Reglugerð um Íslandsmót skákfélaga

Uppfærð 4. september 2015.

Reglugerð um Íslandsmót skákfélaga

1. gr.

Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga skal tefldur á tímabilinu september til desember. Síðari hluti mótsins skal fara fram eftir áramótin og vera lokið fyrir apríllok.

2. gr.

Framkvæmdanefnd mótsins, sem skipuð er af stjórn Skáksambands Íslands, ákveður töfluröð og skipar skákstjóra og umsjónarmenn.
Öllum taflfélögum, sem eiga sveitir í 1. deild, ber að útvega einn skákstjóra.

3. gr.

Tefla skal einfalda umferð í 1. og 2. deild, en stjórn SÍ skal ákveða fyrirkomu­lag í 3. og 4. deild, miðað við fjölda þátttökusveita.

Ef stendur á stöku í deild skal sveit sem situr hjá í umferð fá 4 vinninga í yfirsetunni.

Stjórn SÍ ákveður tímamörk skáka, en þau skulu ekki vera skemmri en kappskákartímamörk FIDE.

4. gr.

Liðsstjórum sveita sem svart hafa á 1. borði er skylt að gefa skákstjóra skýrslu um úrslit viðureignarinnar, strax að henni lokinni.

5. gr.

Hver sveit í 1. deild skal skipuð 8 keppendum, en í öðrum deildum skulu sveitir skipaðar 6 keppendum.

Fyrir upphaf hverrar umferðar skulu liðsstjórar tilkynna liðsskipan sinna sveita til skákstjóra, á þar til gerðu eyðublaði. Skáksveitum er óheimilt að hefja viðureign nema umræddri tilkynningu hafi verið skilað inn með fullnægjandi hætti.

6. gr.

Við uppstillingu í sveit skal keppendum raðað í styrkleikaröð, þannig að sterkasti skákmaðurinn teflir á fyrsta borði, sá næststerkasti á öðru borði o.s.frv.

Styrkleikaröðuðum lista skal skila til SÍ á póstfangið keppendaskra@skaksamband.is fyrir upphaf 1.umferðar. Auðkenna skal röð keppenda með númeri í sér dálki og raða skjalinu samkvæmt því.

Ef félag teflir fram fleiri en einni sveit í keppninni skulu þau auðkennd með A, B, C o.s.frv. Sveit A skal vera sterkasta sveit félagsins, sveit B sú næststerkasta o.s.frv. Efsta borð í neðri sveit skal vera skipað aðila sem hefur svipaðan eða minni styrkleika en neðsta borð í efri sveit.

Hverju félagi er heimilt að hafa unglinga-öldunga-og kvennasveitir sem ekki þurfa að uppfylla framangreind skilyrði. Skákmönnum þessara sveita er heimilt að tefla með öðrum sveitum, sem ekki eru unglinga-öldunga-eða kvennasveitir, hvenær sem er í keppninni en geta að því loknu ekki teflt aftur með unglinga-öldunga-eða kvennasveit. Hafi félög fleiri en eina unglinga-öldunga-eða kvennasveit skal raða þeim í styrkleikaröð og er félögunum heimilt að flytja skákmenn á milli þessara sveita á sama hátt og um almennar sveitir væri að ræða.

Auðkenna skal og skrá þessar sveitir sérstaklega t.d. <félag>-öldungasveit-A og skal sú merking ásamt eiginleikum halda sér á milli ára. Öldungar teljast skákmenn 60 ára og eldri og unglingar 20 ára og yngri. Ákveði félag að hætta með unglinga-/öldunga-/kvennasveit þá breytist hún í venjulega sveit. Ekki er hægt að breyta venjulegri sveit í unglinga-/öldunga-/kvennasveit.

Brjóti félag gegn ákvæðum þessarar greinar við röðun í sveitir teljast þeir keppendur sem rangt er raðað ólöglegir og skal meðferð málsins þá vera skv. 20. gr. skáklaga.

7. gr.

Framkvæmdanefnd er heimilt að fresta viðureign ef um samgönguerfiðleika innanlands er að ræða. Sé viðureign frestað skal ákveða nýjan keppnisdag innan hálfs mánaðar. Umferð skal lokið innan 30 daga frá töfludegi.

8. gr.

Dragi lið sveit úr keppni skal það ávallt vera neðsta sveit viðkomandi liðs. dæmi: lið með A, B og C sveit, sem hyggst draga eina sveit úr keppni, getur einungis dregið C-sveit sína úr keppni.

Við sameiningu tveggja eða fleiri félaga skal þó hið sameinaða félag halda deildarsætum viðkomandi félaga eins og þau voru réttilega áunnin fyrir sameininguna. Sameining skákfélaga þarf að fara fram a.m.k. 30 dögum fyrir upphafsumferð Íslandsmóts skákfélaga til að teljast gild á viðkomandi móti.

9. gr.

Fái tvær eða fleiri sveitir jafnmarga vinninga í deildum þar sem allir tefla við alla skulu úrslit útkljáð á eftirfarandi máta:

a) a) Liðsstig (Match points).

b) b) Innbyrðisúrslit.

c) c) Sonneborn-Berger.

d) d) Borðastig í innbyrðisviðureign(um). Átta stig fyrir sigur á fyrsta borði, sjö stig fyrir sigur á 2. borði o.sfrv.

e) e) Hlutkesti – nema að um sé að ræða Íslandsmeistaratitilinn sjálfan. Þá skal teflt til úrslita í hraðskák (3+2) þar til hrein úrslit fást.

Fái tvær eða fleiri sveitir jafn mörg liðsstig í deildum þar sem teflt er eftir svissneska kerfinu skulu úrslit útkljáð á eftirfarandi máta:

a a) Vinningar.

b) b) Innbyrðisúrslit.

c) c) Buchols-stigaútreikningur (neðsti dregin frá).

d) d) Buchols (engin dregin frá).

e) e) Sonneborn-Berger.

f) f) Hlutkesti.

10. gr.

Ef flytja þarf fleiri sveitir upp á milli deilda en gert er ráð fyrir skv. 17. gr. skáklaga, eða ef sveit sem á að flytjast upp skv. sömu grein kýs að taka ekki sæti sitt í efri deild skal bjóða öðrum sveitum úr sömu deild að taka sæti þess í efri deild. Öðrum sveitum en þeim sem samkvæmt 17. gr. skáklaga eiga að færast upp er heimilt að hafna slíku boði án skýringa. Sveitum úr neðri deildinni skal boðið að færast upp um deild í eftirfarandi forgangsröð:

1. Sveitin sem lenti í þriðja sæti.
2. Sú sveitanna tveggja sem féll úr efri deildinni sem lenti þar í næstneðsta sæti.
3. Sveitin sem lenti í fjórða sæti deildarinnar.
4. Sú sveitanna tveggja sem féllu úr efri deildinni sem lenti þar í neðsta sæti.
5. Sveitin sem lenti í fimmta sæti deildarinnar og svo koll af kolli.

Almennt gildir sú regla að næsta sveit sem á að fara upp hefur forgang en annars virkar á víxl.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 21. gr. skáklaga SÍ og tekur gildi við útgáfu hennar.