Reykjavíkurskákmót í 50 ár

Eins og kunnugt er hefur Skáksamband Íslands ráðist í ritun bókar um sögu Reykjavíkurskákmótsins. Helgi Ólafsson, stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands, er höfundur bókarinnar. Ljóst má vera að fáir valda því hlutverki eins vel. Helgi er hafsjór fróðleiks um mótið og var sjálfur staddur í hringiðu þess um 30 ára skeið.

Saga Reykjavíkurmótsins er jafnframt saga skáklistarinnar á Íslandi, þar sem mótið hefur myndað þungamiðju skáklífs og veitt íslenskum skákmönnum tækifæri til þess að etja kappi við erlenda skákmeistara á heimavelli og þjóðinni ánægju af því að geta fylgst með skák á heimsmælikvarða úr návígi. Reykjavíkurskákmótið er elsti viðburður sem ber í titli nafn höfuðborgarinnar og er enn starfrækt og haldið reglulega. Sagan er einnig aldarspegill, þar sem Helgi hefur ekki einatt næmt auga fyrir því sem gerist á skákborðinu heldur einnig utan þess.

Verkið verður gefið út í tveimur bindum. Hið fyrra segir sögu mótanna frá 1964 til 1990 og kom út mars 2015 fyrir Opna Reykjavíkurskákmótið í umsjón Sagna útgáfu, en Menningarfélagið Mátar sá um yfirlestur ritsins. Sú ákvörðun hefur einnig verið tekin að fresta útgáfu tímaritsins Skákar en leggja þess í stað áherslu á Sögu Reykjavíkurskákmótsins í 50 ár. Seinna bindið kemur út að ári.

Það er von Skáksambands Íslands að bókin hljóti góðar viðtökur. Hægt er að skrá sig fyrir eintaki hér eða á Skák.is (guli kassinn efst) . Hvort bindi mun kostar 4.900 kr.

Viðtal um Helga Ólafsson í Morgunblaðinu um bókina má finna hér.