Kristján Örn Elíasson hefur um margra mánaða skeið stjórnað, ákaflega vel heppnuðum, vikulegum útvarpsþáttum, á miðvikudögum, á Útvarpi Sögu – sem heita; Við skákborðið.

Skákkennarinn og FIDE meistarinn Björn Ívar Karlsson var gestur þáttarins að þessu sinni. Eins og oft áður var umræðuefnið fjölbreytilegt en þeir Björn Ívar og Kristján Örn veltu fyrir sér slökum árangri heimsmeistarans Ding Liren í Norway Chess skákmótinu sem lýkur í vikunni. Björn efaðist um að við fengjum að sjá einvígi á milli Ding og áskorandans Gukesh í lok árs eins og stefnt er að, Ding Liren væri einfaldlega ekki búinn að jafna sig eftir erfið veikindi undanfarið ár. Björn talaði um EM ungmenna 8-18 ára sem fer fram í Prag 21. ágúst til 1. september en þar væri um að ræða metþátttöku frá Íslandi. Komið var inn á keppnisferðir Breiðabliks til Deltalift Open í Halmstad, þjálfunaraðferðir og undirbúning fyrir skákir, þróun og breytingar á ungum skákmönnum, Wessman Cup sem CAD-bræður héldu fyrir stuttu og hversu öflugir „gömlu mennirnir“ Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson væru en Helgi stóð uppi sem sigurvegari. Þá var rætt um Áskorendaflokk sem nú stendur yfir í húsakynnum TR og væntanlega bók Sigurbjörns Björnssonar, Hve þung er þín krúna, um einvígið 1972. Í fundargerð Skáksambands Íslands frá 26. apríl sl. segir að Helgi Ólafsson hafi lýst því yfir að hann ætli að hætta sem skólastjóri Skákskólans í haust eftir 30 ára starf. Kristján spurði Björn Ívar hvort hann hygðist gefa kost á sér sem næsti skólastjóri og sagðist Björn hafa áhuga á að taka við því starfi. Í fundargerðinni kemur einng fram að stjórn SÍ hafi ákveðið á fundi sínum að óska við Dómstól SÍ að Héðinn Steingrímsson stórmeistari fengi þriggja ára bann frá Skákþingi Íslands auk eins árs banns frá öðrum mótum á vegum SÍ. Kristján Örn spilaði viðtal í lok þáttarins sem hann tók við Helga Árnason formann skákdeildar Fjölnis og fyrrverandi skólastjóra Rimaskóla vegna málsins en Héðinn er öflugur liðsmaður Íslandsmeistara Fjölnis í skák.

Eldri þætti má nálgast hér á Spotity.

- Auglýsing -