Lög samþykkt á aðalfundi SÍ, 10. júní 2023
LÖG SKÁKSAMBANDS ÍSLANDS
1. kafli Almenn ákvæði, hlutverk og stjórnkerfi
1. grein. Heiti og aðsetur
Skáksamband Íslands (SÍ) er landssamband íslenskra skákfélaga. Heimili sambandsins og varnarþing er í Reykjavík.
Sambandið er aðili að Alþjóða skáksambandinu (FIDE), nema að aðalfundur ákveði annað. Jafnframt er sambandið aðili að öðrum alþjóðlegu samtökum skákmanna sem aðalfundur ákveður hverju sinni.
2. grein. Hlutverk og tilgangur SÍ
SÍ er æðsti aðili skákhreyfingarinnar á Íslandi og er hlutverk þess í meginatriðum:
a. að fara með yfirstjórn íslenskra skákmála,
b. að vinna að eflingu skákarinnar í landinu og standa vörð um hagsmuni íslenskra skákmanna,
c. að efla og treysta samskipti sambandsfélaganna innbyrðis,
d. að setja íslensku skákhreyfingunni lög og reglur og að framfylgja þeim,
e. að annast þátttöku og val á keppendum sem keppa fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vettvangi, hvort sem um er að ræða liða- eða einstaklingskeppni,
f. að annast erlend samskipti, m.a. með því að greiða fyrir samskiptum við skákmenn annarra þjóða.
SÍ starfar að öllu leyti sjálfstætt og er hlutlaust þegar kemur að stjórnmálum og trúarbrögðum. SÍ skal gæta jafnræðis og jafnréttis. Jafnræði fyrir lögum og reglugerðum SÍ skal virt í hvívetna.
3. grein. Stjórnkerfi SÍ
Málefnum SÍ stjórna:
a. aðalfundur sem fer með æðsta vald í málefnum SÍ og setur lög sambandsins, sem og skáklög sem gilda m.a. um mótahald á vegum þess,
b. stjórn SÍ sem fer með æðsta vald í málefnum sambandsins milli aðalfunda,
c. fastanefndir SÍ sem vinna samkvæmt lögum og reglugerðum SÍ og starfsreglum sem stjórn SÍ setur þeim,
d. sérstakar nefndir sem skipaðar eru af aðalfundi eða stjórn SÍ og starfa að afmörkuðum málefnum,
e. annað hvort forseti í launuðu starfi, sbr. 11. gr., eða framkvæmdastjóri SÍ, sem ábyrgð ber á daglegum rekstri sambandsins.
Dómstóll SÍ er á einu dómstigi og starfar samkvæmt þessum lögum, skáklögum SÍ og öðrum reglum sem falla undir valdsvið hans.
II. kafli Aðild að SÍ og aðalfundur
4. grein. Aðild að SÍ og brottvikning félags
Með samþykki aðalfundar getur skákfélag orðið aðili að SÍ. Á milli aðalfunda getur stjórn SÍ veitt félagi inngöngu í sambandið. Félag telst þó ekki fullgildur aðili þess fyrr en inntakan hefur hlotið samþykki aðalfundar. Fulltrúar slíks félags mega sitja aðalfund með tillögurétti og málfrelsi uns fjallað hefur verið um inngöngu þess á fundinum.
Félag sem sótt hefur um inngöngu í SÍ og hlotið samþykki stjórnarinnar til þess skal fá aðgang að mótum SÍ fram að næsta aðalfundi.
Skákdeildir í félögum geta átt aðild að sambandinu, enda hafi þá minnst 10 menn bundist slíkum samtökum. Heimilt er tveimur eða fleiri aðildarfélögum í sama landshluta að stofna með sér svæðissamband.
Ekki má víkja aðildarfélagi úr sambandinu nema með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi. Brottvikning úr sambandinu þarf að styðjast við málefnaleg rök, svo sem að félag hafi um langa hríð ekki staðið skil á gjaldfallinni skuld til sambandsins og það hafi með grófum eða ítrekuðum hætti brotið gegn reglum sambandsins. Aðildarfélag, sem vikið hefur verið úr sambandinu, getur borið lögmæti brottvikningarinnar undir dómstól SÍ.
5. grein. Aðalfundur SÍ
Aðalfundur skal haldinn árlega, eigi síðar en 15. júní (breytt 2023)
Stjórn SÍ ákveður fundarstað og skal hún boða fundinn með rafrænum hætti, eða öðrum sannanlegum hætti, með minnst eins mánaðar fyrirvara. Ef brýna nauðsyn ber til er heimilt að ákveða að fundurinn fari fram í gegnum fjarfundabúnað.
