Skákhátíðinni í Cesis í Lettlandi lauk í dag með sjöundu og áttundu umferð á þessu fjögurra daga, átta umferða kappskákmóti í Riga. Stigahæstur íslensku keppendanna var landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson en ekki langt á eftir honum kom svo Aleksandr Domalchuk-Jonasson og auk þess bræðurnir Adam og Josef Omarssynir.
Í sjöundu umferðinni varð Íslendingauppgjör en þá mættust þeir Aleksandr og Hilmir og hafði Aleksandr hvítu mennina. Þeir félagar börðust af miklum krafti um sigurinn sem sést hvað best að báðir voru búnir að skunda g-peði sínu fram um tvo reiti eftir 17. leiki með kónginn hrókaðann á kóngsvængnum!
Fór svo að meira púður reyndist í sóknartilburðum Aleksandrs og gafst Hilmir upp eftir kóngsleik sem hótaði öllum illum látum á h-línunni.
Adam Omarsson var í beinni gegn Önnu Kantane (2248) og var skákin auk þess á Twitch! Adam var lengst af að tefla glimrandi skák, með mun betri stöðu og hættulegri sókn. Í tímahraki fór að fjara undan, Adam fann ekki beittustu leikina og sú lettneska komst inn í skákina og sókn hennar komst loks af stað og bar ávöxt.
Josef gerði jafntefli gegn Eistanum Edek Pegart (1616) í sjöundu umferðinni.
Í lokaumferðinni mætti Aleksandr hinum margreynda lettneska stórmeistara Edvins Kengis (2517) og hafði aftur hvítt. Tefld var löng teóría í Grunfeldsvörn en Kenis var með sitt á hreinu og bauð jafntefli þegar taflið hafði einfaldast í steindautt endatafl.
Hilmir gat því náð Aleksandr aftur að vinningum með sigri og gerði það. Hilmir mætti lettneska kvennstórmeistaranum Lauru Rogule (2254) og hafði hvítt. Hilmir fórnaði snemma peði og fékk bullandi dýnamík og vann snaggaralegan sigur í aðeins 24. leikjum, má segja að sú lettneska hafi hreinlega drukknað í dýnamíkinni!
Adam vann sigur í lokaumferðinni en hann lagði Emiljia Apine (1753) að velli með hvítu. Josef náði einnig í sigur en hann lagði Kristians Varpins (1793) og hafði Josef einnig hvítt. Semsagt glimrandi lokaumferð!
Sigurvegarar á mótinu með 6,5 vinning urðu Lettinn ungi Gleb Pidluznij (2374) og ítalski stórmeistarinn Alessio Valsecchi (2483).
Jafnir í 3-6. sæti voru svo Aleksandr og Hilmir ásamt Kengis og Stremavicius. Aleksandr hækkaði um rétt tæp 4 elóstig fyrir árangurinn en Hilmir tapaði tæpum tveimur stigum. Adam endaði með 4,5 vinning úr skákunum 8, tapaði 22 elóstigum, lenti kannski í of miklum jafnteflisgír um miðbik móts. Josef endaði með 4 vinninga og hækkaði um tæp 19 stig.