Nýjasti alþjóðlegi meistari Íslendinga, Dagur Ragnarsson (2346), tekur sæti í landsliðsflokki Skákþings Íslands. Hann tekur sæti félags síns úr Fjölni, Héðins Steingrímssonar (2491) sem boðaði forföll í gær.
Mótið í ár verður eitt það sterkasta í sögunni. Af tólf keppendum eru sjö stórmeistarar (af alls 16 sem hafa verið útnefndir) sem er met þrátt fyrir þessa fækkun stórmeistara um einn! Auk þess einn stórmeistari kvenna, tveir alþjóðlegir meistarar, einn FIDE-meistari og einn fulltrúi titillausra!
Fimm keppendanna hafa áður verið Íslandsmeistarar. Þeira langoftast auðvitað Hannes Hlífar Stefánsson sem er þrettánfaldur Íslandsmeistari í skák.
Keppendalistinn er sem hér segir (skákstig og íslandsmeistaratitlar í opnum flokki í sviga)
- Hjörvar Steinn Grétarsson (2539-2) – stórmeistari
- Hannes Hlífar Stefánsson (2521-13) – stórmeistari
- Henrik Danielsen (2501-1) – stórmeistari
- Vignir Vatnar Stefánsson (2470-0) – stórmeistari
- Jóhann Hjartarson (2466-6) – stórmeistari
- Bragi Þorfinnsson (2431-0) – stórmeistari
- Guðmundur Kjartansson (2402-3) – stórmeistari
- Hilmir Freyr Heimisson (2353-0) – alþjóðlegur meistari
- Dagur Ragnarsson (2346-0) – alþjóðlegur meistari
- Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2338-0) – FIDE-meistari
- Lenka Ptácníková (2099-0) – stórmeistari kvenna
- Jóhann Ingvason (2076-0)
Glæsileg umgjörð verður á mótinu. Allir skákirnar í beinni (þó með 15 mínútna seinkun) og beinar lýsingar í umsjón okkar færustu lýsenda.
Styrktaraðilar mótsins eru
- Hafnarfjarðarkaupstaður
- Algalíf
- Teva
- Lengjan
- Guðmundur Arason
- MótX