Helgi Áss Grétarsson er enn efstur með 7,5 vinning af 8 mögulegum á Íslandsmótinu í skák. Ljóst er að aðeins Vignir Vatnar Stefánsson getur stöðvað sigurgöngu Helga en þriðja sætið er nú heilum þremur vinningum á eftir Helga!
Helgi átti væntanlega náðugan dag heima en hann fékk frían vinning gegn Héðni Steingrímssyni sem hefur lokið keppni á mótinu.
Vignir varð að ná í sigur með hvítu mönnunum gegn Olgu. Teflt var nokkuð hvass afbrigði í Grunfeld en Olga virtist hafa sitt á hreinu en virtist taka ranga ákvörðun í miðtaflinu með Dg5 og drápinu á g2. Eftir það hrundi staða svarts ótrúlega fljótt og Vignir nýtti sín færi.
Innbyrðis jafntefli hjá Aleksandr og Hannesi þýddi að þeir eru þremur vinningum á eftir Helga Áss og eiga litlar líkur á að landa titlinum en eru þó á fullu í baráttu um topp 5 sæti. Hannes fékk betra tafl úr byrjuninni, tefldi Caro-kann aldrei þessu vant sem kom Sasha væntanlega á óvart sem hafði sjálfur komið á óvart með 1.e4.
Yfirburðir Hannesar hefðu átt að skila liðsvinningum. Hannes fékk þrjá möguleika á að leika Rd4+ og svo til b3 með gaffal á hróka hvíts.
29…f6! var reyndar fínn leikur en eftir 30.f4 fxe5 var Rd4-b3 enn í boði en var ekki bestur fyrr en eftir 31.fxe5 þá hefði Hannes átt að leika 31…Rd4 með unnu tafli.
Þess í stað náði Aleksandr að verjast í hróksendatafli og reddaði sér svo með patt-trikki í lokin.
47.Hf8!? hrókurinn er friðheldur út af pattinu. Aleksandr setti svo sama trikk í endurvinnsluna í lokin.
55.Hxe5! Hxe5 og jafntefli!
Sigurvonir Hilmis fuku meira og minna út í hafsauga með tapi í kvöld. Hilmir tefldi fína skák og hélt Guðmundi í skefjum alla skákina. Grátleg mistök komu í lokin í fræðilegri jafnteflisstöðu.
66…a1=D?? reyndust vera mistök sem kosta skákina. Svartur heldur jafntefli með biðleikjum, t.d. 66…Ke8. Stór og grátleg mistök eftir fína skák.
Þétt skák hjá Hjörvari gegn Bárði með svörtu. Hjörvar tefldi Sikileyjarvörn og tók yfir í miðtaflinu með biskupaparið sitt. Skákin var gott dæmi um „riddari úti á kanti….“ þar sem riddari Bárðs á a5 var algjörlega geldur af biskupi á d5 sem valdaði hálfhring riddarans.
Að lokum náði Dagur í sigur með svörtu gegn Lenku í flókinni skák. Dagur fékk betra úr byrjuninni og mjög hættulega sókn sem virtist ætla að vera mátsókn. Lenka slapp með mikilli seiglu í vörninni og Dagur reyndi að kreysta fram vinning úr jafnteflislegu endatafli. Það virtist ætla að takast þegar Lenka leyfði …b5 framrásina en Dagur fann ekki rétta leikinn og skákin hefði átt að enda með jafntefli ef Lenka hefði leikið c7 í stað Kd4 í lokin. Eftir það var Dagur með unnið tafl og lét það ekki af hendi.
Útsending umferðarinnar
Úrslit
Aðeins eitt jafntefli í umferðinni en það stefndi í fleiri í lokin en mistök komu í endatöflunum.
Staðan
Staðan eiginlega með ólíkindum, þrátt fyrir að 3 umferðir séu eftir eiga aðeins tveir raunhæfa möguleika á titlinum. Þeir Hilmir, Hannes og Aleksandr kæmust í besta falli í aukakeppni. Yfirburðir Helga Áss til þessa magnaðir með 7,5 vinning!
Pörun 9. umferðar
Í 9. umferðinni fær Helgi Áss hvítt gegn Aleksandr en Vignir reynir að halda í við hann með svart gegn Hilmi Frey.
9. umferð hefst klukkan 15:00 á morgun, sumardaginn fyrsta.
- Chess-Results
- Skákskýringar á YouTube (hefjast á milli 16:30-17:00)
- Beint á Chess.com
- Beint á Lichess
- Beint á Chessbase