Dagur Ragnarsson Fjölnismaður (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga lauk í dag í Rimaskóla. Skákdeild Fjölnis er í ansi góðum málum í úrvalsdeildinni þar sem tefld er tvöföld umferð. Fimm umferðum af tíu er lokið.

Skákdeild Fjölnis vann allar viðureignirnar í fyrri hlutanum og leiðir með 10 stig. Taflfélag Reykjavíkur er í öðru sæti með 7 stig og Víkingaklúbburinn í því þriðja með sex stig. Þessi þrjú félög berjast um titilinn í síðari hlutanum sem fram fer 29. febrúar – 3. mars nk.

Í öðrum deildum en úrvalsdeild eru tefldar sjö umferðir. Fjórum umferðum er lokið.  Skákdeild Breiðabliks er í efsta sæti í 1. deild með fullt hús stiga og eru til alls líklegir til að endurheimta sæti sitt í deild þeirra bestu að ári. Skákfélag Akureyrar er í öðru sæti með 7 stig. Þessi lið mætast í síðustu umferð í viðureign sem gæti verið hrein úrslitaviðureign.

B-sveit Akureyringa er á toppnum í 2. deild með 7 stig, B-sveit KR og c-sveit Taflfélags Reykjavíkur eru í 2.-3. sæti með 6 stig.

B-sveit Fjölnis er í efsta sæti í 3. deild með 7 stig, Skákfélag Sauðárkróks í öðru sæti með 6 stig og Skákfélag Selfoss og nágrennis í því þriðja með 5 stig.

Skákfélagið Dímon er langefst í fjórðu deild með fullt hús stiga. B-sveit Vinaskákfélagsins, e-sveit KR og c-sveit Skákfélags Akureyrar eru í 2.-4. sæti með 6 stig.

Rennum yfir gang mála í deildunum á síðasta keppnisdegi fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga.

ÚRVALSDEILD KVIKUDEILDIN

Fimmta umferð Kvikudeildarinnar fór fram í dag

Taflfélag Vestmannaeyja – Skákdeild Fjölnis

Fjölnismenn héldu áfram uppteknum hætti gegn TV og unnu stórsigur

Fyrsta borðið hjá Fjölni var tæknilega betri en Magnus Carlsen ef tekið er mið af rating performance!(Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Pultinevicius hefur verið gríðarlega drjúgur fyrir Fjölnismenn og fékk hann 4,5 af 5 vinningum í fyrri hlutanum með rating performance upp á 2863 elóstig! Hann lagði Filip Boe Olsen að velli í baráttu í teoríu í London-systeminu. Svartur fékk strax gott miðtafl með biskupaparið og seinna var Litháinn orðinn peði yfir.

Litháarnir hreinsuðu efstu þrjú borðin, má segja að litháíska landsliðið hafi skilað sínu en þessir strákar eru allir í ungu og sterku landsliði Litháa á komandi Evrópumóti landsliða.

Örn Leó, nýjasti FIDE meistari Íslendinga náði í gott höfuðleður og lagaði aðeins stöðuna þegar hann lagði danska landsliðsmanninn Jesper Thybo að velli.

Sigurbjörn skilaði enn einum vinningi í hús fyrir Fjölnismenn á sjötta borði. Þar lagði hann gamlan félaga úr skáklífinu í Hafnarfirði í gamla daga, Þorvarð Fannar. Þessir hafa teflt margar skákir innbyrðis. Nú náði Sigurbjörn flottri fléttu í lokin.

26.g4! stillir upp í mátstef. 26…Dd3 27.Hf3 Dd2 og þá kom sleggjan 28.Dxh6!! og svartur verður mát!

Menn eru farnir að kalla Jón Árna á áttunda borði hjá Fjölni töframann. Í gær náði hann að dáleiða andstæðing sinn í að leika sig í mát með tapað tafl og í dag náði hann að kreysta vinning úr steindauðu riddaraendatafli.

Töframaðurinn (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Nökkvi með svart hefði haldið jafnteflinu með t.d. 38…Re7 en lék þess í stað 38…Rf4 39.g3 og féll í „rangstöðugildruna“ 39…Re2+? 40.Kd2 Rg1 …þessi riddari reyndist kolrangstæður og átti ekki afturkvæmt í skákina! Magnus Carlsen hefði líklegast sakað Jón um að nota töfrastaf á Twitter ef hann hefði lent í þessum skakkaföllum!

Fullt hús hjá Fjölni sem eru í kjörstöðu fyrir seinni hlutann.

Taflfélag Reykjavíkur – Víkingaklúbburinn

TR og Víkingar háðu harða rimmu um hvor klúbburinn ætti séns á að berjast um titilinn við Fjölni. Niðurstaðan varð eiginlega verstu mögulegu úrslit fyrir báða klúbba en vatn á myllu Fjölnismanna.