Fundurinn telst lögmætur ef rétt er til hans boðað.
6. grein. Atkvæðisréttur á aðalfundi
Við atkvæðagreiðslu á aðalfundi fer hvert félag með eitt atkvæði enda geti það sýnt fram á a.m.k. 10 félagsmenn með lögheimili á Íslandi og virka skákstarfsemi.
Eitt atkvæði bætist við hjá félagi fyrir hverja sveit sem það sendir á Íslandsmót skákfélaga það árið.
Standi aðildarfélag í gjaldfallinni skuld við sambandið hefur það ekki rétt til að eiga fulltrúa með atkvæðisrétt á aðalfundi.
Við atkvæðagreiðslu um kjörbréf í upphafi fundar skal gilda sú regla, að hvert félag fari ekki með fleiri atkvæði en það hafði á aðalfundi árið áður.
Hver kjörinn aðalfundarfulltrúi fer aðeins með eitt atkvæði. Ekki er heimilt að greiða atkvæði samkvæmt umboði eða bréfleiðis.
Við atkvæðagreiðslur á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða, nema um þau mál sem sérstaklega eru tilgreind í þessum lögum.
Á aðalfundi má takmarka tillögurétt og málfrelsi þeirra fundarmanna sem ekki hafa rétt til að greiða atkvæði á fundinum. Þeir sem sitja í stjórn og varastjórn SÍ hafa þó ávallt tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi.
7. grein. Ársreikningur SÍ
Reikningsár SÍ hefst 1. janúar ár hvert. Ársreikningur, áritaður af löggiltum endurskoðanda, skal sendur aðildarfélögum og birtur á heimasíðu sambandsins 14 dögum fyrir aðalfund.
8. grein. Verkefni aðalfundar
Verkefni aðalfundar skulu vera þessi:
1. Forseti SÍ setur fundinn og lætur kjósa fundarstjóra og einn til vara og tvo fundarritara sem taka þegar til starfa.
2. Kynnt fundargerð síðasta aðalfundar.
3. Kjörbréfanefnd gerir grein fyrir kjörbréfum og kannar fundarsókn.
4. Forseti flytur skýrslu stjórnar.
5. Gjaldkeri gerir grein fyrir reikningum síðasta árs.
6. Umræður um störf stjórnarinnar og afgreiðsla reikninga.
7. Inntaka nýrra félaga.
8. Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár og tillaga stjórnarinnar um árgjöld til sambandsins. Almennar umræður og afgreiðsla.
9. Kosning forseta fyrst (annað hvert ár), svo annarra stjórnarmanna og að lokum varastjórnar, sbr. 10. gr.
10. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
11. Kosnir 3 menn í kjörbréfanefnd og 3 til vara, til að athuga kjörbréf fyrir næsta aðalfund.
12. Kosnir 3 menn, þ.e. formaður og tveir meðdómendur, og þrír varadómendur í dómstól SÍ.
13. Kosnir 3 menn í kjaranefnd og einn til vara (annað hvert ár).
14. Umræður og breytingar á lögum og keppnisreglum (skáklögum) SÍ.
15. Önnur mál.
Röð verkefna má aðeins breyta með samþykki aðalfundar.
9. grein. Kosning heiðursfélaga
Aðalfundur getur kosið heiðursfélaga SÍ eftir tillögu sambandsstjórnar. Stjórn SÍ getur ákveðið að veita heiðursmerki SÍ, sem eru gullmerki og silfurmerki.
III. kafli Stjórn SÍ og stjórnunarhættir
10. grein. Kosning stjórnar SÍ
Stjórn SÍ er kosin á aðalfundi og hafa allir kjörnir aðalfundarfulltrúar atkvæðisrétt.
Stjórn SÍ skipa sjö menn, þ.e. forseti, varaforseti, ritari, gjaldkeri, æskulýðsfulltrúi og tveir meðstjórnendur. Fjórir menn sitja í varastjórn. Varamenn í stjórn taka sæti í stjórninni ef aðalmaður forfallast og koma inn í stjórnina í sömu röð og þeir eru kosnir.
Kosningar til forseta og stjórnar skulu vera leynilegar og skriflegar nema frambjóðendur séu jafn margir og kjósa skal.
Fyrst skal kjósa beinni kosningu forseta til tveggja ára. Forseti skal ekki sitja lengur en sex kjörtímabil samfleytt.
Kjörtímabil annarra stjórnarmanna en forseta er til eins árs.
Tilkynning um framboð til embættis forseta SÍ skal berast skrifstofu SÍ minnst 10 dögum fyrir aðalfund. Hafi engin gild framboð til forseta borist innan tilskilins frests má hvenær sem er eftir það tilkynna um framboð, m.a. á aðalfundinum sjálfum.
