Þrír efstu á Íslandsmótinu í skólaskák, yngri flokki. í fyrra. Mynd: Þórir Ben.

Landsmótið í skólaskák fer fram fimmtudaginn næsta 21. maí sem er uppstigningardagur. Mótið hefst klukkan 11:00 og er opið öllum grunnskólanemendum.

Bannað er að þiggja alla aðstoð á meðan mótinu stendur. Allar skákir mótsins verða skoðaðar að því loknu út frá mögulegu svindli. 

Landsmótið þetta árið fer nú fram með allt öðrum hætti en venjulega. Teflt er á chess.com og er mótið opið fyrir alla grunnskólanemendur landsins. Kjördæmamót eru ekki haldin en veitt verða verðlaun fyrir efsta nemenda úr hverju kjördæmi í bæði yngri flokki (1.- 7. bekkur) og eldri flokki (8-10. bekkur).

Vegleg verðlaun eru í boði. Kjördæmismeistarar fá allir skákklukku í verðlaun. Landsmótsmeistarar hvors flokks fá 50.000 kr. styrk á skákmót innanlands eða erlendis ásamt því að fá Riddarann til varðveislu í eitt ár en flestir af sterkustu skákmönnum landsins hafa fengið nafn sitt ritað á gripinn. Teflt er um Landsmótsmeistaratitil í hvorum flokki verði keppendur jafnir að vinningum.

Tefldar verða níu umferðir með umhugsunartímanum 10 2, tíu mínútur á hvorn keppanda og tvær viðbótarsekúndur bætast við fyrir hvern leik. Áætlað er að mótið taki um það bil fjórar klukkustundir.

Æskilegt (ekki nauðsynlegt) er að nemendur skrái upplýsingar um sig sjálfa hafi þeir ekki gert það fyrr í vetur.

Skráningarform (sami tengill og fyrir Skólskákmótin í vetur)

Til að skrá sig í sjálft mótið þarf að vera með reikning að chess.com og gerast meðlimur í þessum hóp hér; https://www.chess.com/club/skolanetskak

Þegar búið er að skrá sig í hópinn er einfalt að skrá sig í mótið sjálft með því að klikka á þennan tengil hér: https://www.chess.com/live#t=1233422 og ýta á „join“. Skráning í mótið á chess.com opnar 10:00 á mótsdag og gott er að skrá sig ekki seinna en 10:45.

Skákmenn eru svo paraðir saman á slaginu 11:00 á uppstigningardag og hefst þá mótið. Eftir hverja skák þarf að bíða í stutta stund þangað til umferðin klárist og er hver skákmaður þá sjálfkrafa paraður við nýjan í næstu umferð.

Á þessu myndbandi má sjá hvernig gerast megi notandi að chess.com.

Skákstjórar á Landsmótinu verða Stefán Bergsson og Kristófer Gautason.