Þrjú stutt jafntefli litu dagsins ljós á fjórða, fimmta og sjöunda borði. Þorvaldur Logason kom eins og stormsveipur og varð mikill örlagavaldur í þessari viðureign. Þorvaldur var lengi leiðtogi á miðjunni í utandeildarliði skákmanna á sínum tíma. Hann sér sendingaleiðir vel og í þessari skák sá riddari hans á miðborðinu leið opnast að kóngi andstæðingsins

31.Rc6+! B-O-B-A!! og hér er einfaldlega ekki aftur snúið. Eftir 31…bxc6 32.Db6+ er svartur mát í nokkrum leikjum.

Ingvar Þór að tafli gegn Birni Þorfinnssyni (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Aftur var komið að ritstjórnarbaráttu, í þetta skiptið ritstjórn Skak.is gegn ritstjórn DV! Mögnuð skák hér á ferð þar sem DV fleygðu eldhúsvasknum, slúðurpakkanum og allskonar lygavefjum til að reyna að klækja á Ingvari.

Eftir týpíska „Bjössa-sókn“ mætum við til leiks í 14. leik

Hér sá Björn og taldi að hann ætti allavega þráskák og lét vaða. 15.Bxh6!? gxh6 16.Dd2 Rg8 þessum leik var leikið með þöglu samþykki beggja. Ivan Sokolov kallar þetta sameiginlegan misskilning eitthvað slíkt, báðir töldu þetta eðlilega framvindu þessarar fléttu en hvorugur gerði sér grein fyrir að svartur getur reynt að „éta liðið“ og verjast með 16…Rh7 eða 16…Hg8 og hvítur þarf einhver töfrabrögð, mögulega að fá lánaðan töfrastaf!

Hvað um það, áfram tefldist 17.Hxg8+ Kxg8 18.Dxh6 og hér valdi Ingvar 18…f6 sem hann taldi áhættuminni en 18…f5.

Meðan Björn hugsaði hvort hann ætti meira en þráskák gantaðist ég með það við Vigni Vatnar í spjalli að ég þyrfti nú ekki að stressa mig mikið, annaðhvort tekur Bjössi þráskákinni eða ég er mát!

Bjössi lék 19.Bd3!? og nú hélt ég að ég væri að verða mát, hvað var Bjössi eiginlega að bralla? Vörnin Dd8-e7-g7 virðist nokkuð augljós og góð svo hann hlýtur að hafa svar við því. Sem betur fer fattaði ég það…því mér leyst ekki á 19…Kf7 20.Rc5!! Ég sá sem betur fer gott andsvar við þessari mögnuðu leið sem Bjössi fann. 19…De7 20.Ke2 Dg7 21.Hg1!! Dxg1 22.Rg5!!

Ótrúlega mögnuð leið sem Björn fann hérna. Ef ég hefði ekki fundið verðuga vörn hér hefði þessi sókn og flétta verið ein af skákum ársins. Fyrst mannsfórn, svo skiptamunsfórn, þá hrein hróksfórn og loks maður ofaní og svartur er mát í öllum varíöntum….nema einum!

22…Dxf2!! krókur á móti bragði! 23.Kxf2 fxg5+ þokkalega mikilvægt „discovered check“! Svartur bjargar sér. Eðlileg framvinda skákarinnar væri nú t.d. 24.Ke1 Hf7 til að valda mátið og hvítur vinnur lið til baka með 25.Be4. Þess í stað lék Björn 24.Kg3?? Hf7 25.Be4 og hér átti svartur vinning með 25…Re7!! en missti af því og skákin sigldi í jafntefli að lokum.

Helgi Áss í þungum þönkum (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Helgi Áss jafnaði leikana fyrir Taflfélagið. Varaborgarfulltrúinn var vel vakandi í miðtaflinu

Helgi með svörtu fékk hérna óvænt tækifæri 23…g6! 24.Rh4 Df6! og f4 peðið fellur. Enn var auðvitað mikið eftir af úrvinnslunni en þessi peðsvinningur lagði grunninn að sigrinum.

Hér var jafnt 3-3 en TR með vænlegra tafl á báðum borðunum sem eftir voru. Guðmundur Kjartansson var að tefla skínandi vel gegn Marcin Dziuba og virtist vera að yfirspila hann. Pólverjinn komst í endatafl með nokkur peð fyrir mann og þá hefði Guðmundur líklegast átt að stíga á bremsuna og þráskáka. Þess í stað lék Guðmundur skákinni niður

Dziuba fann auðvitað 60…Dc3+ og peðin eru of sterk eftir drottningarkaupin.

