Hinn kunni skákmeistari Sigurbjörn Björnsson kemur sterkur inn í bók sem hann hefur sent frá sér og ber nafnið Hve þung er þín krúna og fjallar um einvígi Fischers og Spasskís í Reykjavík sumarið 1972. Sigurbjörn hefur látið svo um mælt að bókin sé ekki síst ætluð þeim sem lítið kunna fyrir sér í skák eða hirða kannski ekki um að tefla upp meira en 50 ára gamlar viðureignir en geta auðveldlega haldið þræði við upprifjun á æsilegum atburðum einvígisins. Kallaðir eru fram aðalleikararnir tveir. Og svo þeir sem fóru með stóru aukahlutverkin. Sigurbjörn leitast við að spá í hugarheim allra þessara og hefur þá fyrir eitt og annað sem viðkomandi aðilar hafa t.d. ritað um einvígið, jafnvel meðan á því stóð.

Það er vel til fundið hjá Sigurbirni að skjóta inn nokkrum myndum úr þrettándu skák einvígisins en sú viðureign kjarnar það stórkostlega drama sem einvígið var. Tap Spasskís í þessari skák var fyrir aðdáendur hans himinhrópandi harmleikur en Sigurbjörn, með traustri heimildarvinnu og góðri heildarskrá, opnar upp á gátt baksvið þessarar viðureignar: rannsóknir á furðulegri biðstöðu, brottrekstur Lombardys og aðstoð Kavaleks við sundurgreiningu. Nóttina áður en skákin var lykta leidd lentu nokkrar eiginkonur „Rússanna“ á Keflavíkurflugvelli.

Vignir varð í 2. sæti í Hilversum

Í sjöttu og síðustu umferð HSG-mótsins í Hilversum í Hollandi tefldu til úrslita á tveim efstu borðum Hilmir Freyr Heimisson og Vignir Vatnar Stefánsson og börðust þar um efsta sætið, báðir með 4½ vinning af fimm mögulegum. Mótið í Hollandi var að mestu skipað heimamönnum og svo fjórum Íslendingum, auk hinna fyrrnefndu þeir Dagur Ragnarsson og Gauti Páll Jónsson. Hilmir Freyr hafði hvítt í sinni úrslitaskák gegn stórmeistaranum Lucas Van Foreest og tapaði eftir hörku viðureign. Vignir kom ekki lagi á sinn andstæðing og varð að sætta sig við jafntefli og varð í 2. sæti á eftir Van Foreest en Hilmir lenti í 7. sæti. Dagur og Gauti Páll hlutu báðir 4 vinninga en keppendur voru 127 talsins. Lítum á snarpan sigur Vignis úr 2. umferð:

HSG Open 2024, A-riðill, 2. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – William Gijsen

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Hg1!?

Najdorf-afbrigðið er langvinsælasta afbrigði sikileyjarvarnar. Valkostir hvíts í sjötta leik eru fjölmargir og þessi nýtur vaxandi vinsælda.

6. … e5 7. Rb3 Be7 8. g4 Be6 9. g5 Rfd7 10. Rd5 Rb6 11. c4 Rxd5 12. cxd5 Bd7 13. Be3 Ba4 14. Dd2 Rd7 15. Ra5!

 

 

(STÖÐUMYND 1)

Þessi leikur er alveg sérstaklega erfiður viðfangs því að hvítur hótar ekki aðeins b7-peðinu.

15. … b6

Veikir c6-reitinn um of. Hann gat reynt 15. … Hb8 en eftir 16. Db4! verður fátt um varnir.

16. Rc6 Bxc6 17. dxc6 Rc5 18. Bc4

Eftir þetta teflir hvíta staðan sig sjálf, 18. .. Rxe4 strandar á 19. Dd5 og vinnur.

18. … 0-0 19. Bd5 Hc8 20. h4 Kh8 21. h5 De8 22. g6 fxg6 23. hxg6 Hf6

Vitaskuld ekki 23. … h6 245. Bxh6! o.s.frv.

24. gxh7 Hxc6 25. Bxc6 Dxc6 26. Bxc5 bxc5 27. De2 Hf4 28. Hg4 Hf8 29. 0-0-0

Það hefur tekið sinn tíma að hrókera og nú bætist við nýr sóknarmaður!

29. … c4

(STÖÐUMYND 3)

30. Hxg7! Kxg7 31. Hg1+ Kf7

Eða 31. … Kh8 32. Dg4 og mátar.

32. Dh5+ Ke6 33. Dg4+ Kf7 34. Dg6 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 29. júní 2024

- Auglýsing -