Það var mikil eftirvænting og spenna fyrir viðureign íslenska liðsins við það bandaríska á Heimsmeistaramóti öldungasveita 50+ sem fer nú fram í Kraká í Póllandi. Íslenska liðinu hafði gengið allt í haginn á mótinu og ýmislegt fallið með okkur í öðrum viðureignum. Eftir sem áður var einn hjalli eftir og það var stigahæsta sveit Bandaríkjamanna. Vegna hagstæðra úrslita hefði íslenska liðinu líklegast nægt að ná 2-2 jafntefli til að hampa Heimsmeistaratitlinum. Tap hinsvegar hefði fært pálmann yfir í hendur Bandaríkjamanna.
Hjá íslenska liðinu hvíldi elsti liðsmaðurinn en Bandaríkjamenn mættu til dyranna eins og þeir eru klæddir, enginn varamaður eftir veikindi Yermolinsky snemma í mótinu.
Ehlvest bauð Jóhanni nokkuð snemma jafntefli á efsta borði. Ehlvest hafði þá þegar jafnað taflið og mögulega með aðeins betra ef eitthvað er. Jóhann þáði boðið.
Þá þegar var strax orðið ljóst að íslenska liðið væri að berjast í bökkum. Bandaríkjamenn höfðu líklegast betra á öllum borðum og á öðru borði eiginlega neyddi Shabalov Margeir til þess að tefla eins og hann væri…..Shabalov!
Margeir fórnaði manni í byrjuninni og síðar varð sú fórn að hróksfórn. Tölvurnar gáfu svörtum einhverjar bætur og yfir borðinu var skákin klárlega mun erfiðari fyrir Shabalov heldur en tölvumatið gefur til kynna. Shabalov hefur sjálfur teflt slíkan stíl með mikilli fórnartaflmennsku enda upphaflega Letti eins og Tal og Shirov. Shabalov reyndist vandanum vaxinn og lét liðsaflann telja þegar færi Margeirs fjöruðu út.
Jón L. komst einhvern veginn aldrei á flug í sinni skák og snemma í miðtaflinu virtist bara svartur geta teflt til vinnings með betri kóngsstöðu og hættulegri færi.. Khachiyan hefur verið öflugur undanfarið og vann síðasta öldungameistaramót Bandaríkjanna með glæsibrag.
Þá var skák Þrastar á fjórða boði löngu lokið. Þröstur var traustur í drottningarbragðinu en hafði hvorki efni né áhöld til að tefla til vinnings á neinum tímapunkti.
Lokaniðurstaðan því einstaklega svekkjandi 1-3 tap sem færir Bandaríkjamönnum nánast heimsmeistaratitilinn.
Bandaríkin hafa 1 stigi meira en Ísland og Ítalía en öll fjögur bestu liðin hafa teflt innbyrðis og þarf íslenska liðið á einhverju kraftaverki að halda. Eitthvað lið sem er ekki skipað stórmeisturum eins og fjögur bestu liðin þarf að ná jafntefli gegn Bandaríkjunum. Miði er möguleiki en þetta er í besta falli ein röð í lottóinu!
Íslenska liði er þó enn í öðru sæti og ætti að vera nokkuð öruggt með málm en vitanlega langaði mönnum í dýrmætasta málminn!
Ísland mætir Slóvakíu í 8. umferðinni á meðan Bandaríkjamenn mæta Ísrael.
![](https://skak.is/wp-content/uploads/2024/07/OldgitsMarkLivshitz.png)
Íslenska sveitin á mótinu er sterk sem endranær. Liðið skipa í borðaröð:
- Helgi Ólafsson
- Jóhann Hjartarson
- Margeir Pétursson
- Jón L. Árnason
- Þröstur Þórhallsson
Íslenka liðið teflir í flokki 50+ þar sem tefldar verða 9 umferðir. Alls taka 31 sveit þátt í 50+ flokknum og er Ísland (2439) númer þrjú í styrkleikaröð á eftir feykisterkri sveit Bandaríkjamanna (2480) og Evrópumeistara Englendinga (2469). Skammt á hæla Íslendinga kemur sveit Ítala (2431) sem er svipuð að stigum og sú íslenska og hefur oft reynst okkur erfið. Þessar fjórar sveitir eiga að vera í nokkrum sérflokki á þessu móti!