Styrkjareglur SÍ

Styrkjareglur SÍ

Styrkveitingar Skáksambands Íslands
Almennar reglur og viðmið

Endurskoðaðar í janúar 2023– taka gildi 1. janúar 2023

Aðalmarkmið styrkveitinga stjórnar Skáksambands Íslands til einstaklinga er að styðja við bakið á þeim skákmönnum sem sýnt hafa mestar framfarir, metnað og ástundun á síðustu 12 mánuðum, og þykja því líklegastir til að ná enn lengra í nánustu framtíð. Einnig er markmiðið að verðlauna fyrir afburðaárangur og hvetja þannig til afreka.

Styrkjum frá SÍ er ekki ætlað að styrkja hinn almenna skákáhugamann til farar erlendis, heldur einungis þá sem þykja skara fram úr. Sérstök áhersla er lögð á yngri skákmenn sem eru tilbúnir til að leggja á sig þjálfun til að standa sig á þeim mótum sem styrkbeiðni liggur fyrir um.

Við allar úthlutanir á að vera lögð áhersla á jafnrétti kynjanna og að þeim stúlkum sem skarað hafa fram úr í hverjum aldursflokki sé gert kleift að afla sér reynslu á skákmótum erlendis til jafns á við stráka. Sams konar kröfur um ástundun, árangur og framfarir eru hins vegar gerðar til allra, stúlkna og drengja, kvenna og karla.

Viðmið við styrkúthlutanir

 1. Allir styrkþegar SÍ (ungir, alþjóðlegir og aðrir) þurfa að uppfylla eftirfarandi þrjú skilyrði:
 • Hafa teflt 60 reiknaðar kappskákir til alþjóðlegra stiga á síðustu 24 mánuðum.
 • Hafa sýnt mikinn metnað og lagt mikla vinnu í skákiðkun undanfarin misseri.
 • Hafa sýnt virkni í skákmótum innanlands.
 1. Ungir skákmenn (25 ára og yngri) hafa forgang þegar kemur að úthlutun ferðastyrkja.
 2. Alþjóðlegir meistarar geta fengið ferðastyrki frá SÍ óháð aldri.
 3. Þeir sem þiggja stórmeistaralaun geta ekki fengið almenna ferðastyrki frá SÍ.
 4. Aðrir skákmenn geta fengið ferðastyrki ef þeir ná árangri sem samsvarar 2350 stigum eða meira (“performance”) í móti sem styrkur er sóttur um. Ákvörðun um styrkveitingu er tekin eftir mót.

Umsóknareyðublöð og skil

Allir sem sækja um styrk til SÍ þurfa að leggja fram umsókn á þar til gerðu rafrænu eyðublaði.

Rafræna eyðublaðið

Þar á að koma fram hvers vegna tiltekið skákmót er valið og hvers vegna viðkomandi telur að hann hafi rétt á styrk frá SÍ skv. ofangreindum skilyrðum.

Ef umsókn er ófullnægjandi og ekki skilað á þann hátt sem að ofan greinir, er henni sjálfkrafa vísað frá.

Styrkir SÍ eru afgreiddir a.m.k. þrisvar sinnum á ári. 10. febrúar, 10. júní og 10. október. Sækja þarf um styrkina í lok undangengins mánaðar. Ætlast er til þess að sótt sé um styrki áður en haldið er á mót en þó verður tekið tillit til sérstakra aðstæðna ef þær eru nefndar og þykja vera fyrir hendi.

Sérstök styrkjanefnd, skipuð af stjórn SÍ, fer yfir allar umsóknir og gerir tillögur til stjórnar um afgreiðslu styrkja hverju sinni. Styrkjum SÍ er skipt upp í fjóra flokka. Við úthlutanir styrkja getur Styrkjanefnd horft á hæstu FIDE-stig síðustu 12 mánuði.

Styrkflokkar

 

 • Efsta stig – allt að 150.000 kr. á almanksári (60.000 kr. hámark á mót)
 • Annað stig – allt 100.000 kr. á almanksári (40.000 kr. hámark á mót)
 • Þriðja stig – allt að 60.000 kr. almanksári (30.000 kr. hámark á mót)
 • Fjórða stig – allt að 25.000 á almanksári. (25.000 kr. hámark á mót)

Allir sem hljóta styrki þurfa að uppfylla 1. tl. reglugerðarinnar.

 

Efsta stig

Aðeins alþjóðlegir meistarar með meira en 2400 alþjóðleg skákstig og skákmenn í heimsafrekum (A1-sjá töflu í viðauka) geta fengið styrki á efsta stigi.

