Lið Íslands er á toppnum á HM landsliða í skák, eftir stórsigur á Kanada í sjöttu umferð af níu sem fram fór í fyrradag. Mótið fer fram 2.-11. júlí í Kraká á Póllandi.
Íslendingar hafa 11 stig af 12 mögulegum en veitt eru tvö stig fyrir sigur í viðureignum en eitt fyrir jafntefli. Ítalía og Bandaríkin eru í 2.-3. sæti með 10 stig og Englendingar fjórðu með 9 stig. Önnur lið hafa ekki möguleika á sigri á mótinu.
Í dag mæta Íslendingar sveit Bandaríkjamanna sem er sú stigahæsta á mótinu. Sigur og 2-2 jafntefli myndu þýða að Íslendingar héldu sæti sínu á toppnum. Tap þýðir hins vegar að Bandaríkin og jafnvel Ítalir einnig færu upp fyrir okkur.
Helgi Ólafsson hvílir í dag. Bandaríkjamenn stilla upp hefðbundnu liði en varamaður þeirra, Alex Yermolinsky hætti þátttöku eftir tvær umferðir vegna veikinda.
Íslenska sveitin á mótinu er sterk sem endranær. Liðið skipa í borðaröð stórmeistarnir:
- SM Helgi Ólafsson (2466)
- SM Jóhann Hjartarson (2472)
- SM Margeir Pétursson (2397)
- SM Jón L. Árnason (2421)
- SM Þröstur Þórhallsson (2385)
Íslenka liðið teflir í flokki 50+ þar sem tefldar verða 9 umferðir. Alls taka 32 sveitir þátt í 50+ flokknum og er Ísland (2439) númer þrjú í styrkleikaröð á eftir feykisterkri sveit Bandaríkjamanna (2480) og heims- og Evrópumeistara Englendinga (2469). Skammt á hæla Íslendinga kemur sveit Ítala (2431) sem er svipuð að stigum og sú íslenska. Þessar fjórar sveitir eiga að vera í nokkrum sérflokki á þessu móti!