Það kom þá í hlut Aleksandr Domalchuk-Jonassonar að bjarga þessari viðureign fyrir Taflfélag Reykjavíkur. Allt annað en sigur hefði þýtt að TR ætti litla möguleika á titlinum en jafntefli heldur aðeins betur í vonina.

Aleksandr bjargaði því sem bjargað varð! (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Sasha náði að kreysta fram vinning í maraþonskák gegn Jóhanni Hjartarssyni, síðasta skák fyrri hlutans.

Vörn svarts var erfið en hér telja tölvurnar að 72…Kc6 hefði haldið í horfið. 72…Kd8? batt kónginn við öftustu reitaröðina og þaðan átti hann ekki afturkvæmt.

TR á enn séns en þurfa að treysta á aðra til að geta náð Fjölni.

Taflfélag Garðabæjar – Skákdeild KR

Mikilvægur fallbaráttuslagur hjá ríkjandi Íslandsmeisturum. Í þetta skiptið lutu þeir í dúk gegn KR sem vann eiginlega ótrúlega sannfærandi 5,5-2,5 sigur.

Vignir gegn Hjörvari (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Íslensku landsliðsmennirnir Vignir og Hjörvar skildu jafnir á öðru borði. Dagur Arngrímsson náði eina sigri TG en hann sneri erfiðri stöðu sér í hag í lokin í langri skák. Á neðri borðunum náðu KR í 4,5 af 5 vinningum og þar af 3 af 3 hjá öldungunum á þremur neðstu borðunum!

Jóhanna hafði fínt tafl gegn Braga Halldórssyni.

25…b5!? var athyglisverður leikur en veikti mögulega svörtu reitina of mikið. Hótunin er skemmtileg. Ef t.d. 26.He3 kemur 26…Bc2! og svartur hótar Dxa2+ og Ha6 með máti! Bragi náði að verjast og vann svo eftir mikla baráttu.

Staðan í Kvikudeildinni:

Fjölnismenn unnið allar sínar viðureignir og hafa 10 stig. Litháarnir verið ótrúlega drjúgir. TR og Víkingar þurfa að treysta á aðra og hreinsa í seinni hlutanum til að eiga möguleika. Garðbæingar þurfa að spýta vel í lófana í seinni hlutanum!

1. DEILD

Breiðablik a-sveit og Akureyri halda sínum dampi og unnu bæði stórsigra í fjórðu umferðinni.

Breiðablik „misstu“ 1,5 vinning gegn TR-b, Torfi Leósson lagði Einar Hjalta að velli. Akureyri með 5,5-0,5 stórsigur gegn TG.

Breiðablik með fullt hús en Akureyri með 7 vinninga. Þessar sveitir mætast í lokaumferðinni og verður það væntanlega hrein úrslitaviðureign um hvort liðið fer upp! Vinaskákfélagið virðist ætla að falla en þeir eiga bara efstu sveitirnar eftir, spurning hvaða lið fylgja því niður í 2. deild.

1. deildin á Chess-Results

2. DEILD

Hér er það barátta b-sveitanna. KR-b og Akureyri-b ættu báðar að fara upp um deild en spurning hvort liðið tekur gullið. TR-c eru líka í ágætis færi.

Akureyringar tóku innbyrðis viðureignina 4-2 sem ætti að koma þeim langleiðina í gullið

Oddgeir að tafli fyrir KR-b (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

SA-b hafa 7 stig, KR-b og TR-c hafa 6 stig en KR-b hafa betur á borðavinningum.

2.deild á chess-results

3. DEILD

Fjölnir sýndu í þessari umferð að þeir eru líklegir upp með stórsigri á SSON a-sveit

5-1 sigur hjá Fjölni-b og Goðinn minnti á sig með 4,5-1,5 sigri á Sauðárkróki.

Fjölnir-b hafa 7 stig og Sauðárkrókur hefur 6 stig. Goðinn „lúrir“ og búnir að tefla við allar efstu sveitirnar. Seinni hlutinn gæti orðið spennandi.

3.deild á chess-results

4. DEILD

Dímon fara enn með himinskautum en misstu þó niður sinn fyrsta borðavinning.

Akureyringurinn ungi Markús Orri Óskarsson lagði Stefán Arnalds að velli, 23 af 24 vinningum í hús hjá Dímon en „bara“ 5-1 sigur í þetta skiptið.

Dímon hafa 8 stig og fara upp. Þrjú lið hafa 6 stig og ljóst að baráttan um að fara upp með Dímon verður hörð.

4. deildin á chess-results

Úkraínumennirnir Andrey og Oleksandr stefna á að mæta í seinni hlutann! (Mynd: Hallfríður Sigurðardóttir)

Skak.is þakkar skákmönnum fyrir skemmtilega helgi, sjáumst í seinni hlutanum!