Eftirfarandi tölvupóstur var sendur fyrr í dag til neðangreindra aðila.
- Aðildarfélaga Skáksambands Íslands
- Atvinnustórmeistara
- Félag íslenskra stórmeistara
- Skólastjóra og stjórnar Skákskóla Íslands
- Stjórnar Launasjóðs í skák
- Formenn fastanefnda SÍ
Meðfylgjandi eru meginefni tillagna Skáksambandsins sem verður skilað til ráðuneytisins í byrjun mars 2023.
Ykkur er gefin kost á koma á framfæri athugasemdum og ábendingum fyrir þann tíma ef þið teljið ástæðu til.
F.h. stjórnar SÍ
Gunnar Björnsson
Öðrum en ofangreindum stendur jafnframt til boða að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri.
—————–
Fyrirkomulag opinbers stuðnings við skákhreyfinguna
Eins og kunnugt er hefur mennta- og barnamálaráðuneytið lýst eindregnum vilja til að innleiða breytingar á fyrirkomulagi styrkveitinga ríkisins til skákhreyfingarinnar og hefur beint því til Skáksambands Íslands (SÍ) að móta heildstæða tillögu að nýju fyrirkomulagi. Í kjölfar þess var birt frétt á skak.is og bréf sent hagsmunaaðila innan skákhreyfingarinnar og óskað eftir umsögnum. Níu umsagnir bárust.
Eftirfarandi aðilar sendu umsagnir
- Áskell Örn Kárason, formaður Skákfélags Akureyrar
- Björn Ívar Karlsson, skákþjálfari
- Guðmundur Kjartansson og Hannes Hlífar Stefánsson, stórmeistarar í skák
- Helgi Ólafsson, skólastjóri Skákskóla Íslands og stórmeistari í skák
- Héðinn Steingrímsson, stórmeistari í skák
- Hjörvar Steinn Grétarsson, stórmeistari í skák
- Lenka Ptácníková, stórmeistari kvenna í skák
- Ríkharður Sveinsson, f.h. Taflfélags Reykjavíkur
- Stjórn Launasjóðs stórmeistara
Stjórn Skáksamband Íslands hefur yfirfarið umsagnirnar og tekið mið af þeim við mótun tillagna.
Markmið breytinga
Við þá endurskoðun sem nú stendur fyrir dyrum telur stjórn Skáksamband Íslands rétt að hafa eftirfarandi markmið að leiðarljósi:
- Umgjörð afreksstarfs auðveldi okkar fremsta skákfólki að hámarka árangur sinn.
- Kerfið auðveldi efnilegu skákfólki að komast í fremstu röð.
- Viðhaldið verði hvata til að ná stórmeistaratitli en jafnframt innleiddir hvatar til að ná frekari árangri í framhaldi af því.
- Sveigjanleiki kerfisins verði aukinn hvað það varðar að forgangsraða fjármunum í þágu skákmanna sem sýna fram á góðan árangur og framfarir.
Tillögur SÍ til til mennta- og barnamálaráðuneytisins
Á grundvelli þeirra markmiða sem að framan var lýst og með hliðsjón af umsögnunum sem fram komu leggur stjórn Skáksambands Íslands til þær breytingar sem lýst er hér á eftir. Lögð er áhersla á að tillögurnar eru settar fram á þeirri forsendu að breytingar sem innleiddar verða leiði ekki til skerðinga á framlögum ríkisins til skákhreyfingarinnar, sbr. það sem fram hefur komið í samtölum við ráðuneytið þar að lútandi. Tryggja þarf áframhaldandi festu og fyrirsjáanleika hvað varðar hin opinberu framlög, þannig að þau verði ekki um of háð stefnu og áherslum stjórnvalda á hverjum tíma.
Skáksamband Íslands
- Stjórn Skáksambands Íslands setji skýra afreksstefnu. Væntanlega verða megin markmiðin að auka skákáhuga á Íslandi, efla okkar sterkustu landslið og að styðja við framfarir efnilegs skákfólks.
