Miðgarður 4 á Húsavík, í daglegu tali kallað Tún. Aðstaða Goðans er í kjallaranum í norðurhluta hússins og er gegnið inn um grænu hurðina

Í dag var skrifað undir samstarfssamning til eins árs, á milli sveitarfélagsins Norðurþings og skákfélagsins Goðans varðandi húsnæði fyrir starfsemi Goðans og skákkennslu í grunnskólum Norðurþings. Það eru BorgarhólsskóliÖxarfjarðarskóli og Grunnskólinn á Raufarhöfn, sem um ræðir og hefst skákennslan á skólaárinu 2025-26.

Smári Sigurðsson og Benendikt Þorri Sigurjónsson munu sjá um kennsluna í Borgarhólsskóla en Hermann Aðalsteinsson um kennsluna í Öxarfjarðarskóla og Grunnskólanum á Raufarhöfn. Þeir Smári og Benedikt tóku að sér prufukennslu í Borgarhólsskóla í maí sl. og gekk hún vel. Við það tækifæri færði skákfélagið Goðinn skólanum að gjöf 10 glæný töfl og nokkrar skákklukkur.

Félagsaðstaða sem lengi hefur verið beðið eftir

Húsnæðið sem Goðinn mun fá til afnota er í kjallaranum í norðurhluta Túns að Miðgarði 4 á Húsavík. Suður hluti hússins er í annari notkun. Tún hýsti hér á árum áður ma. Bifreiðaeftirlit Ríkisins, sýsluskrifstofu og félagsmiðstöð, en hefur ekki verið í notkun að undanförnu. Aðstaðan er með sér inngang og mjög stórt bílastæði er fyrir utan. Sjálfur salurinn er tæplega 50 fermetrar að stærð en þar fyrir utan er forstofa og salerni og svo er forstofa við innganginn á efri hæðinni. Húsið er komið nokkuð til ára sinna en búið er að gera ýmsar lagfæringar í kjallaranum og sjáum við ekki fram á annað en að aðstaðan muni nýtast okkur vel.

Tún er staðsett miðsvæðis á Húsavík skammt fyrir ofan Fosshótel. Safnahúsið, íþróttahúsið og Borgarhólsskóli eru svo skammt frá.

Þetta eru mikil tímamót hjá félaginu og vel við hæfi að félagið fá loksins til afnota húsnæði á 20 ára afmæli félagsins. Við sjáum fyrir okkur að öll starfsemi félagsins rúmist í húsinu og öll skákmót sem félagið mun halda, geti farið fram þar. Félagið á nú þegar talsvert af borðum og stólum og skákbúnaði sem búið er að koma fyrir í kjallaranum og var aðstaðan ófromlega vígð þegar sumarskákmót Goðans var haldið þar 20 júlí sl.

Skákfélagið Goðinn hefur hingað til haldið flest öll sín mót og æfingar í fundarsal Framsýnar á Húsavík og vill félagið koma á framfæri sérstökum þökkum til Framsýn stéttarfélags fyrir það. Án þeirrar aðstöðu hefði starf félagsins verið erfitt og alls ekki víst að félagið væri til í dag, ef Framsýn hefði ekki stutt svona vel við bakið á skákfélaginu Goðanum.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr nýju aðstöðunni.

- Auglýsing -