Skákmót Laugardalslaugar fór fram í blíðskaparveðri laugardaginn 29. júní síðastliðinn. Teflt var alfarið utandyra að þessu sinni en stundum hefur veðrið leikið okkur grátt. Mótið hefur undanfarin ár farið fram um miðjan júní eða lok júní. Ísland hefur ekki alltaf verið búið að ákveða sig á þeim tíma hvaða árstíð er!
Miðbæjarskák hélt utan um mótið og skipuleggjendur voru þeir Gauti Páll og Arnar Ingi f.h Miðbæjarskákar. Laugardalslaug er í 25 mínútna göngufæri við Miðbæinn þannig að við segjum að þetta sleppi fyrir horn – kannski hornið á Sundlaugavegi og Reykjavegi?
Daði Ómarsson var skákstjóri á tölvunni og gerði það mjög vel.
Keppendur voru 19 talsins. Magnús Pálmi Örnólfsson var í miklu stuði og vann mótið með fullu húsi, 7 vinninga af 7 mögulegum. Fékk hann að launum 20 miða í sund, hvar sem er í Reykjavík.
Í 2. sæti var Gauti Páll með 5.5 vinning og í 3. sæti Kristján Örn með 5 vinninga. Fengu þeir hvor um sig 10 miða í sund.
Einnig voru veitt verðlaun fyrir efsta ungmennið og svo var einn heppinn keppandi dreginn. Sigurður Páll Guðnýjarson var efsta ungmennið, með fjóra vinninga, og fær fyrir það gjafabréf í Pylsuvagninn Laugardal. Birkir Hallmundarson var sá heppni, og fær sömu verðlaun. Lagt er til að þeir félagar úr Skákdeild Breiðabliks skelli sér saman við gott tækifæri á þennan rómaða veitingastað í hjarta Laugardals sem svíkur engan.
Miðbæjarskák þakkar Laugardalslaug fyrir samstarfið, megi það vara sem lengst!
Mótið á chess-results.
Guðný Sigurðardóttir tók myndirnar sem fylgja hér.


