Bárður að tafli í síðasta Landsliðsflokki.

Í fimmtu umferð Áskorendaflokks bar það helst til tíðinda að Bárður Örn Birkisson lagði tvíburabróður sinn Björn Hólm Birkisson að velli í umferðinni og jafnaði hann þarmeð á toppnum. Þeir Arnar Milutin Heiðarsson og Gauti Páll Jónsson náðu að vinna sínar skákir og eru efstir ásamt bræðrunum með 4 vinninga eftir 5 umferðir.

Bárður tefldi tæknilega vel útfærða skák. Hann fékk upp rólega stöðutýpu sem hentar honum, tefldi gegn stöku peði svarts. Er leið á skákina gerði Bárður umsátur um peðið, vann það og stýrði umframpeðinu í vinning í endataflinu.

Gauti Páll var fljótur að ná efstu mönnum og var fyrstur að klára á efstu borðunum. 10…e5? var slakur leikur hjá svörtum en 12…Rxe4?? sem opnar e-línuna fyrir hvítan var algjörlega galin leikur. Gauti nýtti sér þetta og sprengdi upp svörtu stöðuna, vann drottninguna og fór svo í mátsókn.

Arnar Milutin náði að vinna gegn Kristján Erni en fæðingin var erfið. 14…d5? var slakur hjá Arnari og Kristján vann peð.

16.Bxc5! vann peð fyrir hvítan útaf gafflinum með b-peðinu. Arnar hysjaði þá upp um sig buxurnar og tefldi af krafti á meðan Kristján tefldi alltof passíft og virtist hálfpartinn vera að raða upp fyrir næstu skák á köflum þegar hann var kominn með alla menn sína á 1. og 2. reitaröð. Arnar refsaði og slapp með skrekkinn eftir klaufaskapinn í 14. leik.

Ingvar Wu og Jóhann Ragnarsson skildu jafnir. Jóhann hafði greinilega meiri reynslu í Caro-kann stöðutýpunni sem kom upp og var á kafla kominn með Ingvar „í kaðlana“. Jóhann náði hinsvegar ekki að finna rétta framhaldið og Ingvar náði að halda endataflinu.

Lenka lagði Guðna að velli í uppskiptaafbrigðinu í Spánverjanum. Hvítur var vissulega með aðeins betri færi útaf peðameirihlutanum á kóngsvæng en Guðni virtist hafa eitthvað misst einbeitinguna.

22…g6 er eitthvað betra á hvítt en 22…Rd6? virðist gefa peð fyrir ekki neitt. Lenka sigldi vinningnum heim.

Roberto Osorio Ferrer vann nokkuð óvæntan sigur gegn Adam Omarssyni en ekki er hægt að segja að sigurinn hafi verið ósanngjarn. Roberto tefldi af miklum krafti gegn Sikileyjarvörninni og fórnaði snemma manni á d5 reitnum og fékk stórhættulega sókn.

Önnur úrslit má sjá hér að neðan, kvennalandsliðskonurnar áttu góða umferð og Óttar Örn Bergmann Sigfússon náði góðum sigri.

Úrslit

Staðan

Það stefnir í æsispennandi mót heldur betur! Fjórir eru efstir og jafnir og svo eru fjórir skákmenn aðeins hálfum vinningi á eftir. Í sjöttu umferðinni mætast Bárður og Gauti Páll annars vegar og Björn Hólm og Arnar Milutin hinsvegar. Mikilvægar skákir og eins verða innbyrðis skákir þeirra sem hafa 3,5 vinning mikilvægar.

Umferðirnar á virku dögunum hefjast klukkan 18:30.

 

 

 

 

 

 

- Auglýsing -