Aleksandr Domalchuk-Jonasson vann sinn annan sigur í röð í dag í 10. umferð á HM U20 í Gujrati á Indlandi. Andstæðingur Aleksandrs var IM L M S T De Silva (2364) frá Sri Lanka.
Tefld var caro-kann vörn og Aleksandr var kominn með þægilega stöðu, búinn að jafna taflið og hafði biskupaparið. Hvítum urðu þá á mjög slæm mistök með 22.Rb5??
Skyndilega getur hvítur ekki varist á löngu skálínunni eftir 22…Dd5 og hvíta staðan fellur eins og spilaborg.
Aleksandr fær hvítt í lokaumferðinni gegn stórmeistaranum Aleksey Grebnev (2540) sem teflir undir fána FIDE en er augljóslega Rússi. Sigur í lokaumferðinni ætti að geta gefið gott sæti en Aleksandr er sem stendur í 13-22. sæti á mótinu. GM Mamikon Gharibyan (2492) frá Armeníu er efstur með 8 vinninga en hefur erfiða skák með svörtu í lokaumferðinni þannig að allt getur gerst. Athygli vekur að unga stórstirnið Abhimanyu Mishra (2627) frá Bandaríkjunum sem var stigahæstur keppenda hefur aðeins 4 vinninga og er að tapa slatt af skákstigum!
- Heimasíða mótsins
- Mótið á chess-results
- Skákir á lichess