Frestur til að sækja um styrki rennur út um mánaðarmótin

Hægt er að sækja um styrki til Skáksambands Íslands þrisvar á ári. Næsta afgreiðsla á styrkumsóknum fer fram fram í júníbyrjun nk.

0
630

Í styrkjareglum SÍ segir meðal annars:

Aðalmarkmið styrkveitinga stjórnar Skáksambands Íslands til einstaklinga er að styðja við bakið á þeim skákmönnum sem sýnt hafa mestar framfarir, metnað og ástundun á síðustu 12 mánuðum, og þykja því líklegastir til að ná enn lengra í nánustu framtíð. Einnig er markmiðið að verðlauna fyrir afburðaárangur og hvetja þannig til afreka.

Styrkjum frá SÍ er ekki ætlað að styrkja hinn almenna skákáhugamann til farar erlendis, heldur einungis þá sem þykja skara fram úr. Sérstök áhersla er lögð á yngri skákmenn sem eru tilbúnir til að leggja á sig þjálfun til að standa sig á þeim mótum sem styrkbeiðni liggur fyrir um.

Við allar úthlutanir á að vera lögð áhersla á jafnrétti kynjanna og að þeim stúlkum sem skarað hafa fram úr í hverjum aldursflokki sé gert kleift að afla sér reynslu á skákmótum erlendis til jafns á við stráka. Sams konar kröfur um ástundun, árangur og framfarir eru hins vegar gerðar til allra, stúlkna og drengja, kvenna og karla.

Nánari upplýsingar og umsóknarform má finna á heimasíðu SÍ.