Frá aðalfundinum. Mynd: KÖE.

Fundargerð aðalfundar Skáskambands Íslands frá 13. júní sl. er nú aðgengileg. Það var Eiríkur Björnsson sem ritaði fundargerðina.

Fundargerðina má nálgast hér í PDF.

Fundarerðir SÍ má nálgast hér.

———————-

Aðalfundur Skáksambands Íslands 2020

Haldinn í Skákhöll TR í Faxafeni 12, Reykjavík, 13. júní kl. 10.00 – 15.38.

 1. Forseti setur fundinn

Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og fagnaði góðri mætingu á fundinn. Hann stakk upp á Ágústi Sindra Karlssyni sem fundarstjóra og Áskeli Erni Kárasyni til vara. Forseti lagði jafnframt til að Eiríkur K. Björnsson yrði fundarritari og Helgi Árnason til vara. Báðar tillögur voru samþykktar samhljóða. Í kjölfarið kannaði nýkjörinn fundarstjóri lögmæti fundarins og lýsti hann löglegan.

 1. Kynnt fundargerð síðasta aðalfundar

Fundargerð síðasta aðalfundar lá fyrir fundinum. Athugasemd um fundargerðina kom frá Kristjáni Erni Elíassyni. Rangt hafði verið greint frá hverjir sætu í dómstól SÍ. (rétt nöfn eru tilgreind í fundargerð frá árinu áður, þ.e. fyrir 2018). Önnur athugasemd kom frá Jóhanni Ragnarssyni. Ýmislegt ónákvæmt í fundargerðinni en einkum að ranglega er greint frá mótmælum Jóhanns í lok fundar. Fundarstjóri lagði til að lína um mótmæli Jóhanns yrði felld út og var það samþykkt.

 1. Kjörbréfanefnd gerir grein fyrir kjörbréfum og kannar fundarsókn

Kristján Örn Elíasson formaður kjörbréfanefndar rifjaði upp reglur um fundarsókn og gerði síðan grein fyrir kjörbréfum og kannaði fundarsókn. Alls sendu 16 aðildarfélög S.Í. kjörbréf:

 

Aðildarfélag Fulltrúar Félagsmenn Lið í ÍS Mættir
Taflfélag Reykjavíkur 7 452 6 7
SSON 5 95 5 5
Víkingaklúbburinn 4 99 5 5
Skákdeild Fjölnis 5 113 5 5
Skákdeild Breiðabliks 5 102 4 5
Skákfélag Akureyrar 5 102 4 5
Huginn 4 375 4 4
Taflfélag Garðabæjar 3 184 3 2
Taflfélag Vestmannaeyja 3 98 3 3
Hrókar alls fagnaðar 3 34 2 3
Vinaskákfélagið 2 107 2 2
Skákdeild Hauka 2 96 1 2
Skákgengið 1 13 1 2
Skákfélag Sauðárkróks 1 27 1 1
Skákfélag Íslands 1 13 0 1
Skákfélag Siglufjarðar 1 20 1 1

 

Við upphaf aðalfundar voru alls 53 fulltrúar sem höfðu atkvæðisrétt, mættir. Kjörbréf voru samþykkt samhljóða.

Dagskártillaga kom frá Gunnari Björnssyni forseta um að fyrirliggjandi tillögur að breytingum á 3. gr. og  nýrri 8. gr. laga Skáksambandsins verði teknar til afgreiðslu á undan lið 9 (þ.e. kjöri til stjórnar). Gunnar forseti mælti fyrir tillögunni sem síðan var borin upp og samþykkt.

