Bronssveit Rimaskóla. Frá vinstri: Helgi liðsstjóri, Tristan Fannar (1. borð), Tara Líf (varamaður), Emilía S. (4. borð), Sigrún Tara (3. borð), Emilía Embla (2. borð) og Björn Ívar

Norðurlandamóti skólasveita í skák lauk í Finnlandi í dag, þegar tefldar voru tvær umferðir.

Hvaleyrarskóli og Rimaskóli tefldu á mótinu fyrir hönd Íslands.

Sveit Rimaskóla (U13):

  1. Tristan Fannar Jónsson
  2. Emilía Embla B. Berglindardóttir
  3. Sigrún Tara Sigurðardóttir
  4. Emilía Sigurðardóttir
  5. Tara Líf Ingadóttir

Rimaskóli kom inn í lokadaginn í fjórða sæti. Markmið sveitarinnar fyrir mótið var alveg klárt – að ná í verðlaunasæti!

Ljóst var að sveitin ætti möguleika á baráttu um verðlaun með góðum úrslitum í lokaumferðunum. Stór sigur í fjórðu umferð lyfti sveitinni beint upp í 3. sætið fyrir lokaumferðina. Það var því ljóst að sveitin þurfti einungis 1,5 vinning í lokaumferðinni -gegn helstu keppinautum sínum. Eftir harða baráttu náðist markmiðið og bronsið var í höfn!

Sigurskák Tristans Fannars fangar vel þá baráttu og þolinmæði sem liðsmenn Rimaskóla sýndu í seinni hluta mótsins. Tristan fær heldur verra tafl eftir byrjunina en nær að halda velli með virkri vörn (19…f5!). Í framhaldinu tekst honum að vinna peð og skipta upp á drottningum. Annað peð féll í kjölfarið og þegar svarti kóngurinn var mættur á svæðið var sigurinn í höfn.

Sveit Hvaleyrarskóla (U17):

  1. Tristan Nash Alguno Openia
  2. Milosz Úlfur Olszeski
  3. Kristófer Árni Egilsson
  4. Katrín Ósk Tómasdóttir
  5. Emilía Klara Tómasdóttir

Betur gekk í vinningasöfnun hjá Hvaleyrarskóla í dag en í fyrstu umferðunum.
Í fjórðu umferð gerði sveitin gott 2-2 jafntefli gegn þéttri sveit frá Finnlandi. Í lokaumferðinni vannst svo flottur 2,5-1,5 sigur gegn annarri finnskri sveit. Með þessum úrslitum lyfti Hvaleyrarskóli sér upp í 5. sætið. Mikill stígandi var í taflmennsku liðsmanna á mótinu og líklega má segja að mótið hafi ekki verið nógu langt!

Aftari röð frá vinstri: Björn Ívar, Milosz Úlfur (2. borð), Tristan Nash (1. borð), Kristófer Árni (3. borð), Ægir liðsstjóri
Fremri röð frá vinstri: Emilía Klara (varamaður), Katrín Ósk (4. borð)

Andstæðingur Kristófers Árna Egilssonar gerir sig sekan um slæm mistök í byrjuninni með 10…Ba6? og bætir gráu ofan á svart með 12…Dd6??. Kristófer vann mikið lið og úrvinnslan var til fyrirmyndar.

Katrín Ósk komin upp með sitt heitt elskaða drottningarbragð og að sjálfsögðu vannst öruggur sigur

Þátttaka íslensku skólanna á NM í Finnlandi var virkilega skemmtileg og vel heppnuð skákferð. Stór og góður hópur, bæði keppenda og foreldra, sem náði vel saman.

Finnar fá nokkuð góða einkunn fyrir mótshaldið. Teflt var í húsnæði finnska skáksambandsins en þar skorti meira pláss fyrir keppendur og fylgdarfólk.
Sýnt var beint frá öllum skákum sem kom sér mjög vel.

Gistiaðstaðan var til mikillar fyrirmyndar og þar fór mjög vel um alla.

Liðstjórar sveitanna voru Ægir Magnússon frá Hvaleyrarskóla og Helgi Árnason frá Rimaskóla. Þeir fá þakkir fyrir gott utanumhald og hrós fyrir þolinmæði og yfirvegun í liðsstjórahlutverkinu.

Þjálfari sveitanna var Björn Ívar Karlsson, skólastjóri Skákskóla Íslands.

- Auglýsing -