Vignir Vatnar að tafli.

Vignir Vatnar Stefánsson vann sigur í dag í fimmtu umferð á opna mótinu Budapest Spring Festival sem eins og nafnið gefur til kynna fer fram í Búdapest, Ungverjalandi. Vignir hefur átt góðu gengi að fagna á mótum í Ungverjalandi og það heldur vonandi áfram á Ólympíuskákmótinu í haust!

Í fimmtu umferðinni mætti Vignir franska FIDE meistaranum Joachim Mouhamad (2311) og stýrði hvítu mönnunum. Vignir tefldi Catalan-byrjunina með hvítu og tók talsverða áhættu í flóknu miðtafli, greinilega ákveðinn að knésetja andstæðing sinn. Aðgerðir Vignis komu sumpart í andlitið á honum og Frakkinn fékk betra tafl. Sökum flækjustigs skákarinnar voru báðir í tímahraki en Vignir þó með örlítið betri tíma.

Frakkanum misfórust hendur hér og lék 35…gxh4? og fór að missa tökin eftir 36.Hxa6. 35…Bc8 36.Hd8+ He8 hefði líklegast skilið Vigni eftir að berjast fyrir jafnteflinu. Þess í stað tók hann yfir. Fljótlega eftir tímamörkin kláraði Vignir dæmið.

Sá franski ætlaði að vera sniðugur hér með 44…Hd2? með hugmyndinni að taka á f3 með skák. Vignir skaut auðvitað inn 45.Hxg5! og öll riddarahopp úr sögunni!

Vignir hefur því 4 vinninga af 5 mögulegum og hefur nú brotið 2500 stiga múrinn aftur. Á morgun hefur hann svart gegn Svartfellingnum Denis Kadric (2558) í 6. umferðinni. Kadric er reyndur landsliðsmaður og sterkur skákmaður og þessi skák verður fín áskorun fyrir Vigni.

Sigurbjörn Hermannsson (1861) teflir í b-flokki og hefur ekki náð sér á strik. Hann tapaði gegn Ungverjanum Norbert Domokos (1788) í 5. umferðinni og mætir öðrum Ungverja, Attila Kecskemeti (1733) í 6. umferðinni. Burtséð frá úrslitum eru svona mót alltaf dýrmæt reynsla og Sigurbjörn mun bara bæta sig á taflmennsku á slíkum mótum. Sigurbjörn hefur hækkað á stigum á nánast hverjum einasta listi í yfir ár og er á réttri leið.

- Auglýsing -