Húnabyggð Open – Meistaramót Húnabyggðar fór fram í Krúttinu á Blönduósi föstudaginn 20. júní. Mótið var opið öllum áhugasömum. Þátttakendur voru 20 talsins og þar af 16 heimamenn. Tefldar voru fimm umferðir með tímamörkunum 5+2.

Upphaflega stóð til að halda mótið í lobbýi Hótel Blönduóss en þar sem sprenging varð í áhuga og fjölda þátttakenda varð mótið flutt yfir í Krúttið, keppnissal Icelandic Open.
Stórmeistarinn Ivan Schitco fékk fullt hús vinninga á mótinu en þar sem Ivan gat ekki sýnt fram á neinu tengingu við Húnabyggð varð hann af verðlaunum!

Heimamaðurinn Páll Leó Jónsson fékk 3,5 vinninga og varð Meistari Húnabyggðar. Unnar Ingvarsson varð annar og Björn Þormóður Björnsson þriðji, báðir með þrjá vinninga.


Skákstjóri á mótinu var Björn Ívar Karlsson skólastjóri Skákskóla Íslands.
