 1. Forseti flytur skýrslu stjórnar
  Skýrsla stjórnar hafði legið fyrir á vef nokkrum dögum fyrir aðalfundinn og var að auki fyrirliggjandi á fundinum. Forseti fór yfir allra helstu viðburði svo sem Reykjavíkurskákmótið, Skákþing Íslands á Akureyri í júní, Evrópumót landsliða, Norðurlandamótið o.fl. Forseti fjallaði sérstaklega um Reykjavíkurskákmótið. Þar ræddi hann m.a. fyrir hverja mótið væri haldið og hvert hlutverk þess er fyrir almennt skákstarf landinu, þar á meðal hlut þess í kynningu skáklistarinnar og möguleika sem það skapar til að almennrar fjáröflunar fyrir skákhreyfinguna. Þá ræddi hann Reykjavíkurmótið 2021 sem væntanlega verður um leið EM einstaklinga. Fram kom einnig að seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga 2019 – 2020 muni væntanlega fara fram í Egilshöll í haust. Þá ræddi hann um áhrif kórónuveirunnar á skákmótahald en það lagðist niður í hefðbundnum skilningi frá og með mars. Þá fór forseti yfir önnur mót sem voru haldin og náðist að klára fyrir Covid-19. Þegar hefðbundið mótahald hætti, tóku skákmót á Netinu við. Það varð afar líflegt og þátttaka mikil en annars vegar sá Halldór Grétar Einarsson um skólamót en hins vegar forseti sjálfur og Tómas Veigar Sigurðarson um mót fyrir aðra. Loks kom forseti inn á starf SÍ við kynningu og kennslu, einkum á meðal yngri kynslóðarinnar og nefndi verkefni eins og Skák í skóla og Skákframtíðina sem bæði voru í gangi á síðasta vetri

Þá upplýsti forseti að hann hefði tekið við starfsskyldum Ásdísar Bragadóttur sem lét af störfum eftir áratuga farsælt starf hjá sambandinu. Forseti fór loks yfir það helsta sem framundan er og nefndi þar Sigtryggsmótið sem stendur fyrir dyrum í haust en einnig önnur venjubundin mót. Töluverð óvissa er þó enn um mótahald vegna kórónaveirunnar.

 

 1. Gjaldkeri gerir grein fyrir reikningum síðasta árs

Forseti gerði grein fyrir reikningum í fjarveru gjaldkera. Ásdís Bragadóttir hætti störfum á starfsárinu og því var ársreikningur unninn af utanaðkomandi aðila í ár. Krafa er nú frá ráðuneyti um löggilt bókhald og var bókhaldsfyrirtækið Virtus fengið til starfans. Ekki er lengur þörf á félagslegum endurskoðendum. Nokkurt tap var á rekstri SÍ og fór forseti yfir helstu ástæður. Tap varð á Reykjavíkurmótinu upp á tæpar 4  milljónir og það er of mikið.Ásættanlegt tap gæti verið 1-2 milljónir. Norðurlandamót ungmenna var haldið í Borgarnesi og það er ætíð þungur baggi. Milliuppgjör var kynnt og þar kom m.a. fram að yfirdráttur var greiddur upp í ár. Forseti taldi þó fjárhagsstöðuna góða enda fyrirsjáanlega tiltölulega útlátalítið næsta ár. Þá gat hann um Sigtryggssjóð. Forseti ákvað að ræða um fjárhagsáætlun næsta árs undir þessum lið en hana er að finna í ársskýrslu stjórnar.

5a. Heiðursfélagi SÍ

Forseti tilkynnti að ákveðið hefði verið að gera Ásdís Bragadóttur að heiðursfélaga Skáksambands Íslands og var því afar vel tekið af fundarmönnum. Ásdís hefur starfað fyrir skákhreyfinguna í 32 ár og sagðist forseti hafa kynnst því á eigin skinni eftir að Ásdís lét af störfum á árinu, hversu tímafrekum og fjölbreyttum störfum hún hefði sinnt öll þessi ár. Fyrrum forsetar Guðmundur G. Þórarinsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir tóku til máls og færðu Ásdísi hamingjuóskir og þakkir fyrir ötult starf í öll þessi ár. Fundarstjóri tók einnig undir hamingjuóskir og þakkir og vitnaði til eigin samstarfs við Ásdísi á sinni forsetatíð.

