Það var frekar fjörugt á skákborðinu í fjórðu umferð á EM ungmenna í skák, í Budva í Svartfjallalandi, sem lauk nú í dag. Íslensku keppendurnir fengu 6 vinninga af 15 mögulegum í dag en óhætt er að segja að fjöldi vinninga hafi orðið eftir á skákborðinu í dag!
Haukur, Róbert, Guðrún Fanney og Gunnar unnu öll í dag. Fjögur jafntefli gerðu þau Theodór, Pétur, Mikael Jóhann og Markús Orri Jóhanns.

Guðrún vann yfirvegaðan sigur gegn Lily Cherix frá Sviss. Guðrún sýndi mikla þolinmæði með svörtu í Rossolimo og beið átekta í rólegheitum og sýndi yfirvegaðar manúveringar bakvið lokaða peðakeðju. Áður en Guðrún þurfti til skarar að skríða opnaði Cherix taflið og reyndist það Guðrúnu í hag.

Iðunn náði fínasta undirbúningi gegn sínum andstæðingi, ungri franskri landsliðskonu með yfir 2200 elóstig sem er að tefla í flokki upp fyrir sig.
Staðan sem kom upp var nákvæmlega eins og góð sigurskák Hilmis Freys gegn Héðni fyrir ekki alls löngu. Í þeirri skák fórnaði Hilmir glæsilega á f7. Biskup svarts var á f8 í þeirri skák en hér var hann á d6. Iðunn skynjaði að hér væri augnablikið en fann ekki muninn.
14.Rxe4 dxe4 15.Rxf7! er hartnær unnið á hvítan hér. Með biskupinn á f8 tekur hvítur með biskup á e4 og skákar með drottningu á b3. Bæði unnið og því óhætt að segja að Iðunn hafi misst af dauðafæri gegn mjög sterkum andstæðingi.

Róbert náði í fínan sigur, sinn annan í röð, Pétur fékk aðeins betra en missti aðeins niður tæknina og þurfti svo að bjarga góðu jafntefli.

Haukur náði ansi góðri skák, hann tók yfir frumkvæðið og tefldi af krafti eftir það.
Haukur henti svo í einn „brilliant“ til að klára með …Hxd1!! og mátaði skömmu síðar!

Töpin hjá Jósef og Markúsi Orra Ó. voru svekkjandi, báðir með mjög vænlegt og mögulega unnin töfl.

Blikarnir Markús Orri J. og Mikael gerðu báðir jafntefli en áttu báðir frábæra möguleika í sínum skákum, sérstaklega Markús Orri


Enginn íslensk skák verður beint í 5. umferð en vonandi færa sig einhverjir nær því í umferðinni. Heilt yfir tefla Íslendingarnir niður fyrir sig í umferðinni og því miður mætast Ingvar Wu og Gunnar Erik innbyrðis.
Chess-results
Beinar útsendingar
Heimasíða mótsins
Mótið stendur yfir frá 29. okt til 7. nóv.
Ísland á 15 fulltrúa á mótinu. Þeir eru:
U8 Róbert Heiðar Skúlason
U10 Pétur Úlfar Ernisson
U10 Nökkvi Már Valsson
U12 Haukur Víðis Leósson
U12 Birkir Hallmundarson
U14 Jósef Omarsson
U16 Markús Orri Óskarsson
U16 Markús Orri Jóhannsson
U16 Mikael Bjarki Heiðarsson
U16 Theódór Helgi Eiríksson
U16-stúlknaflokkur Guðrún Fanney Briem
U18 Ingvar Wu Skarphéðinsson
U18 Adam Omarsson
U18 Gunnar Erik Guðmundsson
U18-stúlknaflokkur Iðunn Helgadóttir
Þjálfarar hópsins eru Björn Ívar Karlsson og Ingvar Þór Jóhannesson