Til að ná kjöri sem forseti SÍ þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný, bindandi kosningu, um þá tvo menn sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða.
Kosning annarra stjórnarmanna en forseta skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á. Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði skal kjósa um þá á ný, bindandi kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.
11. grein. Staða forseta og framkvæmdastjóra
Heimilt er að forseti SÍ sé í föstu launuðu starfi fyrir sambandið, en fara þá skal eftir 13. gr við ákvörðun starfskjara hans. Með föstu launuðu starfi er átt við að forseti sé einnig í ráðningarsambandi við SÍ og að starfshlutfallið sé að lágmarki 20%. Sé forseti SÍ einnig starfsmaður sambandsins, er stjórn óskylt að ráða framkvæmdastjóra. Forseti tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu stjórnar um hvort hann verði í föstu launuðu starfi.
Sé forseti annað hvort ekki í föstu starfi fyrir sambandið eða í minna en 20% starfshlutfalli er stjórn skylt að ráða framkvæmdastjóra.
Forseti eða framkvæmdastjóri fer með prókúru en allar meiriháttar skuldbindingar af hálfu SÍ skulu samþykktar af meirihluta stjórnar.
Stjórn setur launuðum starfsmönnum sambandsins starfslýsingu, þ.m.t. forseta og framkvæmdastjóra.
12. grein. Verkaskipting stjórnar
Stjórn SÍ skiptir með sér starfsheitum og verkefnum.
Forseti boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Í forföllum forseta gegnir varaforseti störfum hans.
Stjórnarfundir skulu haldnir eigi sjaldnar en annan hvern mánuð. Óski þrír eða fleiri stjórnarmenn eftir stjórnarfundi skal til hans boðað eigi síðar en 7 dögum eftir að ósk þar að lútandi hefur verið borin fram.
Stjórnarfundur er lögmætur ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn eða varastjórnarmenn sitja hann. Verði ágreiningur á stjórnarfundum skal bera afgreiðslu málsins undir atkvæði. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði forseta úrslitum.
13. grein. Kjaranefnd
Kjaranefnd SÍ er skipuð þremur mönnum og einum til vara og er kosin á aðalfundi SÍ til tveggja ára.
Sé forseti SÍ í föstu launuðu starfi við sambandið skal nefndin leggja til laun hans, viðmiðun launabreytinga og starfstengd kjör og ganga frá launasamningi við hann að fenginni staðfestingu stjórnar SÍ á tillögu nefndarinnar. Að breyttu breytanda getur stjórn SÍ leitað til kjaranefndar vegna starfskjara annarra starfsmanna, enda sé þá forseti ekki í föstu launuðu starfi við sambandið.
Kjaranefnd skal halda fundargerðir um fundi sína og leggja fyrir stjórn SÍ. Ákvarðanir nefndarinnar skulu bókaðar og rökstuddar.
Um hæfi þeirra sem kosnir eru í kjaranefnd skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga. Þeir sem kosnir eru í kjaranefnd skulu ekki sitja í stjórn SÍ eða varastjórn.
14. grein. Fastanefndir SÍ
Stjórn SÍ skal að loknum aðalfundi skipa eftirfarandi fastanefndir:
- Mótanefnd,
- Fjárhagsnefnd,
- Landsliðsnefnd,
- Kvennaskáknefnd,
- Æskulýðsnefnd,
- Skákdómaranefnd,
- Skákþjálfaranefnd.
Nefndir starfa samkvæmt viðeigandi reglum SÍ og hafa ekki sérstakan fjárhag. Stjórn getur sett nefndum erindisbréf þar sem verkefni þeirra eru afmörkuð nánar.
Á aðalfundi er hægt að skipa sérstakar tímabundnar nefndir sem starfa á milli aðalfunda til að fjalla um málefni sem nánar eru ákvörðuð af aðalfundi.
Stjórn SÍ getur skipað sérstakar nefndir til að fjalla um afmörkuð verkefni.
IV. kafli Dómstóll SÍ
15. grein. Dómstóll SÍ
Dómstóll SÍ skal skipaður formanni og tveimur meðdómendum. Skulu þeir, ásamt þremur varadómendum, vera kjörnir á aðalfundi SÍ til eins árs, sbr. 8. gr. Þeir sem kjörnir eru í dómstólinn skulu hvorki vera aðal- né varamenn í stjórn SÍ. Að lágmarki skulu tveir af þeim sex sem kjörnir eru dómarar og varadómarar vera löglærðir.
