Það var mikið um dýrðir eins og sjá má af myndum þegar skákhátíð KR í Listaselinu við Selvatn á Nesjavallaleið fór fram við fjallavatnið safírblátt í vikunni sem leið.

Þetta var í 18. skipti sem slíkt firma- og fjáröflunarmót er haldið á vegum Skákdeildar KR til styrktar barna– og unglingastarfi félagsins, sem hefur stóreflst síðustu árin með ráðningu fastra leiðbeinanda og kennara. Allt að 100 ungmenni sækja nú fastar skákæfingar þegar best lætur.

Góð þátttaka var í mótinu eins og jafnan fyrr. Þrátt fyrir nokkur forföll á síðustu stundu tóku 28 keppendur á öllum aldri þátt í mótinu sem var fullbókað fyrirfram. 45 fyrirtæki og lögaðilar styrktu mótið myndarlega með fjárframlögum. Mikið veisluhlaðborð var framreitt í skákhléi af meistarakokkum.

Hinn aldni og valinkunni skákmaður Bragi Halldórsson fór með glæstan sigur af Hólmsheiði, þriðja árið í röð með 9.5 vinning af 11 mögulegum. Bragi keppti fyrir Borg fasteignasölu. Víkingurinn Gunnar Freyr Rúnarsson fylgdi fast á hæla honum með 9 v. fyrir Hval hf. Hinn ungi og síteflandi Gauti Páll Jónsson, varð þriðji með 8 v.fyrir Nicopods ehf. Hinn hægláti og hugumprúði  Þorsteinn Þorsteinsson (yngri) fjórði með 7,5 v. fyrir Lögmannsstofu Björgvins Jónssonar og Guðfinnur R. Kjartansson, staðarhaldari á Selvatni, fimmti með 7. v. ásamt fleirum, fyrir O. Johnsen og Kaaber – ISAM.  Nítíuogeinsæringarnir Gunnar Kr. Gunnarsson og Páll G. Jónsson, fengu sérstök aldurs- og heiðursverðlaun.

Formaður mótsnefndar var Kristján Stefánsson en hún hefur verið eins skipuð í öll þessi 18 ár. Með honum þeir Guðfinnur, Einar S. og Finnbogi.

Formaður Sd. KR frá í fyrra er Oddgeir Ág. Ottesen en klúbburinn fagnar 25 ára afmæli sínu nú í haust. / ESE

- Auglýsing -