Skólaskák Þrír ungir menn, Karma Halldórsson, Birkir Hallmundarson og Markús Orri Óskarsson, urðu Íslandsmeistarar í skólaskák á Akureyri um síðustu helgi, hver í sínum aldursflokki. Markús Orri (t.h.) vann Mikael Bjarka Heiðarsson í einvígi um titil 8.-10. bekkja en þeir hlutu báðir 10 v. af 11 mögulegum. Karma og Birkir unnu sína flokka með fullu húsi, 11 v. af 11. — Ljósmynd/Áskell Örn Kárason

Jónas Þorvaldsson, sem lést þann 3. maí sl., 82 ára að aldri, var einn kunnasti skákmeistari Íslendinga á sjöunda og áttunda tug síðustu aldar, tefldi á þremur ólympíumótum, fyrst í Varna 1962, aftur í Tel Aviv tveimur árum síðar og loks í Skopje haustið 1972. Jónas komst næst því að verða Íslandsmeistari árið 1972 en þegar Íslandsþingið það ár var tæplega hálfnað hættu tveir öflugir keppendur þátttöku vegna veikinda. Jónas hafði unnið þá báða en vinningarnir tveir strokuðust út.

Þessi glaðlegi maður skaust fram á sjónarsviðið í byrjun sjöunda áratugarins og þótti strax harður í horn að taka. Mikill vinur hans og jafnaldri, Jóhann Þórir Jónsson, ritstjóri tímaritsins Skákar, sagði eitt sinn að hann hefði talið sig knúinn til að leggja enn harðar að sér við útgáfu skákefnis þegar honum varð ljóst að þekkingu vinar síns væri að einhverju leyti ábótavant. En það bætti Jónas upp með … mátulegri bjartsýni, hleypidómaleysi og hæfilegri sjálfsgagnrýni án minnimáttarkenndar, eins og það var orðað á síðum Skákar.

Jónas var lærður bókbindari en starfaði lengstum sem sölumaður og sölustjóri. Þegar hann var kominn yfir sjötugt var hann um tíma „ræsir“ hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Þegar greinarhöfundur hitti hann eitt sinn þar spurði hann strax: „Hva, á ekki að halda minningarmót um Jóhann Þóri?“ Þá var haft samband við Guðmund G. Þórarinsson og síðan bættust við Einar S. Einarsson og fleiri góðir menn. Minningarmótið hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur í lok október 2001 og meðal þátttakenda voru Friðrik Ólafsson og Guðmundur Pálmason.

Frá uppgangsárum hans í skákinni er minnisstæð setning sem fékk vængi eftir Skákþing Reykjavíkur 1963 og var eitthvað á þessa leið: Ef Friðrik og Ingi R. hefðu ekki verið með hefði ég orðið neðstur í mótinu! Meðal íslenskra skákmanna var Friðrik auðvitað hið ósigrandi afl. En hvað gerðist? Jónas vann Friðrik og gerði jafntefli við Inga og varð að lokum í 3. sæti á eftir þessum tveimur:

Skákþing Reykjavíkur 1963:

Friðrik Ólafsson – Jónas Þorvaldsson

Enskur leikur

1. c4 Rf6 2. Rc3 e5 3. g3 d5 4. cxd5 Rxd5 5. Bg2 Rb6 6. Rf3 Rc6 7. a3 Be7 8. b4 Bf6 9. Re4 Bf5 10. Dc2 Bxe4 11. Dxe4 Dd5

 Sjá stöðumynd 1 

12. d3?!

Hvítur hefur örlítið betra tafli eftir þennan leik en eftir vafasama biskupsleiki svarts var betra að leika 12. Dxd5 Rxd5 13. Hb1! o.s.frv.

12. … Dxe4 13. dxe4 Rc4 14. e3 Rd6 15. Bb2 a5!

Ræðst til atlögu við peðin á drottningarvæng.

16. 0-0 0-0 17. Hfc1 axb4 18. axb4 Hxa1 19. Bxa1 Ha8 20. Bf1 Rxb4 21. Bxe5 Bxe5 22. Rxe5 f6 23. Rd7! Rc6! 24. Rc5 Re5 25. f4 Rg4 26. Be2 Rxe3 27. e5 fxe5 28. fxe5 Rdf5 29. Kf2 Ha2 30. Rxb7 Rg4+ 31. Ke1 Rxe5 32. Hc5.

32. … Ha1+ 33. Kf2 Rd6 34. Hxc7

Ég gef mér að Friðrik hafi verið að komast í tímahrak þó að Ingi R. geti þess ekki í athugasemdum sínum. Jafntefli var að hafa með 34. Hxe5 Rxb7 35. Bc4+ Kf8 36. Hf5+ ásamt 37. Hf7.

34. … Ha7

 

 

35. Hc5?

„Vélarnar“ sýna fram á að hann gat bjargað sér með 35. He7! Rg6 36. Hd7 Rxb7 37. Bc4+ og 38. Bd5.

35. … Re4+ 36. Ke3 Rxc5 37. Rxc5 Kf7 38. Ke4 Rg6 39. Bc4+ Ke7 40. Bg8 h6 41. Bb3 Hc7 42. Re6 Hc3 43. Bd5 Kf6 44. Rd4 Re7 45. Bb7 Ha3! 46. Bd5 Rxd5 47. Kxd5 He3! 48. Kd6 g5 49. Kd5 g4 50. Kc4 Ke5 51. Rc6 Ke4

og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 11. maí 

- Auglýsing -