Alþjóðlegir meistarar geta aðeins fengið styrki á áfangahæf mót (GM-áfangar).

Annað stig

Alþjóðlegir meistarar, án tillits til aldurs, og FIDE-meistarar, 25 ára og yngri, með meira en 2300 alþjóðleg skákstig og skákmenn sem ná afreksmörkum (A2- sjá töflu í viðauka) geta fengið styrki á öðru stigi.

Alþjóðir meistarar geta aðeins fengið styrki á mót þar sem stórmeistaraáfangar eru í boði og FIDE-meistarar geta aðeins fengið styrki á móti þar sem IM-áfangar eru í boði.

Þriðja stig

Aðeins skákmenn, 25 ára og yngri, með 2200 alþjóðleg skákstig eða meira og þeir sem ná lágmörkum (A3-sjá töflu í viðauka) geta fengið styrki skv. þriðja stigi.

Fjórða stig

Allir sem hljóta styrki á fjórða stig þurfa að uppfylla 1. tl. reglugerðarinnar  og vera 25 ára yngri.

Skyldur styrkþega gagnvart SÍ:

Að loknu móti skulu styrkþegar, í samráði við skrifstofu SÍ, inna vinnu af hendi fyrir skákhreyfinguna sem miðast við u.þ.b. hálfan vinnudag. Um getur verið að ræða pistil, skákskýringar, kennslu, þátttöku í námskeiði, fjöltefli eða eitthvað annað. Styrkþegar skulu komast að samkomulagi við skrifstofu SÍ um framkvæmdina. Gerð er krafa um fyrirmyndar hegðun á skákmótum erlendis. Styrkjanefnd getur svipt menn styrkjum sé það ekki raunin.

Styrkir eru borgaðir út eftir að skákmóti lýkur, þegar ljóst er að skyldur styrkþega verða uppfylltar.

Reglur um áfangastyrki og boð á EM-einstaklinga

Stórmeistara áfangar: SÍ veitir íslenskum skákmanni sem nær stórmeistaraáfanga karla 300.000 krónur. Mögulegt er að hljóta tvo þannig styrki.

Alþjóðlegir áfangar: SÍ veitir íslenskum skákmanni sem nær alþjóðlegum áfanga  karla 100.000 krónur. Mögulegt er að hljóta þrjá þannig styrki.

Áfangastyrkir eru ekki veittir þeim sem hafa náð viðkomandi titlum.

EM-einstaklinga í opnum flokki: 

Sigurvegari á Skákþingi Íslands er sendur af SÍ á næsta EM-einstaklinga.

Ef íslenskur skákmaður,

 1. a) nær að fara yfir 2600 FIDE-stig síðustu tólf mánuði fyrir EM
 2. b) eða vinnur Reykjavíkurmótið (jafnt efsta sæti nægir)
 3. c) eða nær árangri á skákmóti sem uppfyllir hvoru tveggja
 4. Gildur GM-áfangi
 5. Árangur (performance) upp á 2670 skákstig

þá býður SÍ honum á næsta EM einstaklinga.

Ef stutt er frá því að réttur til EM náðist fram að næsta móti, er heimilt að taka boðið út á þarnæsta EM í staðinn.

EM-einstaklinga í kvennaflokki: 

Ef íslensk skákkona nær,

 1. a) alþjóðlegum áfanga karla
 2. b) eða nær árangri áskákmóti sem uppfyllir hvoru tveggja
 3. Gildur IM-áfangi
 4. Árangur (performance) upp á 2450 skákstig

þá býður SÍ henni á næsta EM-einstaklinga í kvennaflokki.

Ef stutt er frá því að réttur til EM náðist fram að næsta móti, er heimilt að taka boðið út á þarnæsta EM í staðinn.

Viðauki

 

Strákar Stelpur
Heims Afreks Lágmark Heims Afreks Lágmark
U20 2450 2350 2200 2200 2050 1850
U19 2400 2300 2100 2150 2000 1800
U18 2350 2200 2000 2100 1950 1750
U17 2300 2150 1950 2050 1850 1650
U16 2250 2050 1900 1950 1800 1600
U15 2200 2000 1800 1850 1700 1500
U14 2100 1950 1700 1800 1600 1400
U13 2000 1800 1600 1700 1550 1350
U12 1900 1700 1450 1600 1450 1250
U11 1800 1600 1350 1500 1350 1150
U10 1650 1450 1250 1350 1200 1050
U9 1500 1300 1100 1250 1100 1000
U8 1350 1100 1000 1150 1000 1000