Íslandsmót barna- og unglingasveita fyrir árið 2020 fór loks fram laugardaginn 16. janúar. Teflt var að Faxafeni 12 í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur og Skákskóla Íslands. Vegna samkomutakmarkana þurfti að skipta mótinu niður í tvær deildir og A-deildin var svo tefld í tveimur átta sveita riðlum. Alls mættu 26 sveitir frá sjö félögum til leiks.
Í B-deildinni voru margir skákkrakkar að tefla í fyrsta skipti á Íslandsmóti fyrir sitt félag. Keppnin um sigurinn var spennandi og báru D-sveitir Taflfélags Reykjavíkur og Skákdeildar Fjölnis af öðrum sveitum. Fór svo að D-sveit Taflfélagsins fékk vinningi meir en D-sveit Skákdeildar Fjölnis og hreppti gullið. Fjölniskrakkarnir tóku silfrið og H-sveit Skákdeildar Breiðabliks bronsið. Teflt var með tímamörkunum fimm mínútur með tveggja sekúndna viðbótartíma.

Sigursveit TR-d skipuðu: Emil Kári Jónsson, Lemuel Goitom Haile, Kjartan Halldór Jónsson og Felix Eyþór Jónsson.
Í A-riðli A-deildar var A-sveit Skákdeildar Breiðbliks sigurstranglegust. Framan af elti öflug B-sveit Taflfélags Reykjavíkur Blikana eftir eins og skugginn. Að lokum komu þó Blikarnir tveimur vinningum á undan í mark og tryggðu sér þar með sæti í úrslitaviðureigninni.
Í B-riðli var svipað uppi á teningnum. A-sveit Taflfélags Reykjavíkur náði snemma forystunni en B-sveit Skákdeildar Breiðabliks fylgdi TR-ingum fast á eftir. Sveitirnar mættust í síðustu umferð riðilsins og áttu TR-ingar þriggja vinninga forskot. Framan af viðureigninni stefndi í sigur TR-inga en Blikar börðust um á hæl og hnakka og tryggðu sér jafntefli og hefðu jafnvel getað stolið sigrinum.


B-sveitir Taflfélags Reykjavíkur og Skákdeild Breiðabliks tryggðu sér sameiginlegt brons fyrir að lenda í öðru sæti sinna riðla en A-sveitir félaganna tefldu gegn hvor annarri í úrslitaviðureigninni. Teflt var með átta mínútna umhugsunartíma með þriggja sekúndna viðbót.
Í úrslitaviðureigninni var tefld tvöföld umferð. Í fyrri umferðinni unnust allar skákir á hvítt og staðan því 2-2. Spennan var gríðarleg í seinni umferðinni og þegar vel var liðið á viðureignina voru allar skákir jafnar en tíminn á klukkunni orðinn lítill. Fór svo að skákirnar snerust TR-ingum í vil á svipuðum tímapunkti. Blikarnir reyndu að krafsa í bakkann en TR-ingar sýndu stáltaugar og sigldu viðureigninni heim 3-1 og höfðu því betur í úrslitakeppninni með fimm vinningum gegn þremur. Íslandsmeistaratitillinn fer því í Faxafenið fyrir árið 2020. Til hamingju TR! Erfitt er að taka einhvern einn út út liði Íslandsmeistaranna en vert er að minnast á taflmennsku Benedikts Þórissonar í úrslitaviðureigninni sem var feyki öflug. Hann vann báðar sínar skákir rétt eins og Kristján Dagur Jónsson. Benedikt Briem vann báðar sínar skákir fyrir Blika.

Breiðablik átti flestar sveitir á mótinu og urðu nokkrar sveitir þeirra ofarlega í riðlum A-deildar sem sýnir mikla breidd innan raða Blika og er góður vitnisburður um þeirra mikla starf. Íslandsmeistararnir sendu fimm sveitir til leiks eins og svo oft áður það gerði einnig Skákdeild Fjölnis en mikil ásókn hefur verið í æfingar Fjölnis á þessum vetri. Sveitir Víkingaklúbbsins hafa fest sig í sessi á mótinu og ánægjulegt var að sjá sveitir frá Skákdeild KR, Garðbæingum og Skákfélagi Akureyrar en Norðanmenn keyrðu í mótið snemma dags og héldu svo rakleiðis heim til Akureyrar að móti loknu!
Skáksamband Íslands þakkar Taflfélagi Reykjavíkur og Skákskóla Íslands fyrir samstarf um hýsingu mótsins.
Skákstjórn önnuðust Stefán Steingrímur Bergsson, Ingibjörg Edda Birgisdóttir og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir.
Einstaklingsúrslit væntanleg.
Myndir frá mótin(Haukur Húni Árnason)
Myndir má finna í með í tenglinum hér að ofan.