Reglugerð um Íslandsmót Framhaldskólasveita í skák
Páll Sigurðsson
24. mars 2006
Samþykkt 19. maí. 2005
Breytingar gerðar 23.mars 2012
REGLUGERÐ UM ÍSLANDSMÓT FRAMHALDSSKÓLASVEITA Í SKÁK
1. grein.
Skáksamband Íslands heldur árlega Íslandsmót framhaldsskólasveita á tímabilinu febrúar til júní. Keppnin er sveitakeppni og er öllum framhaldsskólum heimil þátttaka. Stjórn S.Í. er heimilt að fela aðildarfélögum þess , framhaldsskólum eða öðrum viðeigandi aðilum mótshaldið til lengri eða skemmri tíma.
2. grein.
Í hverri sveit skulu vera fjórir aðalkeppendur auk 1-4 til vara, sem eru nemendur skólans. Skulu þeir allir vera úr sama skólanum. Þeir sem verða stúdentar um áramót eða hætta í skólanum geta tekið þátt í Íslandsmótinu. Séu þeir nemendur í öðrum skóla þegar keppnin hefst þá verða þeir að tefla fyrir þann skóla. Aldurshámark er 21 árs á keppnisári.
Tilkynna skal um borðaröð keppenda fyrir upphaf 1. umferðar og má ekki breyta röðinni eftir það. Forfallist fyrsta borðs maður skal annars borðs maður flytjast upp á fyrsta borð og þannig koll af kolli. Varamaður kemur inn á fjórða borð.
Óheimilt er að færa keppendur á milli sveita til dæmis úr b-sveit yfir í a-sveit. Keppendum skal raðað á fyrsta til fjórða borð eftir skákstyrkleika. Við mat á skákstyrkleika skal hafa hliðsjón af skákstigum og árangri í opinberum skákmótum. Enginn keppandi má tefla fleiri en eina skák í sömu umferð.
Sé augljóslega brotið gegn ofangreindum reglum hefur skákstjóri heimild til að dæma skákir tapaðar eða beita öðrum úrræðum til úrbóta.
3. grein.
Keppnisfyrirkomulag á Íslandsmótinu skal vera þannig að tefldar verða 6-9 umferðir eftir monrad eða svissnesku kerfi, ef næg þátttaka fæst. Að öðrum kosti skal láta sveitinar tefla einfalda umferð, allar við allar, eða skipta í undanrásarriðla og síðan yrði teflt til úrslita. Önnur atriði svo sem umhugsunartími o.fl. skulu ákveðin af mótshaldara hverju sinni.
4. grein.
Stefnt skal að því að Íslandsmót framhaldsskólanna fari fram á einni helgi til að auðvelda þátttöku sveita víðs vegar að af landinu.
5. grein.
Verði tvær eða fleiri sveitir jafnar og efstar að vinningum í Íslandsmótinu, skal fara fram sérstök aukakeppni milli þeirra um 1. sætið. Fyrirkomulag þeirrar aukakeppni skal ákveðið af mótshaldara hverju sinni.
6. grein.
Sigursveitin í Íslandsmótinu hlýtur rétt til þátttöku í Norðurlandamóti framhaldsskólasveita í skák sem fram fer á haustin.
Heimilt er stjórn S.Í. að fela taflfélögum á svæði sigursveitarinnar, Skákskóla Íslands eða öðrum ábyrgum aðilum, að annast undirbúning að þátttöku í Norðurlandamótinu.
7. grein.
Allan ferðakostnað í sambandi við þátttöku á Íslandsmótinu skulu skólasveitirnar greiða sjálfar. Einnig fæðis-og gistikostnað á meðan á Íslandsmótinu stendur.
8. gr.
Eins og fram kemur í lögum FIDE þá er utanaðkomandi aðilum (aðrir keppendur, liðstjórar, foreldrar, áhorfendur ..) óheimilt að hafa áhrif á gang einstakra skáka á neinn hátt. Dæmi um slík óheimil inngrip eru: gefa vísbendingar um leiki, láta vita um fall á tíma, ráðleggingar um jafnteflisboð eða uppgjöf o.s.frv. Undantekning frá þessu er að liðstjóri má ráðleggja um hvort taka eigi jafntefli eða bjóða jafntefli í keppni þar sem liðsstig (matchpoints) ráða úrslitum, sbr mótareglur FIDE.
Skákstjóra er heimilt að refsa þeirri sveit sem hagnast á brotinu með viðeigandi hætti. Við ítrekuð brot er skákstjóra heimilt að vísa sveit úr móti.
9. gr.
Leitast skal við að sveitir frá sama skóla tefli innbyrðis í 1.umferð. Sveitir frá sama skóla geta ekki teflt innbyrðis í síðustu umferð.