 1. Umræður um skýrslu stjórnar

Ákveðið að taka umræðu um skýrslu stjórnar, ársreikninginn og fjárhagsáætlunina saman.
Jóhann Ragnarsson sagði að sér hefði brugðið í brún þegar hann heyrði að landsliðsþjálfari væri ekki á launum. Þessu þarf að breyta hið snarasta enda erfitt um vik að gera kröfur til þjálfara sem vinna í sjálfboðavinnu. Ennfremur hvatti hann SÍ til að mynda teymi um einstök verkefni sem gæti orðið til að dreifa álagi og bæta árangur. Þá vék Jóhann aðeins að hlutverki SÍ en það væri m.a að verja félög og halda utan um allt regluverk um mót. Hann taldi auk þess að nauðsynlegt væri að bæta við starfsmanni til að halda sama skipulagi verið hefur. Ennfremur ætti að halda betur utan um tölfræði um þátttöku í mótum og umbuna landsliðsmönnum fyrir virkni. Loks ræddi Jóhann um stórmeistaralaunin en þau væru með þeim bestu sem íþróttamenn á landinu njóta, ef frá eru taldir keppendur í stærstu boltagreinum. Jóhann lýsti síðan ánægju sinni með hvernig staðið var að Íslandsmóti kvenna á starfsárinu. Loks lýsti Jóhann skoðunum sínum á afreksstefnu; hún þyrfti að vera heildstæð og í lokin spurði hann hvort Stórmeisarasambandið hefði mótað slíka stefnu. Helgi Árnason beindi spurningu til forseta um hvort þátttökugjöld fyrir skólamót sem sett voru á, á síðasta ári, hefðu skilað sér en sú upphæð gæti numið um kr. 60 000 á skóla. Halldór Grétar Einarsson ræddi fjármál SÍ. Hvernig gjaldahlið hennar skiptist yfirleitt í þrjá nokkuð jafna hluta. Hann taldi að lækka mætti kostnað verulega og rakti hvernig því mætti ná. Fjárhagsáætlun þyrfti bæði að vera í stórum dráttum (eins og hún er núna) en líka nákvæm og reglulega uppfærð, til að stjórnin geti stuðst við áreiðanlegar tölur við ákvarðanatöku en á það taldi Halldór hafa skort hingað til. Þá taldi hann að það væri til bóta að hafa sérstakt bókhald fyrir eyrnamerktar tekjur og jafnvel einstök verkefni. Hann lýsti því að starfandi hefði verið fjárhagsráð þegar hann var varaforseti sem hefði auðveldað mjög að hafa yfirlit yfir reksturinn sem væri afar umfangsmikill. Hjörvar Steinn Grétarsson vakti athygli á kostnaðarliðum tengdum Reykjavíkurskákmótinu eins og þeir voru tilgreindir í ársreikningi, bæði almennt og eins varðandi launakostnað. Þá var hann óánægður með háan yfirdrátt á fyrri hluta tímabils. Hann hvatti til umræðna um hvort rétt sé að verja öllu þessu fjármagni í Reykjavíkurskákmótið eða hvort eitthvað af því fé gæti nýst betur í annað. Þá lýsti hann óánægju með kostnað við bókhaldið. Hann svaraði Jóhanni fyrir hönd Stórmeistarasambandsins: það er ekki með afreksstefnu og taldi Hjörvar það ekki vera hlutverk sambandsins. Oddgeir Ottesen Ræddi Sigtryggssjóðinn og hvaða áætlanir væru varðandi fjármuni úr honum. Hann hvatti til að haldin yrði skákhátíð í haust. Og tók undir það sjónarmið að 2 millj. í bókhaldskostnað væri allt of hátt. Gunnar Björnsson tók undir með Jóhanni Ragnarssyni varðandi landsliðsþjálfun og meiri fagmennsku varðandi þann málaflokk. Þá taldi hann hugmynd Halldórs Grétars um sérstakt bókhald um einstök verkefni af hinu góða. Guðmundur Kjartansson ræddi afreksstefnu SÍ og lagði áherslu á að það þyrfti að hækka verulega styrki sambandsins; helst um helming. Það þyrfti að sýna meiri metnað en nú er. Varðandi þjálfaramál þá taldi hann að þau hefði alveg vantað í hreyfinguna og tilgreindi dæmi um það. Þá tók hann undir með að það vantaði fagmennsku í landsliðsverkefnum; lítill undirbúningur, lítil þjálfun og ekki mikið í gangi. Loks lýsti hann áhyggjum sínum af fjármálum sambandsins.  