Reglugerð um skákdómstól

Reglugerð um skákdómstól
Kristian Guttesen
03. janúar 2005

1. gr.
Dómstóll Skáksambands Íslands er kosinn á aðalfundi Skáksambandsins og skipa hann þrír menn og þrír til vara. (Æskilegt er að einn dómara og einn varadómara sé lögfræðingur, en hinir hafi réttindi skákdómara.)

Hlutverk dómstólsins er að úrskurða um ágreining, er kemur upp um túlkun á skáklögum Skáksambands Íslands, sbr. 10. gr. þeirra laga, að fella fullnaðarúrskurð um viðurlög við brotum á 13. gr. laga um Skáksamband Íslands og vera áfrýjunardómstóll vegna úrskurða skákstjóra í skákmótum, sem reiknuð er til alþjóðlegra skákstiga, um túlkun á skáklögum F.I.D.E og skáklögum Skáksamband Íslands sbr. 2. gr. þeirra laga.

Aðsetur dómstólsins er á skrifstofu Skáksambands Íslands, sem varðveitir skjöl hans og gerðarbækur.

2. gr.
Aðilar máls eru þessir:

Ef ágreiningur snýst um úrskurð skákstjóra, eru aðilar viðkomandi skákmenn ef um er að ræða skákmót, en ef um er að ræða sveitakeppni, eru það viðkomandi skákfélög. Þó geta einstakir skákmenn ætíð kært, ef ágreiningur snýst um úrslit einstakra skáka. Sá aðili, sem kærir úrskurð skákstjóra, telst sóknaraðili, en sá, sem nýtur úrskurðarins, telst varnaraðili. Sama gildir, ef ágreiningur fellur undir 10. gr. skáklaga Skáksambands Íslands.
Ef dómstólinn úrskurðar um viðurlög við brotum á 13. gr. laga um Skáksamband Íslands, skal sá, er krefst viðurlaganna, vera sóknaraðili. Aðilar slíks máls eru annars vegar sá, er kæran beinist gegn, en hins vegar sá, er telur á brotið á sér, skákstjóri viðkomandi skákmóts, mótshaldari eða stjórn Skáksambands Íslands.
3. gr.
Sá, er kæra vill til dómstólsins, skal koma skriflegri kæru í tveimur eintökum til skrifstofu Skáksambands Íslands, til einhvers hinna þriggja aðaldómara, eða til aðalskákstjóra viðkomandi skákmóts. Sá, er tekur á móti kærunni, skal árita bæði eintök um klukkan hvað og hvenær kæran var móttekin, og skal kærandi fá annað eintakið. Heimilt er að senda kæru til skrifstofu Skáksambands Íslands í símbréfi, með tölvupósti eða símskeyti, og fær þá kærandi kvittað afrit hjá skrifstofu Skáksambands Íslands. Kæra er gild, þótt hún berist aðeins í einu eintaki.

Í kæru skv. 1. tl. 2. gr. skal greina:

a) Hver hin kærða ákvörðun eða túlkun er
b) hverjir eru aðilar málsins
c) á hvaða grunni kæran er reist.

Í kæru skv. 2. tl. 2. gr. skal greina:

a) Hver er sakaður um brotið
b) hvert hið meinta brot er
c) hvaða viðurlaga er krafizt
d) á hvaða grunni kæran er reist.

4. gr.
Kærufrestur er einn sólarhringur, ef atvik varða framkvæmd skákmóts, sem er hafið.
Hann telst frá lokum þeirrar skákar, er kært er út af, ef um er að ræða einstaka skák; en ef um er að ræða skák í skákmóti, þá einn sólarhringur frá reglulegum lokum þeirrar umferðar, sem skákin var tefld í.

Ef um er að ræða aðra úrskurði skákstjóra telst fresturinn frá því, að sóknaraðila var kunnugt um úrskurðinn. Ef um er að ræða sveitakeppni, telst fresturinn frá því, að skákstjóri kunngerði fyrirliða eða liðsstjóra um úrskurð sinn.

Ef um er að ræða úrskurð mótstjórnar eða annarra telst fresturinn á sama hátt og í 4. tl.
Ef um er að ræða aðrar kæranlegar ákvarðanir skv. 1. tl. 2. gr. telst fresturinn frá því að kærandi vissi af honum.

Ef um er að ræða önnur atvik en varða einstakar skákir eða skákmót, sem er hafið, er kærufrestur ein vika og telst á sama hátt og í 1. til 5. tl., nema að talið er frá lokum þess dags, sem hin kærða athöfn átti sér stað.

Ef um er að ræða atvik er varða 13. gr. laga um Skáksamband Íslands skal kærufrestur vera einn mánuður.

5. gr.
Þegar kæra hefur borizt, skal dómstóllinn koma saman eins fljótt og hægt er. Jafnframt skal varnaraðila gert viðvart um kæruna og honum gefinn stuttur frestur, þó ekki skemmri en tveir tímar, til að skýra sjónarmið sitt. Ef um úrskurð skákstjóra er að ræða, skal einnig gefa honum frest til að rökstyðja skriflega úrskurð sinn. Dómurinn getur kallað aðila fyrir og skákstjóra til að upplýsa málið betur, og eins getur dómurinn kallað fyrir vitni, ef nauðsyn krefur. Ef kæran er um galla á skákbúnaði, t.d. klukku, skal skákstjóri taka viðkomandi búnað til varðveizlu til að dómurinn geti skoðað hann.

Dómstóllinn metur sjálfur um hæfi dómara til að dæma í máli og skal fara eftir almennum vanhæfisreglum íslenzkra dómskapa.

Miða skal við, að úrskurður sé felldur innan sólarhrings frá því að kæra hefur borizt dómstólnum, ef málið varðar 1. mgr. 4. gr.

Nú telur dómstóllinn, að mál heyri ekki undir hann, og vísar hann þá málinu frá.

Úrskurðir dómstólsins skulu vera skriflegir. Halda skal sérstaka gerðarbók um störf hans.

6. gr.
Úrskurðir dómstólsins taka gildi frá uppsögu hans. Úrskurðurinn skal afhentur aðilum, ef þeir eru nærstaddir, en ella sendir þeim í pósti. Ef um skákmót í gangi er að ræða, skal birta úrskurðinn á skákstað.

Úrskurðir dómstólsins eru endanlegir.

7. gr.
Reglugerð þessi er sett af stjórn Skáksambands Íslands með stoð í 13. gr. laga Skáksambands Íslands til að öðlast þegar gildi.