Landsmótið í skólaskák fór fram á chess.com fyrr í dag. Mótið fór í fyrsta sinn fram á netinu og krýndir voru bæði Landsmótsmeistarar og Kjördæmameistarar í skólaskák. 63 keppendur voru með og þar af margir sterkustu skákkrakkar landsins á grunnskólaaldri. Tefldar voru níu umferðir í einum flokki með tímamörkunum 10 2.
Sigurvegari í yngri flokki og efstur á mótinu öllu var Matthías Björgvin Kjartansson, Landakotsskóla, með sjö og hálfan vinning af níu mögulegum. Sigur Matthíasar er einkar glæsilegur í ljósi þess að hann missti niður einn vinning vegna sambandsleysis við chess.com snemma á mótinu. Hann kom gríðarlega sterkur til baka og tryggði sér sigurinn þrátt fyrir að hafa á afar slysalegan hátt pattað Batel Goitom Haile í kolunnu endatafli. Í öðru sæti var Gunnar Erik Guðmundsson, Salaskóla og í þriðja sæti varð Adam Omarsson, Háteigsskóla. Báðir hlutu þeir 7 vinninga.
Sigurvegari í eldri flokki var Kristján Dagur Jónsson, Langholtsskóla, Í öðru sæti var Benedikt Þórisson, Austurbæjarskóla og Arnar Valsson, Vættaskóla.
Lokastöðuna og allar skákir mótsins má finna á Chess.com.
Fyrir sigurinn hljóta þeir Matthías Björgvin og Kristján Dagur ferðastyrk á skákmót að verðmæti 50.000 kr. Styrkinn má nota á skákmót innanlands eða erlendis. Munu þeir einnig fá til varðveislu í eitt ár Riddarana sem margir af sterkustu skákmönnum landsins varðveittu á sínum yngri árum. Þeir fá Riddarana veglegu afhenta um helgina þegar Íslandsmót barna- og grunnskólasveita fer fram.
Kjördæmameistarar, yngri og eldri flokkar:
Reykjavík
- Kristján Dagur Jónsson, Langholtsskóli
- Matthías Björgvin Kjartansson, Landakotsskóla
Reykjanes
- Gunnar Erik Guðmundsson, Salaskóla
- Þorsteinn Jakob Freyr Þorsteinsson, Álfhólsskóla
Suðurland
- Magnús Tryggvi Birgisson Vallaskóla
- Þrándur Ingvarsson Flúðaskóla
Norðurland eystra
- Markús Orri Óskarsson Síðuskóla (yngri)
Vesturland
- Bjartmar Áki Sigvaldason Grunnskóla Borgarfjarðar (eldri)
Austurland
- Orri Páll Pálsson Eskifjarðarskóli
- Benedikt Arnfinnsson Nesskóli
Vestfirðir
- Björn Viktor Gústavsson Bíldudalsskóli (eldri)