Vonir um Evrópurmeistaratitil voru slökktar í dag þegar íslenska sveitin á EM 50+ varð að lúta í dúk gegn sterku ensku liði. Það var greinilegt að allt var lagt í sölurnar en niðurstöðurnar að þessu sinni ekki okkur í hag.

Viðureignin byrjaði rólega en Nigel Davis vildi engum bátum rugga gegn Þresti með hvítu. Líklegast skynsamleg ákvörðun, Þröstur yngri en flestir í sveitunum, stigahærri og hættulegur. Grunur ritstjórn að Davis hafi beinlínis verið fyrirskipað að taka engar áhættur!

Hafi dagsskipun Davis verið að taka því rólega þá var dagsskipun Íslendinganna með hvítu greinilega að leggja allt í sölurnar. Strákarnir ætluðu sér greinlega að gera atlögu að gullinu en til þess að ná því þurftu þeir sigur gegn Englendingum. Margeir fórnaði peði strax í 10. leik

10.g4?!! sem Flear hirti og í kjölfarið fórnaði Margeir öðru peði. Hvítur treysti á sókn á g-línunni og svartreitabiskup sinn. Margeir hafði hættuleg færi sem bætur og fékk færi…

Hér lék Margeir réttilega 24.Dxc5! Dxc5 en valdi ekki rétt framhald. 25.Rg4? var leikið en 25.Rxg6! hefði gefið einhverja möguleika.

Hér hefði svartur orðið að skila drottningunni þar sem aðrir leikir gefa hvítu mát með Re7++ og Hg8. Hvítur myndi enda manni yfir en svartur með peð í bætur. Spurning hvort að hvítur standi til vinnings eða ekki en það væri allavega hvítur sem væri með sénsana.

Eftir gerðan leik hvíts einfaldaðist taflið of mikið, sóknin fjaraði út og umframpeð svarts fóru að telja. Flear sigldi mikilvægum sigri heim fyrir Englendingana.

Jóhann var traustur með svörtu og beið átekta. Hann fékk einhverja ör-möguleika með hættuleg frípeð á drottningarvæng en Emms var snöggur að draga vígtennurnar úr þeim möguleikum og jafntefli niðurstaðan.

Veik von Íslendinga fólst í að bjarga jafntefli og treysta svo á hagstæð úrslit í lokaumferðunum. Björgvin fór snemma af stað með g-peð sitt í byrjuninni og tefldi hvasst, eins og Margeir. Conquest reyndist vandanum vaxinn og leyfði enga landvinninga og yfirspilaði okkar mann smátt og smátt.

Svekkjandi tap sem slekkur mikið til í vonum okkar manna en á móti var ljóst að dagsskipunun var að selja sig dýrt eins og Margeir og Björgvin gerðu. Vogun vinnur, vogun tapar…í þetta skiptið gekk það ekki en það er betra að gefa þessu séns en sjá á eftir síðar!

Staðan:

Englendingar komnir í oddastöðu og þarf kraftaverk til að þeir verði ekki Evrópumeistarar. Íslenska liðið þarf að endurskipuleggja sig og reyna að ná bronsinu. Til þess þurfa úrslit að falla okkar mönnum í hag. Á móti hefur íslenska liðið teflt við öll liðin á toppnum og ætti leikandi að hafa betur á oddastigum ef til þess kemur. Næst á dagskrá er þýskt lið.

Lið Þjóðverja:

Þýskal liðið ekki hátt skrifað en í þeirra röðum er þó einn sterkur skákmaður, alþjóðlegi meistarinn Christof Sielecki sem er vinsæll fyrir sín vídeó, bækur og námskeið. Hann var lengi vinsæll á YouTube sem ChessExplained en hefur í seinni tíð einbeitt sér að bókum og sérstaklega Chessable námskeiðum þar sem hann er mjög vinsæll. Að öllu jöfnu ætti íslenska liðið alltaf að ná í sigur í þessari viðureign.

Tefldar eru 9 umferðir á mótinu og er íslenska liðið nokkuð þétt, skipað þremur stórmeisturum og númer 3 í styrkleikaröðinni.

Lið Íslands skipa:

  1. GM Jóhann Hjartarson (2453)
  2. GM Margeir Pétursson (2407)
  3. GM Þröstur Þórhallsson (2383)
  4. IM Björgvin Jónsson (2314)
  5. FM Ágúst Sindri Karlsson (2228)

Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.

- Auglýsing -