Vignir Vatnar Stefánsson endaði efstur Íslendingana í lokuðum GM flokki í Kronborg skákklúbbnum í Danmörku. Vignir tapaði í lokaumferðinni og datt við það niður í 4. sætið. Hilmir Freyr Heimisson tapaði sinni skák en Aleksandr Domalchuk-Jonasson nældi sér í sinn þriðja sigur í röð og endaði á góðum nótum.
Vignir tapaði gegn norska landsliðsmanninum Tor Frederik Kaasen. Vignir með svart lenti í vandræðum snemma eftir byrjunina. Aðgerðir Norðmannsins á drottningarvæng voru mun hraðari en aðgerðir svarts á kóngsvæng. Sókn hvíts bar árangur og Vignir tapaði drottningu fyrir ófullnægjandi bætur og átti aldrei séns eftir það.
Hilmir tapaði líka sinni skák gegn Vitaly Kunin. Hilmir hafði hvítt en Kunin yfirspilaði okkar mann smátt og smátt á kóngsvængnum og sókn hans bar árangur.
Aleksandr var sá eini sem náði í vinning í lokaumferðinni. Hann lagði danska meistarann Jeppe Hald Falkesgaard. Útsending frá skák Sasha virðist hafa klikkað en hann hafði betra tafl þegar útsendingin rofnaði í 19. leik.
Vignir endaði efstur Íslendingana með 6 vinninga en þeir röðuðu sér hver á eftir öðrum, Aleskandr með 5 vinninga eins og Hilmir. Vitaly Kunin endaði sem sigurvegari mótsins og fór taplaus í gegnum það. Allir áttu strákarnir fína spretti.
Næst á dagskrá hjá Vignir er lokaður flokkur í Búdapest sem hefst á fimmtudaginn. Aleksandr fer á aðeins veikara opið mót í Þýskalandi sem hefst sunnudaginn 19. maí.