Víkingaklúbburinn er Íslandsmeistari skákfélaga en keppninni lauk í gærkveldi í Rimaskóla. Sigur Víkinganna var þegar á reyndi býsna öruggur en sveit Víkinganna hlaut 2½ vinningi meira en sveit Skákfélagsins Hugins sem varð í öðru sæti. Skákdeild Fjölnis varð í þriðja sæti með hálfum vinningi minna. Davíð Kjartansson náði sínum lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli.

Víkingar unnu b-sveit Taflfélags Reykjavíkur í lokaumferðinni 7½-½. Huginsmenn unnu sveit Breiðabliks, Bolvíkinga og Reyknesinga 6½-1½ og Fjölnir vann Taflfélag Garðabæjar 5½-2½.

B-sveit Hugins féll ásamt KR-ingum.

2. deild

Skákfélag Selfoss og nágrennis vann sigur í afar jafnri og spennandi 2. deild. B-sveit Víkingaklúbbsins fylgir Selfyssingum upp í efstu deild að ári. B-sveit Skákfélags Akureyrar endaði í þriðja sæti.
B-sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjaness og Vinaskákfélagið féllu niður í 3. deild.
3. deild

B-sveit Taflfélags Garðabæjar vann öruggan sigur í 3. deild. Taflfélag Vestmannaeyja fylgir þeim upp í 2. deild. Taflfélag Akraness varð í þriðja sæti aðeins hálfum vinningi á efstir Eyjamönnum.
C-sveit Breiðabliks, Bolungarvíkur og Reykjaness féll niður í 4. deild ásamt c- og d-sveitum Hugins.
4. deild

B-sveit Skákdeildar KR vann sigur í 4. deild. Í stað þess að hafa sveitir í 1. og 4. deild hafa KR-ingar sveitir í 2. og 3. deild að ári. B-sveit Hróka alls fagnað endaði í 2. sæti og Borgfirðingar (UMSB) urðu í 3. sæti. Þessar sveitir ávinna sér allar keppnisrétt í 3. deild að ári.
Lokahóf mótsins fór fram við afar góðar aðstæður í Bryggjunni Brugghúsi í gærkveldi þar sem skákmenn gerðu sér glaðan dag að móti loknu.
Þakkir fær Helgi Árnason, skólastjóri Rimaskóla fyrir lán á skólanum undir mótshaldið enn eitt árið endurgjaldslaust íslenskum skák. Þótt að sá sem þetta ritar fær reglulega skammir fyrir að halda mótið ávallt í Rimaskóla eru aðstæður þar að flestu leyti frábærar fyrir skákmót.
Yfirdómari mótsins var Ingibjörg Edda Birgisdóttir. Auk hennar sáum um dómgæslu Hallfríður Sigurðardóttir, Kristján Örn Elíasson, Þórir Benediktsson, Ólafur S. Ásgrímsson og Bragi Kristjánsson. Frábært starfsfólk sem stóð sína vakt með miklum sóma báðar helgarnar.