Óvænt úrslit hafa sett svip á keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands sem hófst í Mosfellsbæ sl. þriðjudag. Einn sigurstranglegasti keppandinn og sá stigahæsti, Hjörvar Steinn Grétarsson, tapaði tveimur fyrstu skákum sínum. Hann gleymdi tímanum með hartnær unnið tafl gegn Olgu Prudnykovu í fyrstu umferð og féll á tíma. Í annarri umferð byggði hann upp vinningsstöðu gegn Hilmi Freyr Heimissyni en missti þráðinn og tapaði. Í þriðju umferð vakti athygli auðveldur sigur Vignis Vatnars Stefánssonar yfir Héðni Steingrímssyni. Þá tapaði Guðmundur Kjartansson fyrir Bárði Erni Birkissyni. Staðan eftir þriðju umferð var þessi: 1.-3. Vignir Vatnar Stefánsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson 2½ v. (af 3). 4.-5. Hilmir Freyr Heimisson og Alexander Domalchuk 2 v. 6.-7. Héðinn Steingrímsson og Olga Prudnykova 1½ v. 8.-10. Guðmundur Kjartansson, Dagur Ragnarsson og Bárður Örn Birkisson 1 v. 11. Hjörvar Steinn Grétarsson ½ v. 12. Lenka Ptacnikova 0 v.

Lítum á umrædda sigurskák Íslandsmeistarans:

Skákþing Íslands 2024; 3. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Héðinn Steingrímsson

Katalónsk byrjun

1. d4 d5 2. c4 e6 3. Rf3 Rf6 4. g3 Bb4+

Katalónsk byrjunin er vinsæl nú um stundir og Héðinn velur leið sem gafst Boris Spasskí vel í eina tíð.

5. Bd2 Be7 6. Bg2 c6 7. Ra3

Þessi leikur, runninn undan rifjum Levons Aronjans, kom Héðni greinilega á óvart. Hugmyndin er sú að svara 7. … Bxa3 8. bxa3 dxc4 með 9. a4 og sækja síðan að c4-peðinu. Eftir langa umhugsun ákvað Héðinn halda sig við þá uppbyggingu sem hann hafði upphaflega í hyggju.

7. … Re4 8. Be3 Rd7 9. 0-0 0-0 10. Hc1 Da5 11. Db3 Bxa3 12. bxa3 Rb6 13. Re5!

Hér er vandi svarts kominn fram. Biskupinn á g2 er mun sterkari en kolleginn á c8 og það er ekki auðvelt að losa um sig, t.d. 13. … f6!? 13. cxd5 cxd5 15. Bxe4! dxe4 16. Hxc8 Haxc8 17. Dxe6+ Kh8 18. Rf7+ og hvítur vinnur peð þótt svarta staðan sé teflanleg eftir 18. … Hxf7 19. Dxf7 Dd5! o.s.frv.

13. … Da6? 14. c5 Rd7 15. Rd3 b6?

Svarta staðan er þröng og leiðinleg og ekki bætir þessi leikur úr skák.

16. Rb4! Dxe2 17. Rxc6 Kh8 18. Re7 bxc5 19. dxc5 Hb8 20. Da4 Da6 21. Dd4 Ref6 22. c6 Rb6 23. Df4 Ha8 24. Bd4 Da4?

Tapar strax en eftir 24. … Re8 25. Hfe1 og – Bc5 við tækifæri er svarta staðan vonlaus.

25. Dxf6!

– og svartur gafst upp, 25. … gxf6 er svarað með 26. Bxf6 mát.

Nepo, Nakamura og Gukesh efstir í áskorendamótinu

Það hefur lengi verið draumur Bandaríkjamannsins Hikarus Nakamura að vinna réttinn til að skora á heimsmeistarann í skák. Kannski gerist það nú um helgina. Með miklu harðfylgi, þremur sigrum í röð, hefur hann komist í efsta sætið ásamt Jan Nepomniachtchi og Indverjanum Dommaraju Gukesh. Þá er Fabiano Caruana ekki langt undan. Nepo hefur teflt afar skynsamlega allt mótið en tilþrif hans eru minni en hjá Bandaríkjamanninum. Gríðarleg spenna mun svífa yfir vötnum í skáksalnum í Toronto í Kanada en lokaumferðirnar tvær hefjast kl. 18.30 að íslenskum tíma. Í gær var frídagur en staðan fyrir lokasprettinn er þessi: 1.-3. Nepomniachtchi, Nakamura og Gukesh 7½ v. 4. Caruana 7 v. 5. Praggnanandhaa 6 v. Vidit 5 v. 7. Firouzja 4½ v. 8. Abasov 3 v.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 13. apríl 2024

- Auglýsing -