka búðinni og þrátt fyrir skiptamunsfórn Firouzja fann hann enga leið í gegn. Vel sloppið hjá Nepo, enn eina ferðina!

Viðtalið að ofan við Firouzja virðist grunsamlega stutt og jafnvel ritskoðað af hálfu FIDE þar sem Firouzja var fúll. Skýringa má leita á X-síðu Firouzja þar sem hann fer ekki fögrum orðum um skákdómarann Marghetis.

Dommararju Gukesh hafði hvítt á landa sinn Rameshbabu Praggnanandhaa. Gukesh virtist fá örlítið betra tafl en aldrei nóg til að vinna úr og skákin komst aldrei á flug. Jafntefli var samið eftir að tímamörkunum var náð. Fín úrslit fyrir báða þó auðvitað hefði sigur verið góður hjá báðum. Þeir eru báðir í fínum sénsum eftir þessi úrslit.

Eftir vonbrigðin gegn Nakamura hefði verið sterkt fyrir Caruana að ná sigri gegn Abasov. Caruana hafði svart og fór í drottningarlaust miðtafl sem hefði getað sveiflast honum í vil en Abasov var fljótur að stoppa í götin og eftir að hann náði góðum valdi á veikleikum sínum á drottningarvæng með c4, a5 og Bc3 var ljóst að erfitt væri að ráðast á peðaveikleika hvíts og Caruana komst ekkert áleiðis. Vonbrigði fyrir Carana sem hreinlega VERÐUR að fara að sýna eitthvað meira á þessu móti ef hann ætlar sér lengra!

Hikaru Nakamura ætlaði sér greinilega að ná fram hefndum gegn Vidit og tefldi aggresíft gegn ítalska leiknum með ..g5 framrás snemma tafls. Miðtaflið var líklega í jafnvægi en …c5 framrás Hikaru var líklega upphafið að vandamálum hans og Vidit náði að bæta stöðu sína jafnt og þétt og leggja Hikaru aftur að velli! Báðir hafa nú 50% vinninga og þurfa mikla kraftataflmennsku í komandi umferðum til að blanda sér í baráttuna.

Samantekt Krush/Anand:

Staðan er óbreytt á toppnum, Nepo og Gukesh hafa 5,5 vinning og Pragga er hálfum vinningi á eftir þeim. Fabiano, Nakamura og Vidit eygja enn von en verða að fara að ná í plússkor aftur til að eiga sénsinn.

Sömu fjórar berjast enn í spennandi kvennaflokki. ÁFramhaldandi barátta þar líka en Tan Zhongyi stendur best að vígi enn sem komið er.

Á morgun er 10. umferð þar sem Nepo mætir Gukesh og svo frídagur eftir það.

  • Skákir/Úrslit/Staða á Lichess Opna | Kvenna
  • Skákir/Úrslit/Staða á Chess.com Opna | Kvenna

Ýmsar leiðir eru til að fylgjast með:

Ýmsar rásir bjóða upp á samantekt (recaps) og annað efni.

- Auglýsing -