Jóhanna Björg Jóhannsdóttir lýsti í upphafi síns máls, stuðningi við hugmyndir um að setja meiri fjármuni í þjálfaramál. Þá kom fram í máli hennar að tölur frá Skáksambandi Evrópu (European Chess Union) bentu til að mikil þátttaka í skólaskák skilaði sér illa, nema henni væri fylgt eftir. Þá ræddi hún málefni kvennaskákar; þ.á.m. tímasetningar Íslandsmóts kvenna og taldi heppilegast að það væri á öðrum tíma en önnur mót. Þá taldi hún enn bera á óvirðingu gagnvart stúlkum og konum í skák sem hamlaði því verulega að fá fleiri stelpur til þátttöku. Samtal um það þyrftu allir sem koma að skákstarfi að taka. Loks lýsti Jóhanna sig andvíga því að stelpulið væru verðlaunuð sérstaklega í liðakeppnum. Stefán Bergsson tók undir margt í máli Halldórs Grétars; einkum varðandi fastakostnað svo og um yfirdráttinn. Varðandi Reykavíkurmótið og kostnað við það, mætti vel athuga einstaka liði en almennt sé mótið afar mikilvægt fyrir íslenskt skáklíf. Hann taldi að kostnaður vegna bókhalds hjá sambandinu mætti að hluta skýra með því að þeim verkefnum hefði verið útvistað, eftir að Ásdís lét af störfum. Þá lýsti hann sig sammála Guðmundi Kjartanssyni um að hækka styrki til afreksmanna og að meiri metnaður mætti vera til staðar. Loks tók hann undir sjónarmið Jóhönnu um skákþátttöku kvenna og bætti við að hyggja þyrfti að því að gera skákina aðgengilegri fyrir konur. Héðinn Steingrímsson ræddi fjárhagsstöðu sambandins og taldi að tekjuöflun gæti verið betri. Efla þyrfti markaðssetningu og ein leið til þess væri að kynna skákina sem jákvætt tæki fyrir börn og unglinga með námsörðugleika; Héðinn nefndi athyglisbrest sem dæmi. Hann var ekki sammála forseta um að jákvæður sparnaður fælist í að fella niður mót. Lýsti sig sammála Guðmundi um skort á metnaði og fagmennsku, sem og Jóhönnu um kvennaskákina. Að mati Héðins tengjast öll þessi mál ímynd skákarinnar. Helgi Áss Grétarsson hóf mál sitt á því að lýsa reynslu sinni af því að vera kominn aftur á vettvang skákhreyfingarinnar. Þá vék hann að fjárhagsmálum hreyfingarinnar og lagði áherslu á að mikilvægara væri að vinna að þvi að auka fjármagn innan hennar; stækka kökuna í stað þess að bítast um takmörkuð gæði. Þá taldi hann þörf á nákvæmari sundurgreiningu á gjöldum og tekjum Reykjavíkurmótsins sem vigtaði mjög mikið í fjárreiðum sambandsins. Loks tók hann undir með þeim sem höfðu tjáð sig um kostnað við bókhald; kostnaður væri of mikill þar. Ingimundur Sigurmundsson varpaði fram spurningum um  Reykjavíkurskákmótið. Mikil áhætta fylgdi því að halda það; er réttlætanlegt að halda mót með slíkri áhættu? Hvað hefði gerst ef tapið hefði orðið 10 milljónir? Tók dæmi af Landsmóti hestamanna og því fyrirkomulagi sem þar er… Starf forseta fer mikið í þetta. Að lokum velti hann því fyrir sér hvort ráð væri að stofna sérstakt félag um mótið. Jóhann Hjartarson taldi að fjárhagsvandi SÍ væri einkum tekjuvandi. Að hans mati væri einn helsti vandi hreyfingarinnar sá að það vantaði afreksmenn sem tekið væri eftir.  Finna þyrfti leiðir til að ráða bót á þessu. Margir af bestu skákmönnum þjóðarinnar tefldu sáralítið. Vildi ekki hreyfa mikið við Reykjavíkurmótinu, því það er flaggskip íslenskrar skákhreyfingar. Gunnar Björnsson þakkaði málefnalega umræðu um störf stjórnar og fjármál. Þá svaraði hann fyrirspurn Helga Árnasonar um þátttökugljöld í skólamótum: Þau hefðu skilað sér ágætlega. Hann tók síðan undir margt af því sem fram hafði komið og taldi ýmislegt af því vera verðug verkefni nýrrar stjórnar. Þar á meðal nefndi hann sjónarmið um afreksstefnu og landslið, auk þess sem finna þyrfti leiðir til að umbuna afreksskákmönnum sem eru virkir í þátttöku á mótum. Varðandi Reykjavíkurskákmótið og kostnað við það, rakti Gunnar að vegna ytri aðstæðna hefðu tekjur brugðist og ýmiss kostnaður orðið of mikill.

