Gullverðlaun á 1. borði Jóhann Hjartarson tekur við verðlaunum sínum. — Ljósmynd/Heimasíða EM öldunga.

Íslenska liðið sem tefldi á EM öldungasveita 50 ára og eldri sem lauk í Slóveníu á miðvikudaginn hafnaði í 4. sæti af 21 þátttökuþjóð. Allgóð frammistaða en hefði getað orðið enn betri ef liðsmenn hefðu náð betur að fylgja eftir frábærri frammistöðu Jóhanns Hjartarsonar sem hlaut 7 vinninga af átta mögulegum og náði jafnframt bestum árangri 1. borðsmanna. Sveitin var auk Jóhanns skipuð Margeiri Péturssyni, Þresti Þórhallssyni, Björgvini Jónssyni og Ágústi Sindra Karlssyni. Tveir þeir síðastnefndu hafa lítið teflt undanfarið og það réði miklu þegar Björgvin tapaði niður vinningsstöðu í mikilvægri viðureign við Ítali.

Þröstur Þórhallsson stóð vel fyrir sínu, hlaut 5½ vinning af átta en Margeir Pétursson var nokkuð frá sínu besta með 3½ vinning úr sjö skákum. Björgvin var einnig með 50% vinningshlutfall í átta skákum en Ágúst Sindri hlaut 3 v. af fimm mögulegum. Liðsstjóri var Jón Gunnar Jónsson.

Sveitinni var fyrir fram skipað í 3. sæti og átti lengst af möguleika á verðlaunasæti en hið slysalega tap fyrir Ítölum í 5. umferð setti strik í reikninginn. Undir lokin háði íslenska sveitin harða baráttu við þá ensku, sem fyrir fram var talin sigurstranglegust, og tapaði 1:3. Stórir sigrar í lokumferðunum tveimur breyttu engu um lokasætið og niðurstaðan varð sú að Englendingar urðu Evrópumeistarar en mótsstig þurfti til að skera úr um þrjú efstu sætin: 1. England 1, 14 stig – 225 mótsstig 2. Ungverjaland 14 stig – 206 mótsstig 3. Ítalía 14 stig – 203 mótsstig. 4. Ísland 13 stig.

Frammistaða Jóhanns var, eins og vinningshlutfallið ber með sér, afbragðsgóð og vart hægt að segja að hann hafi lent í teljandi vandræðum í mótinu. Það var gott „rennsli“ í aðskiljanlegustu stöðum sbr. eftirfarandi viðureign fjórðu umferðar er sigur vannst á silfurliði Ungverja:

Jóhann Hjartarson – Csaba Csiszar

Svartur lék síðast 15. … Re4-c3 sem hótar máti á g2. Hvítur svaraði með 16. f3 og eftir 16. … Rxa4 kom millileikurinn 17. Bc4! Drottningin varð að hörfa til d8 en eftir 18. Bxe6+ Kh8 19. Dxa4 réði svartur ekki hótanir Jóhanns sem vann í 40 leikjum.

Stutt skák og skemmtileg í næstsíðustu umferð benti til þess að Christo Sielecki hefði ekki alveg kunnað skil á Dreka-afbrigði sikileyjarvarnar. Jóhann rifjaði upp gamalt afbrigði sem Karpov gerði vinsælt fyrir tæplega hálfri öld:

Jóhann Hjartarson – Christo Sielecki

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 g6 6. Be2 Bg7 7. O-O O-O 8. Bg5 Rc6 9. Rb3 b6 10. f4 Bb7 11. Bf3 Hc8 12. Rd5!? Rxd5? 13. exd5 Ra5 14. c3 Rxb3?

Jafnvel þó svo svartur hafi misst af 12. … e6 er staðan algerlega viðunandi eftir 14. … Rc4! 15. De2 b5! o.s.frv.

15. axb3 a5 16. De1 He8 17. Dh4 b5

18. f5 gxf5 19. Hae1 Db6 20. Be3 Dc7 21. Be2?!

En hér var jafnvel enn betra að leika 21. Bh6! eða jafnvel 21. Bh5. Nú varð svarur að leika 22. … Bxd5 23. Bxb5 Be4! 24. Bxe8 Hxe8 með góðum bótum fyrir skiptamun.

21. …e6? 22. Bxb5 Bxd5 23. Bxe8 Hxe8 24. Bh6! Dd8 25. Dg3 Df6

 

26. Hxf5! Dxh6 27. Hxd5

– og svartur gafst upp.

Næsta verkefni íslenskrar skáksveitar á þessum vettvangi er heimsmeistaramót öldungasveita 50 ára og eldri sem fram fer í Kraká í Póllandi og hefst um mánaðamótin júní/júlí.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 18. maí 

- Auglýsing -