Ísland vann nokkuð auðveldan sigur á þriðju sveit Englendinga á Evrópumeistaramóti öldungasveita sem hófst í dag í Catez í Slóveníu. Stert íslenskt lið, með þrjá stórmeistara innbyrðis, tekur þátt í flokki 50 ára og eldri.
Ísland mætti s.s. Englandi III í dag og hvíldi Margeir Pétursson að þessu sinni.

Íslenska liðið sterkara á pappírnum gamla og góða. Fínt að fá innkomur hjá Björgvin og Ágúst Sindra strax en þeir eru minnst virkir af meðlimum sveitarinnar.
Á efsta borði mætti Jóhann Englendingnum Clive Frostick (2131) og stýrði svörtu mönnunum. Jóhann lenti í smá vandræðum í miðtaflinu en Clive fann ekki bestu leiðina til að refsa svörtum. Þess í stað komu fljótlega mistök hjá hvítum.
29.Hcd1? var slakur leikur í stöðu sem var orðin erfið á hvítt. Nú er c4 reiturinn undirvaldaður sem Jóhann nýtti sér strax með 29…Bxc4 30.Bxc4 Hxd6!
Þröstur hafði hvítt í sinni skák og mætti Oliver Jackson (2069). Þröstur byggði stöðu sína rólega upp. Oliver hinsvegar einfaldaði honum verkið með 20. leik sínum.
20…He7? gerði hvítum auðvelt fyrir og 21.c4 vinnur lið.
Björgvin hafði svart og þurfti lítið að gera þar sem andstæðingur hans framdi hálfgert hara-kiri með hvítt og Björgvin fékk strax yfirburðatafl og vann peð.
Ágúst Sindri fékk einnig nokkuð náðugan dag á skrifstofunni. Andstæðingur hans molnaði niður án þess að Ágúst þyrfti að hafa sig mikið í frammi.

Öruggur 4-0 sigur niðurstaðan og íslenska sveitin er efst.

Aðeins tvær aðrar sveitir náðu að hreinsa 4-0. Ísland mætir uppfærðu liði Englendinga á morgun, England II.
Tefldar eru 9 umferðir á mótinu og er íslenska liðið nokkuð þétt, skipað þremur stórmeisturum og númer 3 í styrkleikaröðinni.
Lið Íslands skipa:
- GM Jóhann Hjartarson (2453)
- GM Margeir Pétursson (2407)
- GM Þröstur Þórhallsson (2383)
- IM Björgvin Jónsson (2314)
- FM Ágúst Sindri Karlsson (2228)
Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.