Reikningar voru síðan bornir upp og samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

Fjárhagsáætlun var einnig samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

 1. Inntaka nýrra félaga

Engin ný félög sóttu um aðild að Skáksambandi Íslands að þessu sinni.

 1. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og tillaga stjórnarinnar árgjöld sambandsins. Almennar umræður og afgreiðsla.

Þessi liður var afgreiddur um leið og umræður um skýrslu stjórnar (sjá 6. lið).

8a. Umræða og  breytingar á lögum og keppnisreglum Skáksambandsins I: Breytingar á 3. gr. og ný 8. gr.

Samkvæmt samþykktri tillögu forseta (sjá 3. lið) var tillagan um breytingu á 3. gr. og nýja 8. gr. tekinfyrir sérstaklega á undan kjöri til stjórnar.

Tillaga Halldórs Grétars Einarssonar og Pálma R. Péturssonar um breytingu á 3. gr og nýja 8. gr. lögum Skáksambands Íslands (tillöguna sjálfa er að finna hér: https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/L%C3%B6g-S%C3%8D-3.-grein-og-n%C3%BD-grein-HGE-PRP.pdf)

Pálmi R. Pálsson kynnti tillögu þeirra Halldórs Grétars að breytingu á 8. gr. um að taka upp þá reglu að sami maður sé ekki forseti og verkefnastjóri. Hann ræddi um það fyrirkomulag sem nú er og galla þess. Eðlilegast væri að stjórnin væri ekki að úthluta launum sér til handa. Hjörvar Steinn Grétarsson svaraði Jóhanni Ragnarssyni um laun stórmeistara: Umhverfið er ekki það sama og 1990 og það þarf að hækka styrki og laun. Áskell Örn Kárason ræddi stöðu stjórnar SÍ; hún þarf að taka margar ákvarðanir og við treystum henni. Taldi að sá tími væri liðinn að hægt væri að ætlast til að allir gerðu allt frítt. Var á móti því að binda þetta í lög, því það yrði að sýna stjórninni traust. Auðbergur Magnússon skildi ekki af hverju ætti að binda þetta í lög. Ef menn hafa traust og áhuga eiga þeir að fá að starfa meðan svo er. Jóhann Ragnarsson tók undir með Áskeli og Auðbergi. Jóhann taldi að það væri liðin tíð að hægt væri að ætlast til að fólk ynni allt í sjálfboðavinnu. Varðandi tímamörkin sagði Jóhann að oft væri talið í stjórnunarfræðum að lágmarkstími formanns væri 10 ár; 5 til að komast inn í málefni og starf og ljúka málum frá fyrri tíð og önnur 5 til að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd. Hann grunaði að 8 ára hugmyndinni væri beint gegn ákveðnum aðilum en vonaði að svo væri ekki. Arnar Ingi Njarðarson taldi að heppilegt væri varðandi þetta mál að líta til reynslu annarra íþróttafélaga, varðandi bæði lengd setu og stjórnarhátta. Héðinn Steingrímsson var hlynntur breytingunum. Rakti ýmsa ókosti þess að menn sætu lengi sem forsetar og að menn væru í fleiru en einu hlutverki. Ræddi líka Reykjavíkurmótið og kostnað við það. Skoraði á fundarmenn að samþykkja tillöguna og taldi að fjölbreytni væri af hinu góða. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir tók til máls og taldi hugmyndina athyglisverða. Hins vegar væri undarlegt að koma fram með þessa tillögu núna og að skeyta saman tveimur tillögum um aðskilin hlutverk og tímalengd. Halldór Grétar Einarsson rakti ástæður þess að félög settu sér slíkar reglur; m.a. af því að menn hika við að fara gegn sitjandi forsetum sem hafa unnið gott starf. Varðandi 8. gr. (aðskilnað á milli hlutverks forseta og annarra starfa): Þarna er bara verið að tala um meiri fagmennsku og að fyrirbyggja að völd safnist á fáar hendur. Halldór fór síðan fram á að kosning yrði leynileg. Oddgeir Ottesen sagði að það væri að verða algilt hjá flestum félögum að skilja á milli stjórnarformanns og framkvæmdastjóra. Hann lagði til að tillögurnar yrðu í tvennu lagi.

