Sjötta umferð í České Budějovice í Tékklandi fór fram í gær þar sem íslensku stórmeistararnir áttu sína bestu umferð hingað til!
Vignir Vatnar hafði tapað sinni fyrstu skák í fimmtu umferðinni þar sem hann hafði haft kolunnið tafl, misst það í jafna skák og loks tapað. Vignir fékk mjög erfitt miðtafl og andstæðingur hans tefldi vel og fékk Vignir eiginlega koltapað tafl. Vignir hélt hinsvegar áfram að berjast og verjast og á einhvern ótrúlegan hátt náði hann að hanga á lífi og á enn ótrúlegri hátt tókst hvítum svo að tapa mislitu biskupa endtafli með valdað frípeð á c7-reitnum!
Vignir hefur því 5 vinninga eftir 6 umferðir og er að eiga gott mót í B-grúppunni.
Í A-grúppunni náði Hannes Hlífar í sinn fyrsta sigur. Andstæðingur hans lék af sér mikilvægu skömmu eftir byrjunina sem gerði skákina mun auðveldari fyrir Hannes.
Síðasti leikur svarts 14…Bd7? gaf Hannesi kost á klassískri taktík 15.Bxh7+! Kxh7 16.Dd3+ og vinnur manninn til baka og fær peð í heimanmund.
Helgi Áss hefur verið að eiga erfitt mót og tapað þrem skákum í röð fyrir skák gærdagsins. Hann byrjaði á að „jafntefla sig“ aftur inn í mótið, sovéski skákskólinn!
Hannes er kominn með 3 vinninga af 6 en Helgi Áss hefur nú 1,5 vinning af 6.