Lög Skáksambands Íslands

Samþykkt á aðalfundi 2014

1. grein.
Skáksamband Íslands er landssamband íslenskra skákfélaga. Það skal vera aðili að þeim alþjóðlegu samtökum skákmanna sem aðalfundur þess ákveður hverju sinni. Heimili sambandsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein.
Markmið skáksambandsins er:
I. Að vera samtakaheild og yfirstjórn allra skákfélaga á Íslandi.
II. Að efla íslenska skáklist og standa vörð um hagsmuni íslenskra skákmanna innan lands og utan.
III. Að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis.
IV. Að greiða fyrir samskiptum við skákmenn annarra þjóða.

3. grein.
Stjórn skáksambandsins skipa sjö menn, forseti, varaforseti, ritari, gjaldkeri, skákritari, æskulýðs-fulltrúi og meðstjórnandi. Stjórnin er kosin á aðalfundi sambandsins þannig, að fyrst er kosinn forseti, en síðan sex meðstjórnendur í einu lagi. Á sama hátt skal kjósa fjóra menn í varastjórn. Kjörtímabil skal vera eitt ár.
Stjórnin skiptir með sér starfsheitum og verkefnum.

4. grein.
Forseti boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Í forföllum forseta gegnir varaforseti störfum hans. Stjórnarfundur er lögmætur ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn eða varastjórnarmenn sitja hann. Verði ágreiningur á stjórnarfundum skal bera afgreiðslu málsins undir atkvæði. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði forseta úrslitum. Stjórnin ræður málefnum sambandsins, öðrum en þeim sem aðalfundur einn hefur ákvörðunarrétt um.

5. grein.
Stjórn Skáksambands Íslands getur veitt félögum inngöngu í sambandið. Félag telst þó ekki fullgildur aðili þess fyrr en inntakan hefur hlotið samþykki aðalfundar. Félög sem sótt hafa um inntöku í S.Í. og hlotið samþykki stjórnarinnar til þess skulu fá aðgang að mótum S.Í. fram að næsta aðalfundi. Fulltrúar þeirra mega sitja aðalfund með tillögurétti og málfrelsi uns fjallað hefur verið um inngöngu þeirra á fundinum.
Ekki má víkja aðildarfélagi úr sambandinu nema með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

6.grein.

Standi aðildarfélag í gjaldfallinni skuld við sambandið hefur það ekki rétt til að eiga fulltrúa á aðalfundi. Skákdeildir í félögum geta átt aðild að sambandinu, enda hafi þá minnst 10 menn bundist slíkum samtökum. Heimilt er tveimur eða fleiri aðildarfélögum í sama landshluta að stofna með sér svæðissamband.

7. grein.
Reikningsár Skáksambandsins hefst 1. janúar ár hvert.. Ársreikningar skulu sendir aðildarfélögum og birtir á heimasíðu sambandsins 14 dögum fyrir aðalfund.

8. grein.
Aðalfundur er æðsta vald sambandsins. Hann skal haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Til hans skal boða bréflega a.m.k. 30 dögum fyrir fundinn. Fundurinn telst lögmætur ef rétt er til hans boðað. Á fundinum eiga sæti, auk stjórnarinnar, fulltrúar tilnefndir af aðildarfélögunum.

9. grein.

Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi á hvert félag eitt atkvæði enda geti sýnt fram á a.m.k. 10 félagsmenn með lögheimili á Íslandi og geti sýnt fram á virka skákstarfsemi. Eitt atkvæði bætist við hjá félagi fyrir hverja sveit sem það sendir í Íslandsmót skákfélaga það árið. Við atkvæðagreiðslu um kjörbréf í upphafi fundar skal gilda sú regla, að hvert félag fari ekki með fleiri atkvæði en það hafði á aðalfundi árið áður. Enginn fulltrúi getur farið með meira en eitt atkvæði á fundinum. Við atkvæðagreiðslur á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða, nema um þau mál sem sérstaklega eru tilgreind í þessum lögum.

10. grein.
Verkefni aðalfundar skulu vera þessi:
1. Forseti Skáksambandsins setur fundinn og lætur kjósa fundarstjóra og einn til vara og tvo fundarritara sem taka þegar til starfa.
2. Kynnt fundargerð síðasta aðalfundar.
3. Kjörbréfanefnd gerir grein fyrir kjörbréfum og kannar fundarsókn.
4. Forseti flytur skýrslu stjórnar.
5. Gjaldkeri gerir grein fyrir reikningum síðasta árs.
6. Umræður um störf stjórnarinnar og afgreiðsla reikninga.
7. Inntaka nýrra félaga.
8. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og tillaga stjórnarinnar um árgjöld til sambandsins. Almennar umræður og afgreiðsla.
9. Kosning stjórnar og varastjórnar.
10. Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.
11. Kosnir 3 menn í kjörbréfanefnd og 3 til vara, til að athuga kjörbréf fyrir næsta aðalfund.
12. Kosnir 3 menn í dómstól Skáksambands Íslands og þrír til vara.
13. Umræður og breytingar á lögum og keppnisreglum Skáksambandsins.
14. Önnur mál.
Röð verkefna má aðeins breyta með samþykki aðalfundar.

11. grein.
Aðalfundur getur kosið heiðursfélaga Skáksambands Íslands eftir tillögu sambandsstjórnar.

12.grein.
Keppendaskrá Skáksambands Íslands:

Skáksambandið heldur keppendaskrá vegna Íslandsmóts skákfélaga. Sérstök reglugerð lýsir keppendaskránni og reglum um skráningu í hana.

13. grein.
Brot á lögum og reglum Skáksambandsins, svo og framkoma sem andstæð er almennu velsæmi og sönnum íþróttanda, eins og að hætta án gildra skýringa í skákmóti, hafa uppi svigurmæli um skákfélaga og annað þessu líkt, getur varðað refsingu annað hvort áminningu eða banni við keppni í einstöku móti eða mótum í tiltekinn tíma. Áfengisnotkun er bönnuð hjá þeim fulltrúum eða styrkþegum sem SÍ sendir á mót erlendis. Áfengisbannið varir á meðan á mótunum stendur. Einnig gildir þetta áfengisbann í Landsliðsflokki SÞÍ. Dómstóll Skáksambands Íslands skal hafa fullnaðarúrskurðarvald um viðlög við brotum á ákvæði þessu. S.Í. skal í samráði við dómstólinn setja reglugerð um störf og valdsvið dómstólsins.

14. grein.
Breytingar á lögum og skáklögum sambandsins verða einungis gerðar á aðalfundi, enda hafi þeirra verið getið í fundarboði. Til að breytingar á lögum öðlist gildi þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða, en til breytinga á skáklögum nægir einfaldur meirihluti. Allar tillögur hér að lútandi ber að senda stjórn S.Í. með nægum fyrirvara til þess að unnt sé að senda þær út, stjórnum aðildarfélaga til kynningar. Allar lagabreytingartillögur verða að vera fluttar af stjórn SÍ, aðildarfélögum SÍ eða fulltrúum þeirra á aðalfundi. Til að tillaga verði tekin fyrir þarf tillöguflytjandi eða fulltrúi hans að vera viðstaddur á aðalfundi og mæla sjálfur fyrir tillögunni.

15. grein.
Lög þessi túlkar stjórn Skáksambands Íslands.

16. grein.
Lög þessi öðlast þegar gildi eru jafnframt úr gildi fallin eldri lög Skáksambands Íslands.