Fundarstjóri spurði í framhaldi af máli Oddgeirs um hvort flutningsmenn og fundarmenn væru sáttir við slíka afgreiðslu og reyndist svo vera.

Hörður Jónasson taldi algeran óþarfa að takmarka lengd á setu bæði forseta og stjórnar. Hann taldi það einnig óþarft að setja slíka skiptingu í lög, því stjórnin skipti með sér verkum. Héðinn Steingrímsson tók undir það sem Oddgeir sagði um gallana við að einn maður hefði mörg hlutverk á hendi og að það þyrfti að forðast. Ákvarðanir hafa verið einsleitar og einnig skort fagmennsku; tilgreindi Héðinn síðan dæmi því til stuðnings. Pálmi R. Pétursson sagðist lengi hafa aðhyllst þau sjónarmið lægju að baki þessum tillögum. Vel kæmi hins vegar til greina að greiða fyrir einstök verkefni. Guðmundur Kjartansson taldi jákvætt almennt séð að skipt væri um forystu reglulega og því kvaðst hann fylgjandi tillögunni um hámarksárafjölda sem forseti geti setið. Hjörvar Steinn Grétarsson taldi eðlilegt að tillagan um nýja 8. gr. væri samþykkt en efaðist hins vegar meira um breytingu á 3. gr. Helgi Áss Grétarsson lýsti sig alfarið mótfallinn breytingu á 3. gr. en taldi hins vegar 8. gr. málefnalegri, enda fjallaði hún um framtíðarskipulag á stjórn Skáksambandsins. Tillagan hefði þó þurft að vera skýrari og því myndi hann ekki greiða henni atkvæði að svo stöddu. Jóhann Hjartarson taldi galla vera á breytingatillögunni við 3. gr. og hvernig framkvæmdin ætti að vera skv. henni. Ef hún þýðir að Gunnar geti ekki boðið sig fram aftur, er breytingin afturvirk og það er að öllu jöfnu ekki leyfilegt. Auðbergur Magnússon taldi tillöguna ekki heppilega og rakti kosti við núverandi skipulag; ekki síst að umboð stjórnar sé skýrt og að skilvirkni og samfella sé við lýði í stjórn sambandsins. Stefán Bergsson tók undir rök Auðbergs um að engin þörf væri á að binda þessi ákvæði í lög. Kristján Örn Elíasson vildi taka undir með Jóhönnu, Jóhanni og Auðbergi. Hann taldi hins vegar umræðuna um þessi mál almennt af hinu góða. Þá velti hann upp þeirri spurningu hvort verið væri að lögbinda vantraust á þá stjórn sem nú situr og sitjandi forseta. Kristján taldi auk þess mögulegt að tillagan færi gegn lögum og/eða markmiðum SÍ. Héðinn Steingrímsson viðraði þá hugmynd að setja fram breytingatillögu um gildistíma tillögunnar og að hún tæki þá ekki gildi srax.

Nú kvað fundarstjóri upp úr um að ósk Halldórs Grétars um leynilega kosningu um breytingu á 3. gr. og nýrri 8. gr., ætti ekki stoð í lögum sambandsins og þar af leiðandi yrði kosningin ekki leynileg. Þá rifjaði hann upp fyrir fundarmönnum að til að hljóta samþykki, þyrftu breytingar á lögum sambandsins að fá stuðning 2/3 fundarmanna.

Næst kannaði fundarstjóri stuðning við breytingu á 3. gr. og var stór meirihluti fundarmanna andvígur tillögunni.

Þá kannaði fundarstjóri stuðning við breytingu á 8. gr. og var nokkur meirihluti fundarmanna andvígur henni.


 1. Kosning stjórnar og varastjórnar

Jóhann Hjartarson stakk upp á Gunnari Björnssyni sem forseta Skáksambands Íslands og var hann kjörinn með lófataki.