Dómstóll SÍ skal í hverju máli skipaður þremur dómendum og skal að minnsta kosti einn þeirra vera löglærður. Dómari skal gæta að hæfi sínu og meðdómsmanna til að fara með mál og gera það í samræmi við almennt viðurkenndar meginreglur um hæfi dómara.
Dómstóllinn skal hafa endanlegt úrskurðarvald um ágreiningsmál sem koma upp innan vébanda SÍ og varða lög og reglur sambandsins. Dómstóllinn skal byggja niðurstöður sínar á lögum og reglugerðum SÍ, auk laga og reglna Alþjóða skáksambandsins (FIDE) eftir því sem við á. Aga- og úrskurðarmál innan SÍ skulu rekin fyrir dómstólnum nema þau séu sérstaklega falin öðrum samkvæmt lögum og reglugerðum sambandsins.
Skákmenn, taflfélög og aðrir aðilar innan skákhreyfingarinnar geta átt aðild að málum fyrir dómstólnum, til sóknar eða varnar, að því tilskyldu að þeir hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þeirra og um sé að ræða málefni sem heyrir undir dómstólinn. Í því felst að málsaðili þarf að hafa sérstök tengsl við ágreiningsefnið, umfram aðra, og ágreiningsefnið að snerta lög eða reglur SÍ. Dómstóllinn metur hvort mál sem lagt er fyrir hann heyri undir lögsögu hans og hvort skilyrði málsaðildar séu uppfyllt. Við mat á því hvort skilyrðið um lögvarða hagsmuni sé uppfyllt skal dómstóllinn hafa hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttar þar að lútandi.
Dómstóll SÍ getur tekið ákvörðun um viðurlög samkvæmt lögum þessum, skáklögum SÍ og öðrum reglum sem falla undir valdsvið dómstólsins. Brot á lögum og reglum SÍ getur varðað áminningu, keppnisbanni eða banni við annarri aðkomu að skákviðburðum, sem gildir ýmist á einstökum mótum eða í tiltekinn tíma. Stjórn SÍ skal setja reglugerð um agamál, þar sem nánar er kveðið á um hvaða háttsemi getur varðað viðurlögum.
Stjórn SÍ skal í samráði við dómstólinn setja reglugerð um störf og valdsvið dómstólsins.
V. kafli Lokaákvæði
16. grein. Slit SÍ
Komi til þess að SÍ verði slitið skulu eignir sambandsins renna til aðildarfélaga þess í hlutfalli við atkvæðisrétt þeirra á aðalfundi, sbr. 6. gr (breytt 2023)
17. grein. Breytingar á lögum þessum
Breytingar á lögum og skáklögum sambandsins verða einungis gerðar á aðalfundi. Allar lagabreytingartillögur verða að vera fluttar af stjórn SÍ, aðildarfélögum SÍ eða fulltrúum þeirra á aðalfundi. Til að tillaga verði tekin fyrir þarf tillöguflytjandi eða fulltrúi hans að vera viðstaddur á aðalfundi og mæla sjálfur fyrir henni.
Til að breytingar á lögum öðlist gildi þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða, en til breytinga á skáklögum nægir einfaldur meirihluti.
Allar tillögur hér að lútandi ber að senda stjórn SÍ eigi síðar en 20 dögum fyrir aðalfund og skulu þær gerðar aðgengilegar á heimasíðu sambandsins eigi síðar en á sama tíma og ársreikningar sambandsins, sbr. 7. gr.
18. grein. Gildistaka og bráðabirgðaákvæði
Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi fallin eldri lög SÍ.
Bráðabirgðaákvæði:
Nú hefur forseti verið kjörinn á aðalfundi í fyrsta skipti á grundvelli þessara laga og sá sem kjörinn var hefur í senn gegnt forsetaembættinu fyrir kosningarnar og föstu launuðu starfi við sambandið. Þá skulu eftirfarandi reglur gilda um stöðu þessa forseta:
Forsetanum er heimilt í samræmi við 4. mgr. 10. gr. að gegna embættinu í samfellt sex tveggja ára kjörtímabil frá því tímamarki þegar hann var fyrst kjörinn á grundvelli þessara laga.
Við ákvörðun launakjara forsetans á hans fyrsta tveggja ára kjörtímabili skal miða við að þau verði að öllu leyti sambærileg við þau kjör sem hann hafði fyrir kosninguna. Kjaranefnd útfærir ráðningarskilmálana nánar, sbr. 13. gr.
—————-
Heildarlög þessi voru samþykkt á aðalfundi SÍ 29. maí 2021.
Nýrri 16. gr. (slit SÍ) var bætt við á aðalfundi 21. maí 2022 og þær greinar sem á eftir komu fengu þá ný númer.
Breytingar gerðar á aðalfundi SÍ 2023 eru feitletrarðar.