Josef Omarsson vann sína aðra skák í röð á opnu móti í Benasque á Spáni. Adam bróðir hans gerði jafntefli í umferð dagsins. Stemmningin á Spáni vafalítið góð eftir umferð þar sem Spánverjar tryggðu sig í úrslitaleik EM!

Josef hafði svart gegn Jeroni Mulvet Salva (1646), Spánverji á svipuðum aldri og Josef. Upp kom broddgaltarstaða sem Josef hefur skoðað vel undanfarið og skilaði það sér í peðsvinningi í miðtaflinu sem Josef nýtti svo fram í endataflið og vann nokkuð auðveldlega.

Adam mætti Michael Knafo (1705) frá Ísrael og stefndi allt í vinning, Adam vann peð en þá kom slæmi kaflinn eins og hjá handboltalandsliðinu. Adam missti taflið í jafnteflislegt endatafl með hrók hjá báðum og mislita biskupa en yfirpressaði svo og var í raun með tapað tafl þegar hann bauð jafntefli sem andstæðingurinn þáði. Alvöru sveiflur!

Josef lyftir sér í 2.5 vinning af 5 en Adam hefur 2 vinninga eftir umferðirnar 5.

- Auglýsing -