Gunnar Björnsson nýkjörinn forseti tók þá til máls og þakkaði traustið. Hann gerði síðan tillögu um nýja stjórn: Agnar T. Möller, Elvar Örn Hjaltason, Jóhönnu Björg Jóhannsdóttur, Kristófer Gautason, Stefán Bergsson og Þorstein Stefánsson. Að auki buðu sig fram til stjórnar Birkir Karl Sigurðarson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Þorsteinn Magnússon.

Að lokinni kosningu og talningu atkvæða munu eftirtaldir skipa nýja stjórn Skáksambands Íslands: Agnar T. Möller, Elvar Örn Hjaltason, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Stefán Bergsson og Þorsteinn Stefánsson.

Þá var gengið til kosninga í varastjórn. Í framboði voru Arnar Ingi Njarðarson, Auðbergur Magnússon, Gauti Páll Jónsson, Hörður Jónasson, Veronika Steinunn Magnúsdóttir og Þorsteinn Magnússon.

Að lokinni kosningu og talningu atkvæða munu eftirtaldir skipa nýja varastjórn Skáksambands Íslands: 1. Gauti Páll Jónsson, 2. Veronika Steinunn Magnúsdóttir, 3. Þorsteinn Magnússon og 4. Auðbergur Magnússon.

 1. Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.

Fundarstjóri las upp tillögu forseta um að endurskoðendur yrðu Hlíðar Þór Hreinsson og Þráinn Vigfússon og síðan Oddgeir Á. Ottesen til vara. Tillagan var samþykkt samhljóða.

 1. Kosnir 3 menn í kjörbréfanefnd og 3 til vara til að athuga kjörbréf fyrir næsta aðalfund

Fundarstjóri las upp tillögu forseta um að í kjörbréfanefnd yrðu Kristján Örn Elíasson, Kjartan Maack og Haraldur Baldursson. Og til vara Magnús Matthíasson, Ríkharður Sveinsson og Róbert Lagerman. Tillagan var samþykkt samhljóða.

 1. Kosnir 3 menn í dómstól SÍ og 3 til vara

Fundarstjóri las upp tillögu forseta um að dómstóll SÍ yrði skipaður þeim Halldóri B. Halldórssyni, Braga Halldórssyni og Ólafi Evert Úlfssyni sem aðalmönnum en til vara Björgvini Jónssyni, Hlíðari Þór Hreinssyni og Tómasi Veigari Sigurðssyni. Tillagan var samþykkt samhljóða.

 1. Umræður og breytingar á lögum og keppnisreglum Skáksambandsins

Lagabreytingartillögur:

 1. Halldór Grétar Einarsson tilkynnti að tillaga um samræmingu á lögum SÍ sem hann hafði lagt fram yrði dregin til baka. (Tillöguna má sjá hér og greinagerðina með henni hér)
 2. Tillaga Hlíðars Þórs Hreinsson og Oddgeirs Ottesen um breytingu á 17. gr. og 18. gr. laga um Íslandsmót skákfélaga (https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/17.-og-18.-grein-sk%C3%A1klaga-ni%C3%B0urfelling-s%C3%A9r%C3%A1kv%C3%A6%C3%B0a-H%C3%9EH-O%C3%81O.pdf)

Oddgeir fylgdi tillögunni úr hlaði og taldi upp marga kosti þess fyrirkomulags sem var og taldi breytinguna frá síðasta aðalfundi óþarfa. Gunnar Björnsson taldi breytingar á keppninni síðustu ár (t.d. úr 8 í 10 lið) hefðu gengið vel. Jóhann Hjartarson talaði gegn tillögunni en tók þó fram að hann hefði verið á móti breytingum á fjölda liðsmanna í fyrra. Þá talaði hann almennt gegn hringli á fyrirkomulagi og vildi halda stöðugleika í keppninni.

Tillagan var borin upp og felld með 21 atkvæði gegn 20.

