Flottur í Búdapest Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Tveir nýliðar eru í íslenska liðinu sem tekur þátt í opnum flokki Ólympíumótsins í skák sem hefst í Búdapest 10. september nk. Vignir Vatnar Stefánsson 21 árs og Hilmir Freyr Heimisson 22 ára eru nýir menn en þess má geta að Vignir átti að tefla á Ólympíumótinu í Indlandi fyrir tveimur árum en greindist með covid og varð að hætta við þátttöku. Aðrir þeir sem valdir hafa verið eru Hjörvar Steinn Grétarsson, Helgi Áss Grétarsson og Guðmundur Kjartansson. Búast má við breytingum á liðsuppstillingu Íslands í flokkakeppnum á næstu árum því að eins og staðan er í dag erum við með í kringum tíu skákmenn sem kalla má jafningja – en einungis er hægt að velja fimm. Greinarhöfundur er liðsstjóri og hafði það hlutverk að velja ólympíuliðið.

Kvennaliðið er skipað Olgu Prudnukovu, Lenku Ptacnikovu, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur og Iðunni Helgadóttur sem er nýliði. Ingvar Þór Jóhannesson er liðsstjóri.

Vignir og Hilmir hafa verið duglegir að undirbúa sig fyrir verkefnið, fyrst komu tvö mót í Danmörku og á dögunum lauk í Búdapest alþjóðlegu móti með tveimur stórmeistaraflokkum og svo skemmtilega vildi til að Vignir Vatnar varð þar einn efstur, hlaut 7½ vinning af níu mögulegum. Þessi mót eru hluti mótaraðar sem nefnist Six days Budapest sem þýðir í reynd að hvert mót fer fram á sex dögum og keppendur verða stundum að tefla tvær kappskákir á dag. Vignir fékk 6½ vinning úr síðustu sjö skákum sínum, þar af vann hann sigur í hróksendatafli sem telja mátti öruggt jafntefli, og dró þar í land þann hálfa vinning sem dugði. Hann hækkaði um 21 elo-stig fyrir frammistöðuna.

Það vakti athygli mína að Vignir var enn að notast við afbrigði drottningarbragðs þótt gildi þess óvænta sé horfið. Skákin sem hér fylgir fer rólega af stað en Vignir er öllum hnútum kunnugur í stöðunni sem upp kom:

Six days Budapest, 1. umferð:

Max Lu (Bandaríkin) – Vignir Vatnar Stefánsson

Drottningarbragð

1. c4 e6 2. Rc3 d5 3. d4 Rf6 4. cxd5 exd5 5. Bg5 c6 6. e3 h6 7. Bh4 Be7 8. Bd3 0-0 9. Rge2 Re8 10. Bg3 Rd6 11. Dc2 He8 12. 0-0 Bf8 13. Hae1 a5 14. Rc1?

Eftir þennan passíva leik á svartur ekki í neinum erfiðleikum með byrjunina. Best er 14. Rf4 ásamt – f3 og – e4 við tækifæri.

14. … Ra6 15. a3 Bd7 16. Rb3 b5 17. Rd2 b4 18. Rcb1 Db6

Í drottningarbragði með hinni svokölluðu „Carlsbad-uppstillingu“ peðanna var það oft að hvítur hóf minnihlutaárás á drottningarvæng. Nú hefur dæmið snúist við. Peð svarts hefta athafnafrelsi riddaranna, einkum þess sem stendur á b1.

19. Rf3 c5!

Hrifsar til sín frumkvæðið.

20. Bxa6 Dxa6 21. Bxd6 Bxd6 22. dxc5 Hac8 23. Dd2 Bxc5 24. Hc1 Bb5 25. Hfe1 Bd3 26. axb4 axb4 27. Dd1 Bb6 28. Hxc8 Hxc8 29. Re5 Be4 30. Rd2 Bc2 31. Df3 Db7 32. Hc1 Hc7 33. h4 b3 34. Ha1 He7! 35. Rg4 f5 36. Rh2 d4

 

Þessi „mannlegi leikur“ er sjálfsagður en athyglisverður vegna þess að „vélarnar“ mæla frekar með 36. … Bc7 og styðjast þá við útreikninga sem leiða til bestu niðurstöðu.

37. Dxb7 Hxb7 38. Ha8 Kh7 39. Rc4 dxe3 40. fxe3 Ba7 41. Kf2 Hc7 42. Rd6 f4 43. Rg4 Bd1 44. Hc8

 

 

44. … Hc2+!

Uppskipti á eigin forsendum! Hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 18. maí 

- Auglýsing -