Guðmundur Kjartansson hóf leik á sunnudaginn á opnu móti í Munchen, en Guðmundur er einmitt búsettur á þeim slóðum. Mótið nefnist Muenchner Open og 132 skákmenn hófu leik og er Guðmundur númer 9 í styrkleikaröðinni. Guðmundur fer vel af stað og hefur unnið báðar skákir sínar það sem af er móti.

Á sunnudeginum í 1. umferð mætti Guðmundur þýska FIDE meistaranum Cedric Oberhofer (2256). Guðmundur hafði svart gegn enska leiknum og virtist ná að „trikka“ peð af Þjóðverjanum í 15. leik með taktískum aðgerðum.

Eftir peðsvinninginn var etta mikið til spurning um tækni hjá svörtum en Guðmundur tefldi fyrir augað og sótti að kóngi andstæðingsins!

35…Hxe2! opnaði kóngsstöðu hvíts upp á gátt og Guðmundu rkláraði dæmið nokkrum leikjum síðar.

Í 2. umferðinni á mánudeginum fékk Guðmundur hvítt gegn alþjóðlega meistaranum Bachana Morchiashvili (2291). Aftur tefldi Guðmundur skemmtilega, nokkuð dýnamískt og var með hálf furðulegan hrók á 4. reitaröð en hann náði að skipta skemmtilega um væng og hjálpa sókn Guðmundar sem varð yfirþyrmandi og skilaði vinning í hús.

Guðmundur fær alvöru próf í 3. umferð en hann fær hvítt gegn stigahæsta manni mótsins stórmeistaranum Vladimir Fedoseev (2701) sem teflir fyrir Slóveníu.

 

- Auglýsing -