Jóhann Hjartarson lagði fram breytingatillögu (https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/Breytingatillaga-vi%C3%B0-till%C3%B6gu-H%C3%9EH-OO-fr%C3%A1-JH.pdf) við tillögu þeirra Hlíðars og Oddgeirs og kynnti hana. Þó að hann væri ánægður með breytinguna í tvöfalda umferð, mætti vel afturkalla þá breytingu að fækka liðsmönnum í efstu deild og sneri tillaga hans um það, þannig að fjöldi þeirra yrði 8 eins og var áður. Síðan fjallaði hann um að breytingin sem fælist í að nota liðsstig væri af hinu góða; þar með væru úr sögunni verstu ókostir þess að vera með A og B lið í efstu deild.

Borin upp tillaga Jóhanns og samþykkt með þorra atkvæða.

 1. Tillaga Hlíðars Þórs Hreinssonar og Oddgeirs Ottesen um viðbót við 18. gr. laga um Íslandsmót skákfélaga (https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/18.-grein-sk%C3%A1klaga-HGE-OAO.pdf)

Viðbótin fjallar um að félag geti valið að taka ekki þátt í deild sem það hefur rétt á, heldur næstu deild fyrir neðan (en þarf ekki að byrja neðst eins og nú er). Halldór Grétar gerði grein fyrir tillögunni: Það veldur oft liðum vandræðum sem vinna sig upp um deild að þurfa að velja á milli þess að taka það sæti eða þurfa að fara alla leið niður í neðstu deild. Oddgeir bætti síðan við þá umfjöllun og nefndi dæmi. Jóhann Ragnarsson taldi þessa breytingu ganga gegn eðli keppninnar og spurði hvaða afleiðingar hún hefði fyrir önnur félög, t.d. þau sem lenda í 2. eða 3. sæti. Fyrirkomulag eins og það sem tillagan gengur út á, hafi verið við lýði í Hollandi í mörg ár og skapað gríðarleg vandamál þar.

Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt með 18 atkvæðum gegn 17.

 1. Tillaga Karls Gauta Hjaltasonar um breytingu á 18. gr. laga um Íslandsmót skákfélaga (https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/Sk%C3%A1kl%C3%B6g-S%C3%8D-s%C3%A9r%C3%A1kv%C3%A6%C3%B0i-KGH.pdf)

Tillagan fjallar um að fjölgað verði liðum sem fara á milli 3. og 4. deildar: 3 lið fari upp úr 4. deild og 5 lið falli í 4. úr 3. deild.

Tillagan borin upp og samþykkt með þorra atkvæða.

 1. Tillaga frá Oddgeiri Ottesen og Þorsteini Magnússyni um breytingu á sérákvæði 18. gr. laga um Íslandsmót skákfélaga (https://skak.is/wp-content/uploads/2020/05/18.-grein-sk%C3%A1klaga-s%C3%A9r%C3%A1kv%C3%A6%C3%B0i-OAO-%C3%9EM.pdf)

Tillagan felur í sér að fallið verði frá því skilyrði að skákmenn sem vilja ganga til liðs við taflfélag fyrir síðari hluta Íslandsmóts skákfélaga þurfi að vera með lögheimili á Íslandi eða íslenskt ríkisfang. Í greinargerð kemur fram að þetta er hugsað sem einskiptisákvæði þetta ár, vegna kórónuveirunnar. Jóhann Ragnarsson tók til máls og lýsti því að hann skildi rökin að baki tillögunni. Samt væri hann mótfallinn henni, einkum vegna þess að þetta veldur skekkju á milli félaga í mótinu og vakti athygli á að ekkert slíkt hefði verið leyft í öðrum íþróttum vegna Covid-19.

Tillagan borin upp og samþykkt með 23 atkvæðum gegn 6.

 1. Önnur mál

Engin önnur mál voru tekin til umræðu að þessu sinni.

Forseti þakkaði fyrir fróðlegan og málefnalegan fund. Þá færði hann fráfarandi stjórnarmönnum þeim  Halldóri G. Einarssyni, Róberti Lagerman, Herði Jónassyni, Ingibjörgu Eddu Birgisdóttur og Þóri Benediktssyni innilega þakkir fyrir samstarfið undanfarin ár. Loks lýsti forseti ánægju sinni með áhuga margra á að taka þátt í stjórn SÍ, sem og nýliðun í stjórninni; hann væri ánægður með að vera nú sjálfur næstelstur í nýrri stjórn.

Fundi slitið kl. 15:38.