Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Vignir Vatnar Stefánsson vann í dag sína þriðju skák í röð og tryggði sér jafnfram sigur í B-grúppu í lokuðum stórmeistaraflokki í Ceske Budjovice í Tékklandi. Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson eru saman í A-grúppunni en Hannes tapaði sinni skák í dag en Helgi vann sína fyrstu skák á mótinu.

Vignir hafði lengst af undirtökin í skák sinni gegn þýska FIDE-meistaranum Magnus Ermitsch (2383) með svörtu. Hvítur fann mótspil undir lok tímamarkanna og var kominn hættulega nálægt því að snúa Vigni niður þegar hann fann aftur þráðinn og hvítur lagði niður vopn þegar umsátur um e4 peðið var að bera árangur hjá Vigni.

Hannes Hlífar tapaði sinni skák, lenti í hörkuvörn með hvítu gegn sikileyjarvörn og varð að lúta í dúk.

Helgi Áss vann sína fyrstu skák á mótinu. Andstæðingur hans tapaði mikilvægri baráttu um e5 reitinn í slíkri stöðutýpu og Helgi nýtti sér það til að hala inn vinninginn.

Í A-grúppunni er Hannes með 3,5 vinning en Helgi hefur 3 vinninga af 8.

Lokaumferðin hefst klukkan 08:00 í fyrramálið og hægt að fylgjast með á lichess (sjá tengil að neðan) með því að velja rétta umferð og svo skipta milli A og B flokkanna eftir þörfum!

- Auglýsing -