- Áfram verði veittir ríkisstyrkir til sambandsins á grundvelli samninga.
- Skákskóli Íslands verði áfram starfræktur á vegum sambandsins
Skákskóli Íslands
- Skákskólinn leggi megináherslu á afrekskennslu en eftirláti taflfélögum landsins að mestu byrjendakennslu. Í tengslum við þá breytingu verði skipting skólans í almenna deild og framhaldsdeild afnumin.
- Skákskóli Íslands sinni m.a. útbreiðslustarfi á landsbyggðinni.
- Skákskólinn verði í góðu samstarfið við taflfélög landsins.´
- Kennsluskylda atvinnustórmeistara við skólann verði afnumin en háð verði samkomulagi hverju sinni hvort þeir kenni við skólann.
Launasjóður stórmeistara
Að mati stjórnar SÍ er mikilsvert að til staðar sé sjóður sem gerir sterkasta skákfólki landsins kleift að helga sig skáklistinni, eins og verið hefur í liðlega 30 ár. Það felur í sér hvata til þess að ná stórmeistaratitli og eykur um leið möguleikana á að ná enn frekari árangri, enda krefst það tímafrekrar og kostnaðarsamrar þjálfunar að auka skákstyrk sinn enn frekar. Það er þó ótvírætt ókostur að ekki sé til staðar fjárhagslegur hvati til frekari framfara eftir að stórmeistaratitli er náð. Ljóst er að vilji ráðuneytisins stendur til þess að afnema þá skipan mála að stórmeistarar teljist ríkisstarfsmenn og tillögur SÍ taka mið af því.
Tillögurnar eru nánar tiltekið eftirfarandi:
- Núverandi kerfi ríkislauna verði lagt niður en fjárhæð þess í stað greidd árlega í sérstakan sjóð sem verði á forræði Skáksambandsins.
- Styrktarsamningar (6-36 mánaða) verði gerðir við skákmenn á grundvelli umsókna Einstaklingsbundnar skyldur og markmið verði skilgreind í hverjum og einum styrktarsamningi. Sérstök styrkjanefnd/sjóðsstjórn verði falið að gera styrktarsamninga við skákmenn á grundvelli reglna sem settar verði þar að lútandi. Við gerð samningana verði horft á árangur, virkni og ástundun síðustu 12-24 mánaða, skákstyrk og framfarir, sem og framtíðaráætlanir þeirra.
- Stórmeistarar njóti forgangs á aðra sýni þeir fram á árangur, ástundun og metnað. Sjóðnum er ekki ætlað að styrkja skákmenn með minna en 2350 skákstig. Undantekningar má gera á því við sérstakar aðstæður.
- Tryggt verði að a.m.k. ein kona njóti styrks á hverju ári.
- Styrkjanefnd skal óska eftir skýrslu styrkþega á a.m.k. á eins árs fresti þar sem farið er yfir árangur og ástundun og framtíðaráætlanir.
- Þeir sem gera styrktarsamninga við Skáksamband Íslands skulu tefla fyrir Íslands hönd þegar þess er óskað, taka þátt í Skákþingi Íslands og tefla á Reykjavíkurskákmótinu nema að gildar ástæður hamli þátttöku.
- Gerðar verði lágmarkskröfur um taflmennsku, sem þó verði ekki endilega miðaðar við sama skákafjölda fyrir alla styrkþega ef sumir taka í staðinn á sig ríkari skyldur að öðru leyti.
- Styrktarsjóðurinn má styrkja þátttöku á alþjóðlegum mótum séu þau talin líkleg til að efla skákmanninn.
- Stjórn SÍ leggi til breytingar á lögum SÍ og reglugerðum SÍ þar sem fyrirkomulagið verði útfært og aðlagað að þeim breytingum sem kunna að verða gerðar á landslögum og reglugerðum.