Blikarnir og vinirnir Vignir Vatnar Stefánsson og Benedikt Briem hófu í dag taflmennsku á Lagos Open í Portúgal. Um er að ræða 9 umferða mót með einum tvöföldum degi en að öðru leiti er ein skák á dag. Vignir er næststigahæstur á mótinu á eftir indverskum alþjóðlegum meistara og Benedikt er sjöundi í stigaröðinni. Alls eru 74 keppendur á mótinu.
Vignir hafði hvítt í fyrstu umferð og mætti hollenskum skákmanni, Van Ginkel. Sá hollenski skellti í 1.Rc3 í fyrsta leik en Vignir sjálfur lék þessum leik á sínum tíma og því væntanlega ekki beint komið þar í opna skjöldu!
Skákin fór í farveg lokaðrar sikileyjarvarnar og þar virtist Vignir mun betur vígbúinn af klassískum hugmyndum og vann öruggan sigur.

Benedikt hefur of lítið teflt undanfarið ár en hefði átt að vera í ágætis formi eftir Evrópukeppni Taflfélaga sem lauk á dögunum. Benedikt þurfti hinsvegar greinilega aftur upphitunarskák að halda og hurðin skall ansi nærri hælnum í þetta skiptið!
Benedikt vill líklegast gleyma þessari skák sem fyrst, tefldi hana skelfilega og hvítur var kominn með +7 snemma tafls. Einhvern veginn hékk Benedikt inni í skákinni en í lokin var steindautt jafntefli á borðinu, h-peð gegn f-peði í hróksendatafli. Hvítur lék þá af sér heilum hrók takk fyrir! Hraðhringing í 113 fyrir hvítan eftir þessa skák!
Á morgun er tvöfaldur dagur, báðir fá þeir menn í eldri kantinum. Vignir hefur hvítt gegn Gideon van der Bent, annar Hollendingur og skráður 65+. Sama er uppi á tenignum hjá Benedikt, 65+ heimamaður, Carlos Figueiras. Við óskum þeim félögum góðs gengis og minnum jafnframt á Le Kock mótið sem þeir félagar halda þegar heim er komið!















