Íslandsmeistari Helgi Áss með gripi góða eftir verðskuldaðan sigur á Skákþingi Íslands 2024. — Ljósmynd/SÍ

Úrslit áskorendamótsins í Toronto í Kanada sæta miklum tíðindum. Yngsti sigurvegari áskorendakeppninnar frá upphafi kom þar fram, hinn 17 ára Indverji Dommaraju Gukesh. Það kom í sjálfu sér ekki á óvart að Indverjar skyldu eiga sigurvegarann að þessu sinni; þeir voru með þrjá keppendur af átta, en frekar var þó búist við því að ein skærasta stjarna þeirra, Ramesh Praggnanandhaa, myndi vinna mótið. En það fór á annan veg. Gukesh er langyngsti sigurvegari áskorendakeppninnar í tæplega 75 ára sögu hennar.

Fyrir íslenska skákáhugamenn er skemmtilegt að rifja upp viðureign Gukesh og Praggnanandhaa í lokaumferð Reykjavíkurskákmótsins 2022 en þeir áttu í hatrammri baráttu um efsta sætið. Þar náði Pragg að töfra fram vinning með koltapað tafl. Tveimur árum síðar er Gukesh reynslunni ríkari og þegar afrekaskrá hans er skoðuð nánar þarf sigur hans í Toronto ekki að koma á óvart. Hann varð í 1.-4. sæti í Wijk aan Zee fyrr á þessu ári, háði lokaeinvígið í heimsbikarmóti FIDE í fyrra og mætti þar Magnúsi Carlsen en tapaði, ½:1½. Á ólympíumótinu í Chennai 2022 byrjaði hann á því að vinna átta fyrstu skákir sínar fyrir indversku sveitina.

Staða efstu manna fyrir lokaumferðina var þessi: 1. Gukesh 8½ v. (af 13) 2.-4. Nakamura, Nepomniachtchi og Caruana 8 v. Aðeins þessir fjórir áttu möguleika á sigri og þessar viðureignir voru á dagskrá:

Nakamura – Gukesh

Caruana – Nepomniachchi

Keppnisreglum fyrir þetta mót hafði verið breytt. Í því tilviki að menn yrðu jafnir í efsta sæti skyldi háð aukakeppni um áskorunarréttinn ólíkt því sem var t.d. árið 2013 þegar Magnús Carlsen naut betri stigatölu en Vladimir Kramnik og öðlaðist áskorunarréttinn og vann síðan Anand í heimsmeistaraeinvígi þeirra. Aðeins Gukesh gat verið tiltölulega sáttur við jafntefli, hinir urðu að vinna. Þó að Nakamura nyti þess að stjórna hvítu mönnunum fékk hann aldrei neitt úr byrjuninni og þegar fram í sótti virtist Gukesh aldrei líklegur til að tapa. Eftir 71. leik stóðu kóngarnir einir eftir á borðinu. Jafntefli.

Víkur þá sögunni að viðureign Caruana og Nepo sem hafði unnið þrjár skákir og gert tíu jafntefli – taplaus. Jafntefli gat aldrei dugað og tilraunir hans til að flækja stöðuna í byrjun tafls mislukkuðust gjörsamlega. Eftir byrjunarleikina kom þessi staða upp:

Áskorendakeppnin í Toronto 2024; 14. umferð:

Fabiano Caruana – Jan Nepomniactchi

25. Hd7!

25. Bd7 vinnur einnig. Framhaldið varð …

25. … Hxd7 26. cxd7 Hd8 27. Dd4 Rxd7 28. Hd1 Dc5 29. Dxf4+ Dc7 30. Dd2

Og hér er svartur kominn í leppun sem erfitt er að losa. Nokkrum leikjum síðar kom þessi staða upp:

35. a3?

Það er með öllu óskiljanlegt af hverju Caruana lék ekki 35. Hd2 og h2-peðið fellur. Síðasta tækifærið til að knýja fram vinning kom í þessari stöðu:

 

 

 

66. Dc6+?

Hann gat leikið 66. De8+!, t.d. 66. … Kc4 67. Dxa4+ o.s.frv. eða 66. … Ka6 68. De2+ ásamt 69. Dxh2 sem vinnur létt. Svartur lék nú …

66. … Ka6 – og Caruana gat ekki endurtekið leiki með 67. Da8+ því að þá hefði sama staðan komið upp í þriðja sinn. Hann reyndi fyrir sér í drottningarendatafli peði yfir en varð að lokum að sætta sig við jafntefli eftir 109 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 4. maí 

- Auglýsing -