Skákkennsla.is er samstarfverkefni Skáksambands Íslands og GAMMA

Á þessum vef er hægt að nálgast fjölbreytt úrval kennslumyndbanda í skák. Markmið verkefnisins skakkennsla.is er að auðvelda aðgengi að náms- og kynningarefni á íslensku um skák sem einkum nýtist börnum sem eru að læra að tefla, skákkennurum í skólum og foreldrum sem vilja hjálpa börnum sínum að verða betri skákmenn. Kennslumyndböndin eru í dag rúmlega 100 talsins og eru bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Myndböndunum er skipt upp í nokkra flokka:
Björn Ívar Karlsson
  • Byrjanir
  • Miðtöfl
  • Endatöfl
  • Frægar skákir
  • Íslensku stórmeistararnir
  • Grunnatriði
  • Skákþrautir

Ætlunin er að fjölga myndböndunum eftir því sem tíminn líður en í dag nær efnið yfir helstu svið skáklistarinnar auk ýmiss ítarefnis sem eykur skilning og ýtir undir áhuga barna á skák.

Höfundur myndbandanna er Björn Ívar Karlsson, sem hefur FIDE-þjálfaragráðu og er reyndasti skákkennari landsins, og talar hann jafnframt inn á öll myndböndin. Björn er í dag í fullu starfi við að kenna skák við sjö grunnskóla og hefur undanfarin 8 ár kennt við 30 grunnskóla, í Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjum. Björn hefur komið að kennslu efnilegustu skákmanna landsins auk þess að vera landsliðsþjálfari íslenska kvennaliðsins í skák.

Hingað til hefur ekki verið til yfirgripsmikið íslenskt kennsluefni í skák á myndformi á sama tíma og það form er orðið mjög mikið notað í skákkennslu erlendis. Skáksamband Íslands og GAMMA vonast til að verkefnið verði íslensku skáklífi mikil lyftistöng í framtíðinni og muni gagnast börnum vel sem kennsluefni í skák.

Umsjón með verkefninu hafa: Björn Ívar Karlsson höfundur efnis, Gunnar Björnsson og Stefán Bergsson fyrir hönd Skáksambandsins, Tómas Veigar Sigurðarson sá um uppsetningu á vefsíðu og Agnar Tómas Möller kemur að verkefninu fyrir hönd GAMMA Capital Management.