Íslandsmót kvenna í hraðskák fór fram annað sinn í dag. Tólf skákkonur tóku þátt og var mótið afskaplega vel mannað. Nánast allar sterkstu skákkonur landsins tóku þátt. Þar má meðal annars nefna Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Hörpu Ingólfsdóttur sem ekki hafa tekið þátt í opinberu skákmóti í um áratug!

Olga Prudnykova (2169), sem er flóttamaður frá Úkraínu, byrjaði ekki vel á mótinu því hún tapaði í fyrstu umferð fyrir Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur (1908). Eftir það héldu henni engin bönd og hún vann allar sex skákirnar sem eftir voru! Það dugði til sigurs á mótinu! Hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill en keppnisréttur hennar fyrir Íslands hönd hefur verið samþykktur.

Keppendur á Íslandsmóti kvenna í hraðskák 2022. Mynd: GPJ

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1927), sem hafði titil að verja, endaði í öðru sæti með 5½ vinning. Hallgerður varð þriðja með 5 vinninga.

Rétt er að benda á góðan árangur Iðunnar Helgadóttur (1575) sem náði 2½ af 4 mögulegum gegn meðlimum síðasta ólympíuliðs Íslands.

Lokastaðan

Skákstjóri var  Gauti Páll Jónsson.